Ferill 895. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1787  —  895. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stuðning við alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi skorar á alla hlutaðeigandi aðila að virða undantekningarlaust alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks, heilbrigðisþjónustu og neyðaraðstoðar á átakasvæðum. Jafn­framt fordæmir Alþingi árásir á sjúkrahús og sjúkraskýli á átakasvæðum, lýsir stuðningi við alþjóðalög og alþjóðasamþykktir gegn slíku athæfi og felur ríkisstjórninni að bera fram and­mæli við þess háttar brotum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Greinargerð.

    Í maí á þessu ári samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 2286 (2016) þar sem árásir á heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum, sjúkrahús, sjúkraskýli og aðra aðstöðu sem nýtt er til hjálpar særðum og sjúkum þar sem stríð geisar er harðlega fordæmd með tilvísun til Genfarsamninganna og annarra alþjóðasamninga um skuldbindingar ríkja sem eiga í vopnuðum átökum, mannréttindasamninga og mannúðarlaga. Tilefni ályktunarinnar var sú óheillavænlega þróun að árásir á heilbrigðisstarfsfólk og bækistöðvar þess á átakasvæðum hafa færst mjög í vöxt undanfarin ár. Fjöldi slíkra atvika er staðfestur í stríðshrjáðum löndum, m.a. Afganistan, Suður-Súdan, Sýrlandi, Jemen, Úkraínu og Mið-Afríkulýðveldinu.
    Sú vernd sem heilbrigðisstarfsfólki er tryggð á átakasvæðum samkvæmt alþjóðasamþykkt­um er gífurlega mikilvæg mannúðarráðstöfun. Fjölþjóðasamtök á borð við Lækna án landa­mæra, Rauða krossinn, Rauða hálfmánann og mörg fleiri hafa sent heilbrigðisstarfsfólk inn á átakasvæði til að liðsinna nauðstöddu fólki án tillits til þess hvernig það hlaut áverka sína eða sjúkdóma og án þess að taka afstöðu með stríðandi öflum. Í ljósi þess mannúðarhlutverks sem starf heilbrigðisstarfsfólks á stríðshrjáðum svæðum felur í sér flokkast árásir á það sem stríðsglæpir. Engu að síður hefur þeim fjölgað til mikilla muna og er á stundum engu líkara en yfir standi kapphlaup stríðandi afla þar sem markmiðið sé fullkomið virðingarleysi fyrir mannréttindum og mannúðasjónarmiðum.
    Viðurstyggilegasta athæfið sem hugsast getur má aldrei verða talið sjálfsagt þar sem vopnuð átök eiga sér stað, en þangað stefnir nú með því að setja til hliðar hinar alþjóðlegu hindranir gegn stríðsglæpum sem bundnar hafa verið í alþjóðasamþykktir í ljósi biturrar reynslu. Þar skiptir samtakamátturinn öllu. Áhrif hvers og eins ríkis til breytinga eru tak­mörkuð en með sameiginlegu átaki getur tekist að snúa óheillaþróun undanfarinna ára við og það er í öllu tilliti afar brýnt.
    Þessi þingsályktunartillaga er flutt til að koma því til leiðar að rödd Íslands á alþjóða­vettvangi verði nýtt til að andmæla löglausum árásum á heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum og lýsa stuðningi við alþjóðasamþykktir sem vernda það og starf þess í þágu stríðshrjáðs fólks hvarvetna í veröldinni.