Ferill 887. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1731  —  887. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991,
með síðari breytingum
(Íslandsdeild Norðurlandaráðs).

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Elín Hirst, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,
Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon, Vigdís Hauksdóttir.


1. gr.

    Á eftir 5. mgr. 35. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs haldi umboði sínu fram yfir kosningar til Al­þingis og þar til ný Íslandsdeild hefur verið skipuð. Þingmenn sem hafa verið endurkjörnir halda enn fremur umboði sínu þar til ný landsdeild hefur verið skipuð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpinu er ætlað að tryggja að Íslendingar geti tekið fullan og virkan þátt í starfi Norðurlandaráðs á tímabilinu eftir almennar kosningar til Alþingis og þar til Alþingi hefur komið saman að nýju að loknum alþingiskosningum til að tryggja hagsmuni Íslands í nor­rænu samstarfi.
    Síðastliðin ár hefur sá háttur verið hafður á að þátttaka þingmanna í alþjóðastarfi hefur nánast legið niðri eftir þingkosningar og fram að því að kosið er í nýjar alþjóðanefndir á Alþingi. Þessir starfshættir eru skaðlegir hagsmunum Íslands.
    Árlegt þing Norðurlandaráðs verður að þessu sinni haldið í Kaupmannahöfn í byrjun nóv­ember 2016, örfáum dögum eftir að Alþingiskosningar fara fram á Íslandi. Þegar kjördagur hafði verið ákveðinn lá fyrir að lítil sem engin þátttaka yrði af hálfu Íslandsdeildar Norður­landaráðs á þinginu.
    Þátttaka Íslands í opinberu samstarfi Norðurlanda á sér langa sögu og hefur reynst mikil­væg fyrir land og þjóð. Því er mikilsvert að íslenskir þingmenn taki virkan þátt í Norður­landaráðsþingi sem er mikilvægasti vettvangur samstarfsins á hverju ári.
    Í Finnlandi er öllum þingmönnum landsdeildar Finnlands í Norðurlandaráði veitt umboð samkvæmt lögum, óháð því hvort þeir hafa náð endurkjöri eður ei, til að sitja fundi og starfa í norrænu samstarfi að loknum þingkosningum þar til ný landsdeild hefur verið skipuð. Í Svíþjóð hefur sú hefð myndast að þingmenn landsdeildarinnar í Norðurlandaráði halda um­boði sínu þar til nýtt þing hefur tekið til starfa, yfirleitt um tveimur vikum eftir kosningar. Þingmenn sem hafa verið endurkjörnir halda enn fremur umboði sínu þar til ný landsdeild hefur verið skipuð. Á þann hátt tryggja Finnar og Svíar að landsdeildir þeirra á Norður­landaráðsþingi séu fullmannaðar og að þeir geti tekið virkan þátt í störfum nefnda og þing­fundum og tryggt hagsmuni þjóða sinna í norrænu samstarfi.
    Með frumvarpinu er lagt til að Íslendingar fari að fordæmi Finna og Svía þannig að þing­menn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs haldi umboði sínu eftir kosningar þar til Alþingi hefur komið saman að nýju og enn fremur að þeir þingmenn sem hafa verið endurkjörnir haldi umboði sínu þar til ný landsdeild hefur verið skipuð.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs leggur eingöngu til að þessi breyting verði gerð varðandi þátttökuna í starfi Norðurlandaráðs í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem eru nú en telur jafnframt að aðrar alþjóðanefndir Alþingis í alþjóðlegu samstarfi þurfi að kanna hvort ástæða sé til þess fyrir þær að fara að fordæmi hennar í þessum efnum.
    Í nýrri ályktun þingmannasamkomu Evrópuráðsins nr. 2126 (2016) er bent á að eftir þing­kosningar í aðildarlandi haldi meðlimir samkomunnar frá viðkomandi landi umboði sínu þar til nýir hafa verið skipaðir. Aðildarríki sem hafa reglur sem banna þingmönnum sem ekki hafa sóst eftir eða náð endurkjöri að starfa á vettvangi þingmannasamkomu Evrópuráðsins eru hvött til að breyta þeim.