Ferill 809. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1830  —  809. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um tekjur af auðlegðarskatti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve miklum tekjum má áætla að auðlegðarskattur hefði skilað á árunum 2015 og 2016 og mundi skila á árinu 2017 væri hann lagður á með sama hætti og var vegna eignastöðu á árinu 2013 til greiðslu á árinu 2014? Svarið óskast sundurliðað eftir árum og sýni þróun og áætlaða þróun skattstofnsins annars vegar og skatttekna hins vegar, allt á verðlagi yfirstand­andi árs. Jafnframt er óskað eftir að skattstofn ársins 2013 og tekjur ársins 2014 verði sundurliðaðar með sama hætti, á verðlagi yfirstandandi árs, til samanburðar.

    Auðlegðarskattur var lögfestur í lok árs 2009 sem tímabundinn skattur til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Auðlegðarskattur var lagður á nettóeign framteljanda, þ.e. allar eignir að frá­dregnum öllum skuldum. Auðlegðarskatturinn rann sitt skeið og var síðast lagður á við álagn­ingu opinberra gjalda á einstaklinga árið 2014 miðað við hreina eign einstaklinga í lok tekju­ársins 2013.
    Þegar auðlegðarskatturinn var síðast lagður á giltu eftirfarandi reglur:
     1.      Af auðlegðarskattstofni einstaklings að 75 millj. kr. og samanlögðum auðlegðarskatt­stofni hjóna að 100 millj. kr. var ekki greiddur skattur.
     2.      Af auðlegðarskattsstofni yfir 75 millj. kr. að 150 millj. kr. hjá einstaklingi og yfir 100 millj. kr. að 200 millj. kr. af samanlögðum auðlegðarskattstofni hjóna voru greidd 1,5% af nettóeign.
     3.      Af því sem umfram var 150 millj. kr. hjá einstaklingi og 200 millj. kr. af samanlögðum auðlegðarskattstofni hjóna voru greidd 2% af því sem umfram var framangreind viðmið­unarmörk.
    Að auki var lagður á viðbótarauðlegðarskattur en hann var lagður á skattstofn sem var mismunur á nafnverði og raunvirði hlutabréfa í eigu framteljanda í lok árs 2009, 2010, 2011 og 2012 miðað við stöðu félags samkvæmt skattframtali þess á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013. Við álagningu gjaldárin 2013 og 2014 var viðbótarauðlegðarskattur 1,5% af skattstofni á bilinu 75 millj. kr. að 150 millj. kr. hjá einstaklingum og á bilinu 100 millj. kr. að 200 millj. kr. hjá hjónum, en 2% af skattstofni yfir þessum mörkum.
    Ofangreind fyrirspurn var send til Ríkisskattstjóra til umsagnar og eru eftirfarandi upp­lýsingar byggðar á svari sem barst frá embættinu 24. ágúst sl.
    Tafla 1 sýnir raunverulega álagðan auðlegðarskatt og viðbótarauðlegðarskatt fyrir árin 2013 og 2014. Þar má einnig sjá hvað þeir sem greiddu auðlegðarskatt á þessum árum greiddu mikið af öðrum álögðum sköttum að frádregnum barna- og vaxtabótum. Þar er um að ræða tekjuskatt, útsvar, fjármagnstekjuskatt, útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Eins og óskað var eftir í fyrirspurninni sýnir taflan einnig áætlun um reiknaðan auðlegðar­skatt og aðra skatta að frádregnum bótum fyrir árin 2015 og 2016 miðað við að álagningarforsendur reiknaðs auðlegðarskatts hafi verið óbreyttar frá þeim tíma sem skatturinn var síðast lagður á. Hins vegar reyndist ekki unnt að reikna út hversu hár viðbótarauðlegðar­skattur hefði verið ef hann hefði verið lagður á árin 2015 og 2016 vegna þess að fyrirtækjum hefur ekki verið gert að skila upplýsingum um markaðsverð hlutabréfa í þeirra eigu og raun­verulegt eigið fé fyrirtækjanna eftir að hætt var að leggja á viðbótarauðlegðarskatt.
    Aðgerðir ríkisstjórnarinnar með leiðréttingu húsnæðisskulda og tímabundinni innborgun viðbótarlífeyrissparnaðar inn á húsnæðislán, auk þess sem fasteignaverð hefur hækkað tölu­vert, hefur haft jákvæð áhrif á eignastöðu fólks. Það sést m.a. á því að samkvæmt álagningu opinberra gjalda á einstaklinga á þessu ári hækkaði virði fasteigna um 8,2% og skuldir vegna íbúðakaupa lækkuðu um 3% samanborið við tölur ársins 2015. Áætlaður auðlegðarskattstofn hækkaði þannig um 15% á milli 2015 og 2016 og reiknaður auðlegðarskattur um tæp 18% miðað við sömu álagningarforsendur og við álagningu hans árið 2014. Árin þar á undan nam samsvarandi reiknuð hækkun 11% á auðlegðarskattstofninum og liðlega 8% á skattinum sjálfum. Útilokað er hins vegar að segja til um með einhverri nákvæmni hver áætluð breyting á auðlegðarskattstofninum miðað við óbreyttar álagningarforsendur yrði milli áranna 2016 og 2017, en gróft áætlað gæti hún verið kringum 8 milljarða kr.

    Tafla 1. Auðlegðarskattstofn og auðlegðarskattur á verðlagi hvers árs.
Álagningarár Auðlegðarskatt­stofn, m.kr. Reiknaður auð­legðarskattur, m.kr. Viðbótarauðlegðar- skattur, m.kr. Aðrir skattar,
m.kr.
2013 2.093.841 5.716 3.128 22.959
2014 2.221.693 5.883 4.420 28.644
2015 2.465.146 6.361 - 23.536
2016 2.839.484 7.495 - 27.908
     Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Tafla 2. Auðlegðarskattstofn og auðlegðarskattur á verðlagi í júlí 2016.
Álagningarár Auðlegðarskatt­stofn, m.kr. Reiknaður auð­legðarskattur, m.kr. Viðbótarauðlegðar- skattur, m.kr. Aðrir skattar,
m.kr.
2013 2.206.473 6.023 3.296 24.194
2014 2.294.501 6.076 4.565 29.583
2015 2.504.888 6.464 - 23.915 1
2016 2.839.484 7.495 - 27.908 2
     Heimild: Ríkisskattstjóri og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Neðanmálsgrein: 1
1     Skattarnir lækka þegar auðlegðarskatturinn rennur sitt skeið.
Neðanmálsgrein: 2
2     Tekjuskattur og útsvar aðallega að hækka – þeim hefur fjölgað sem eiga miklar eignir á sama tíma og tekjur aukast mikið.