Ferill 886. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1728  —  886. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, með síðari breytingum (jöfnun eldsneytisverðs á millilandaflugvöllum).

Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Orðin „til innanlandsflugs, þó ekki á olíum ætluðum til útflutnings, svo sem til millilanda­siglinga, millilandaflugs, erlendra skipa og erlendra flugvéla“ í 2. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Greinargerð.

    Nú er við lýði jöfnun á flutningskostnaði sem tryggir að eldsneytisverð sé hið sama um land allt. Fyrir því eru einföld sanngirnisrök, auk þess sem mikilvægt er að jafna eins og kostur er búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja vítt og breitt um landið.
    Þessi jöfnun hefur ekki gilt um eldsneyti sem ætlað er til ferða milli landa, t.d. flugvéla­eldsneyti til millilandaflugs. Þetta leiðir til þess að eldsneyti er mun dýrara á millilandaflug­völlunum á Akureyri og Egilsstöðum en það er í Keflavík. Þetta skekkir samkeppnisstöðu vallanna og vinnur gegn því að flugfélög sjái sér fært að setja á fót reglubundið flug til annarra staða á Íslandi en til Keflavíkur.
    Því er lagt til að jöfnunarkerfið nái einnig til olíu sem ætluð er til notkunar í millilanda­siglingum og millilandaflugi. Markmiðið er að jafna aðstöðu millilandaflugvalla og hafna.