Ferill 865. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1670  —  865. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Matthías G. Pálsson og Þorvald Hrafn Yngvason frá utanríkisráðuneyti, Ívar Má Ottason frá innanríkisráðuneyti, Rún Knúts­dóttur frá velferðarráðuneyti og Guðna Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Þá kynnti nefndin sér skýrslu velferðarnefndar um tillögu Kristjáns L. Möllers o.fl. til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (180. mál) og byggir álit sitt m.a. á umfjöllun velferðarnefndar. Skýrsla velferðarnefndar er birt sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var fyrir Íslands hönd 30. mars 2007. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti samninginn um réttindi fatlaðs fólks og valkvæða bókun hans 13. desember 2006. Hinn 30. mars 2007 var opnað fyrir undir­skriftir og þann dag undirritaði 81 aðildarríki samninginn, þar á meðal Ísland. Síðan þá hafa 166 aðildarríki fullgilt samninginn. Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og auka virð­ingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kemur fram að ástæðan fyrir tilurð alþjóð­legs mannréttindasáttmála um réttindi fatlaðs fólks sé sú staðreynd að þrátt fyrir að fatlað fólk eigi sömu mannréttindi og aðrir sé því oft ekki gert kleift að nýta sér réttindi sín. Samn­ingurinn er því til fyllingar öðrum mannréttindasamningum en felur ekki í sér ný réttindi til fatlaðs fólks. Öllu heldur skýrir hann skyldur aðildarríkjanna til að virða og tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til að njóta mannréttinda. Kjarni samningsins snýr að jafnrétti en jafnrétti er tryggt í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
    Þau réttindi sem samningurinn fjallar sérstaklega um eru m.a. jafnrétti og bann við mis­munun, réttur til lífs, frelsis og mannhelgi, réttarstaða til jafns við aðra, frelsi frá því að sæta misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, réttur til líkamlegrar og andlegrar frið­helgi, réttur til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu, skoðana- og tjáningar­frelsi, virðing fyrir einkalífi og réttur til menntunar, heilsu, vinnu og viðunandi lífskjara og réttur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi.
    Samningurinn tekur sérstaklega á sviðum þar sem aðildarríki þurfa að beita sér með ákveðnum hætti til þess að fatlað fólk fái notið réttinda sinna enda er það ekki það sama að eiga réttindi og geta nýtt sér þau. Af þeim sökum leggur samningurinn aðildarríkjum þá skyldu á herðar að skapa þær aðstæður að fatlað fólk geti nýtt sér réttindi sín til jafns við aðra.
    Í samningnum er mælt fyrir um bæði innlent og alþjóðlegt eftirlit með framkvæmd hans. Aðildarríki skulu hafa eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar sem greiða skal fyrir málum er varða framkvæmd samningsins. Að auki er lögð sú skylda á aðildarríki að koma á fót kerfi sem fylgist með framkvæmd samningsins innan lands og fullnægir meginreglum um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda. Alþjóð­legt eftirlit felur í sér að komið verði á fót nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem skipuð verði óháðum sérfræðingum. Út frá reglulegri skýrslugjöf aðildar­ríkjanna til nefndarinnar vinnur hún athugasemdir og tillögur til aðildarríkjanna um það sem betur má fara samkvæmt samningnum.
    Alþingi samþykkti 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks til ársins 2014, sem m.a. fól í sér að undirbúa skyldi fullgildingu samn­ings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og stefna bæri að því að ljúka þeirri vinnu á árinu 2013. Á grundvelli hennar leiddi innanríkisráðuneytið samstarfsnefnd ráðuneyta um undirbúning fullgildingar samningsins og hafa ráðuneytin yfirfarið gildandi löggjöf á sínum málefnasviðum með tilliti til þeirra skuldbindinga sem samningurinn felur í sér. Þegar hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf til undirbúnings fullgildingar samningsins en út af stendur að leggja fram frumvörp um þjónustu við fatlað fólk og breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, um bann við mismunun, og um sjálfstæða mannréttinda­stofnun sem mun sinna eftirliti með framkvæmd samningsins. Loks þarf að endurskoða lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemis­aðgerðir.
    Fyrir nefndinni kom fram að fullgildingin næði einungis til samningsins sjálfs en ekki til hinnar valkvæðu bókunar sem samningnum fylgdi. Standi vilji Alþingis til að fullgilda hana þarf því aðra ákvörðun þar um. Þá kom einnig fram að stutt er í fund Sameinuðu þjóðanna þar sem ríki geta skilað inn fullgildargögnum vegna alþjóðasamninga. Nefndin hvetur stjórn­völd til þess að hafa hraðar hendur svo að fullgildingargögn verði tilbúin innan þess tíma og ljúka megi fullgildingarferlinu með afhendingu þeirra til Sameinuðu þjóðanna.
    Nefndin tekur undir með velferðarnefnd um að óforsvaranlegt sé að svo langt hafi liðið frá samþykkt framangreindrar þingsályktunar án fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lítur svo á að stjórnvöld hafi ekki staðið sig sem skyldi í þessum mikilvæga málaflokki. Nefndin leggur áherslu á að í samþykkt tillögunnar felist jafnframt yfirlýsing Alþingis um að veita þeim lagafrumvörpum brautargengi sem enn á eftir að sam­þykkja svo að þau mikilvægu réttindi fatlaðs fólks sem samningurinn verndar nái fram að ganga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 16. september 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Össur Skarphéðinsson,
frsm.
Karl Garðarsson.
Elín Hirst. Steinunn Þóra Árnadóttir. Vilhjálmur Bjarnason.


Fylgiskjal.


Skýrsla velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

www.althingi.is/altext/pdf/145/s/1611.pdf