Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 47  —  29. mál.


                                  

Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (frestun réttaráhrifa).

Flm.: Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir 1. mgr. 121. gr. taka ákvæði 1. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. 35. gr. gildi 1. júlí 2017. Til þess tíma frestar kæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið, þrátt fyrir 1. mgr. 35. gr., í þeim tilvikum þegar Útlendinga­stofnun hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki, sbr. b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 29. gr. Hið sama gildir um ákvörðun sem Útlendingastofnun tekur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 35. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.
                                  


Greinargerð.

    Mikill fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hefur borist á árinu og er útlit fyrir að þær verði yfir 1.100 á árinu 2016. Meiri hluti umsókna er frá öruggum upprunaríkjum, aðallega Makedóníu og Albaníu. Aldrei fyrr hafa svo margir sótt um vernd hér á landi, en allt árið 2015 voru umsækjendur 354, árið 2014 voru þeir 175 og 172 árið 2013. Það sem af er ári hefur öllum slíkum umsóknum verið synjað. Þrátt fyrir það virðist ekkert lát á komum einstaklinga frá öruggum ríkjum, en í október og nóvember 2016 lögðu samanlagt 456 manns fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af voru 79% frá öruggum ríkjum.
    Þessi þróun hefur aukið mjög álagið á hæliskerfið og hefur verið leitað ýmissa úrræða til að hraða eins og kostur er afgreiðslu umsókna um vernd. Meðal þeirra er ákvæði til bráða­birgða IV við gildandi útlendingalög sem samþykkt var með lögum nr. 106/2016. Þar er mælt fyrir um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar Útlendingastofnun hefur metið umsókn hans um vernd bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunar yfir örugg ríki, sbr. d-lið 32 gr. gildandi laga. Bráðabirgðaákvæðið gildir til 31. desember 2016 en 1. janúar 2017 taka lög nr. 80/2016, um útlendinga, gildi. Í 2. mgr. 35. gr. þeirra laga er mælt fyrir um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar sem teknar eru á grundvelli 29. og 36. gr. laganna. Þrátt fyrir að ákvæðið sé skýrt um að sú regla skuli gilda til frambúðar að kæra fresti ekki réttaráhrifum er óljóst til hvaða tilvika reglan skuli ná. Óskýrleikinn stafar einkum af innra ósamræmi í 35. gr. Í 1. mgr. 35. gr. kemur fram að ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skv. 36., 37. og 39. gr. skuli yfirgefa landið komi ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðun er endanleg á stjórnsýslustigi. Í 1. málsl. 2. mgr. 35. gr. segir svo að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. fresti kæra ekki réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofn­unar sem teknar eru á grundvelli 29. og 36. gr. Tilvísun til 29. gr. í heild er óskýr því í framkvæmd á þetta fyrst og fremst við um b-lið 1. mgr. 29. gr. um tilhæfulausar umsóknir og með því að vísað er til 36. gr. bæði í ákvæðum 1. og 2. mgr. skapast óvissa um hvar mörkin milli þessara ákvæða liggja og þar með hvenær reglan um að kæra fresti ekki réttaráhrifum á við. Þá er í 3. mgr. 35. gr. mælt fyrir um heimild ráðherra til að mæla fyrir um málsmeðferð kæru­nefndar við afgreiðslu beiðna um frestun réttaráhrifa. Ákvæðið virðist óþarft og til þess fallið að skapa réttaróvissu þar sem af 1. og 2. mgr. 35. gr. leiðir að beiðnir um frestun réttaráhrifa verða ekki teknar til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.
    Við ríkjandi aðstæður er afar mikilvægt að skýrt liggi fyrir í hvaða tilvikum kæra á ákvörðunum Útlendingastofnunar frestar ekki réttaráhrifum. Er því lagt til að gildistaka 1. málsl. 2. mgr. 35. gr og 3. mgr. 35. gr. verði frestað til 1. júlí 2017 og að fram að því gildi að meginstefnu sömu reglur og nú eru í bráðabirgðaákvæði IV við lög nr. 96/2002, um útlendinga. Lagt er til að ákvæðið gildi til 1. júlí 2017. Með því móti er gefinn hæfilegur tími til að yfirfara 35. gr. í heild og skýra nánar til hvaða tilvika regla 2. mgr. 35. gr. skuli ná.