Ferill 800. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1654  —  800. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller um nýjan Landspítala við Hringbraut.


     1.      Hvað tók skipulagsvinna við nýjan Landspítala við Hringbraut langan tíma þar til allar skipulagsáætlanir höfðu verið samþykktar lögformlega?
    Skipulagsvinna vegna nýs Landspítala við Hringbraut á sér langa sögu og erfitt að setja eina mælistiku á hvað hún hefur tekið langan tíma.

Aðalskipulag.
    Allar götur frá staðfestingu aðalskipulags Reykjavíkur 1984–2004 árið 1988, sem leysti af hólmi aðalskipulag frá sjöunda áratugnum, hefur í aðalskipulagi Reykjavíkur verið gert ráð fyrir færslu Hringbrautar suður fyrir Læknagarð og samfelldu stofnanasvæði norðan nýrrar Hringbrautar að Barónsstíg og Eiríksgötu í norðri. Við staðfestingu aðalskipulagsins árið 1988 var Læknagarður þegar risinn á svæðinu milli gömlu og nýju Hringbrautar. Þessi landnotkun á svæðinu sunnan gömlu Hringbrautar var því áformuð löngu áður en Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalinn sameinuðust, sem gerðist árið 2000, en í kjölfar þess, eða árið 2002, var ákveðið að framtíðaruppbygging spítalans yrði við Hringbraut. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–2024, sem staðfest var árið 2002, voru sett fram ítarlegri ákvæði um uppbyggingu á reitnum, en með breytingu sem gerð var á því árið 2013 var heimilað aukið byggingarmagn á reitnum.
    Í núgildandi aðalskipulagi, aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030, sem staðfest var árið 2014, er áfram gert ráð fyrir uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og unnið út frá hug­mynd um vaxtarpól rannsókna og nýsköpunar í Vatnsmýri sem byggir á grunni og tengslum Landspítala og háskólanna tveggja í Vatnsmýri.

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.
    Fyrsta svæðisskipulag sem staðfest var fyrir höfuðborgarsvæðið var svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001–2024, sem staðfest var árið 2002. Þar er eins og í aðalskipulag­inu gert ráð fyrir færslu Hringbrautar til suðurs. Gerð var breyting á svæðisskipulaginu árið 2013 samhliða aðalskipulagsbreytingu til að heimila breytingar á Hringbrautarlóðinni og auka byggingarmagn við Landspítala.
    Í núgildandi svæðisskipulagi, „Höfuðborgarsvæðið 2040“, sem staðfest var árið 2015, er lögð áhersla á að auka samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins með því að skapa góð skilyrði fyrir þekkingariðnað. Liður í þeirri stefnu er að mörkuð er stefna um miðstöð þekkingar og nýsköpunar í Vatnsmýri sem hvílir á grunni Landspítala og háskólanna tveggja.
    Mikilvægt atriði í vinnu við svæðisskipulagið er að öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vinna sameiginlega að því og allar breytingar á skipulagsáætlunum þurfa umfjöllun og stað­festingu allra sveitarfélaganna. Sú breyting sem lögð var til grundvallar á árunum 2010–2013 fékk umfjöllun og staðfestingu allra sveitarfélaganna. Án þess hefði svæðisskipulagið ekki tekið gildi.

Mat á umhverfisáhrifum.
    Færsla Hringbrautar sunnan við Landspítala fór í mat á umhverfisáhrifum árið 2003. Yfirlýst markmið þeirrar framkvæmdar var m.a. að sameina Landspítalalóðina beggja vegna gömlu Hringbrautar í samræmi við samning ríkis og Reykjavíkurborgar þar um. Í kjölfar þess var Hringbraut færð.

Deiliskipulag.
    Árið 2005 var staðið fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag Landspítalalóðarinnar. Í kjölfar samkeppninnar var hafin vinna við deiliskipulag svæðisins, en hætt var við þá vinnu vegna efnahagshrunsins 2008. Árið 2009 var þráðurinn tekinn upp að nýju og fyrri áform um uppbyggingu á svæðinu endurskoðuð. Hönnunarsamkeppni var haldin 2009–2010 og í kjöl­farið hófst formleg vinna að nýju deiliskipulagi fyrir Landspítala árið 2010 og lauk með gildistöku deiliskipulags fyrir svæðið vorið 2013.

Samantekt.
    Segja má að gert hafi verið ráð fyrir svæðinu sem samfelldu stofnanasvæði tengdu lóð Landspítala í aðalskipulagi frá níunda áratug síðustu aldar. Hringbraut var færð á fyrstu árum þessarar aldar til að sameina Landspítalalóðina beggja vegna gömlu Hringbrautar. Deili­skipulagsvinna fyrir framtíðaruppbyggingu Landspítala við Hringbraut hefur átt sér stað í tveimur áföngum, fyrst á grundvelli fyrri áforma sem voru afrakstur hugmyndasamkeppni sem fram fór árið 2005, síðan á grundvelli endurskoðaðra áforma og hönnunarsamkeppni sem fram fór 2009–2010. Sú deiliskipulagsvinna hófst formlega árið 2010 og lauk með sam­þykktu deiliskipulagi vorið 2013.

     2.      Hvaða reglur gilda um neitunarvald sveitarfélaga um breytingar á svæðaskipulagi á höfuðborgarsvæðinu?
    Svæðisskipulag og breytingar á því er háð samþykki allra hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða umhverfis- og auðlindaráðherra ef Skipulagsstofnun vísar staðfestingu skipulagsins til meðferðar ráðherra.

     3.      Hvenær lýkur byggingaframkvæmdum við nýjan spítala samkvæmt núgildandi áætlun­um?
          Sjúkrahótel: Verklok 2017.
          Meðferðarkjarni/legudeildir: Áætluð verklok 2023.
          Rannsóknarhús: Áætluð verklok 2023.
          Bílastæðahús: Áætluð verklok 2021.
          Götur, veitur og lóð á norðurhluta lóðar: Áætluð verklok 2023.

     4.      Nýtist skipulags- og hönnunarvinnan við nýjan spítala við önnur verkefni?
    Um er að ræða stóran uppbyggingarreit miðlægt í borginni og skipulag hans og útfærsla skiptir máli fyrir skipulag og hönnun aðliggjandi reita.
    Ef skipuleggja ætti spítalann á nýjum stað þyrfti að taka tillit til þess að skipulagsferli og útfærslu byggðar þarf ávallt að vinna út frá staðbundnum aðstæðum á þeim stað sem í hlut á. Ef gera ætti ráð fyrir framtíðaruppbyggingu Landspítala annars staðar þýddi það breytingar á svæðisskipulagi, breytingar á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags og deiliskipulagsgerð. Vinna þyrfti greiningar og fara í gegnum samráðsvinnu við hagsmunaaðila og útfæra tillögu­gerð. Vandséð er að skipulagsvinna fyrir Landspítalabyggingu við Hringbraut kæmi þar að miklu gagni. Samkvæmt mati Framkvæmdasýslu ríkisins og Skipulagsstofnunar má ætla að ef hafist yrði handa við uppbyggingu á nýjum Landspítala á nýjum stað mundi það seinka afhendingu hans um 10–15 ár.
    Sú tímaáætlun stofnananna byggir m.a. á eftirfarandi þáttum:
          Frumathugunarstig taki um fimm ár. Í því felst ýmis undirbúningur, breytingar á lögum, þarfagreining og húsrýmisáætlun og ákvörðun um byggingarmagn, einnig vinna við nýja staðsetningu, staðarval, skoðun og greining á því og ákvörðun um nýja staðsetningu, breyting á svæðisskipulagi, forval, skipulagssamkeppni og forhönnun, aðalskipulag og deiliskipulag nýrrar lóðar.
          Greiningarvinna taki um 6–18 mánuði. Í henni felst að meta og ákveða hvaða starfsemi á að vera á nýjum stað. Þarfagreining þarf að liggja fyrir svo og forhönnun. Meta þarf og ákveða hvort eða hvernig á að byggja t.d. barnaspítala og geðdeild. Leggja þarf mat á aðra þætti svo sem nauðsynlega stoðþjónustu.
          Áætlunargerð taki a.m.k. rúmlega fimm ár. Þá er miðað við að forhönnun taki rúm tvö ár og að fullnaðarhönnun taki rúm þrjú ár.
          Samráðsvinna vegna útboðs á verklegum framkvæmdum taki um hálft ár.
          Í þessu mati hefur ekki verið tekið tillit til áhættuþátta svo sem óvissu vegna samráðs, samþykkta og fjármögnunar.

     5.      Hvert er mat og reynsla opinberra aðila á tímafrestun framkvæmda líkt og við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut?
    Endurnýjun húsnæðis Landspítala er mikilvægt fyrir starfsemi spítalans. Framkvæmdir við uppbyggingu spítalans við Hringbraut eru hafnar og áætluð verklok eru í lok árs 2023. Tímafrestun getur haft ýmsa þætti í för með sér, m.a. aukinn kostnað og tíma við að koma verkefninu af stað aftur, tækniþróun og aðrar breytingar geta haft í för með sér að breyta þurfi hönnunargögnum. Endurskoða þarf kostnaðar- og tímaáætlanir verkefnis og að endurvekja vinnu með notendum, sem hefur verið umfangsmikil í þessu verkefni.