Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 208  —  50. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um stefnu í almannavarna- og öryggismálum.


     1.      Hver er staða aðgerða samkvæmt stefnu í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017, sem almannavarna- og öryggismálaráð samþykkti í júní 2015?
    Stefna í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017 var samþykkt á fundi almannavarna- og öryggismálaráðs 24. júní 2015 til þriggja ára eða fram á mitt ár 2018. 1
    Í stefnunni er gerð grein fyrir ástandi og horfum í þessum málum og leitast við að bregðast við þeim ógnum og áhættuþáttum sem kunnir eru og á mati á því hvernig þeir muni þróast. Áherslur í stefnu almannavarna- og öryggismálaráðs endurspegla aðgerðir og viðbrögð í öryggismálum er taka mið af nýjustu áhættuskoðunum og hættumati sérhæfðra greiningaraðila hér á landi. Í stefnunni er fjallað um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggismála, forvarnarstarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir sem ráðið telur nauðsynlegar til að ná því markmiði að tryggja öryggi landsmanna sem best.
    Áherslur stefnu í almannavarna- og öryggismálum 2015–2017 eru:
     *      Almannavarnaviðbrögð: Við allar neyðaraðstæður verði byggt á sama viðbragðskerfi almannavarna og að þar gegni samhæfingar- og stjórnstöðin við Skógarhlíð lykilhlutverki. Þróaðar verði samhæfðar viðbragðsáætlanir stjórnvalda.
     *      Vernd mikilvægra samfélagsinnviða: Tryggja ber öryggi og virkni kerfa sem eru nauðsynleg fyrir starfsemi samfélagsins og efnahag.
     *      Löggæsla og öryggismál: Öryggi einstaklinga og þjóðfélagshópa verði tryggt svo sem kostur er gagnvart margvíslegum ógnum af mannavöldum eða vegna náttúruafla.
    Stefnunni fylgja 42 aðgerðir sem endurspegla framangreindar áherslur og voru þær einnig samþykktar.
    Gerð var samantekt um stöðu aðgerða stefnunnar í lok september 2016 vegna undirbúnings að gerð skýrslu fyrir næsta fund almannavarna- og öryggismálaráðs Samantektin sýndi að framgangur aðgerða hefði almennt verið góður, en um helmingur þeirra áfanga sem stefnt var að náðist á því rúma ári sem skýrslan náði yfir. Sjá nánar fylgiskjal með svari þessu þar sem gerð er nákvæmlega grein fyrir aðgerðum, ábyrgðaraðilum og markmiðum.

     2.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið í samræmi við stefnuna og hve miklu fé hefur verið varið til hennar?
    Til að svara því til hvaða aðgerða hafi verið gripið í samræmi við stefnuna vísast til framangreinds fylgiskjals með svari þessu. Hvað varðar hversu miklum fjármunum hafi verið veitt vegna stefnunnar þá vísast til eftirfarandi í stefnunni: ,,Í aðgerðaráætlunum þessarar stefnu er almennt miðað við að kostnaður vegna upphafs aðgerða hverrar áætlunar geti rúmast innan fyrirliggjandi fjárhagsramma þeirra aðila sem að áætlununum koma, enda feli áætlanirnar frekar í sér forgangsröðun verkefna viðkomandi aðila en ný verkefni utan verksviðs þeirra.“

     3.      Hvað líður birtingu skýrslna fyrir árin 2015 og 2016 samkvæmt ákvæðum í stefnunni um að í lok hvers árs skuli lagt mat á stöðu aðgerða og tekin saman skýrsla?
    Almannavarna- og öryggismálaráð óskaði eftir því á fundi sínum 24. júní 2015 er stefnan var samþykkt að tekin yrði saman skýrsla um stöðu aðgerða sem lögð yrði fram á næsta fundi ráðsins.
    Stefnan var samþykkt 24. júní 2015 og kallað var eftir upplýsingum um framvindu aðgerða ári síðar. Þær bárust frá velflestum, en töf varð á skilum frá einstaka aðila, m.a. vegna þess að breyting hafði orðið á ábyrgð á viðkomandi máli. Til undirbúnings skýrslu til almannavarna- og öryggismálaráðs var gerð samantekt um stöðu aðgerða í lok september 2016. Næsti fundur almannavarna- og öryggismálaráðs er ráðgerður á næstu vikum.

     4.      Hversu oft hefur almannavarna- og öryggismálaráð verið kallað saman frá samþykkt almannavarna- og öryggismálastefnunnar?
    Boðað verður til fundar í almannavarna- og öryggismálaráði á næstu vikum og verður það fyrsti fundur ráðsins frá því að núverandi stefna var samþykkt 24. júní 2015. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að hlutverk almannavarna- og öryggismálaráðs er að setja almenn stefnumið í almannavarna- og öryggismálum til lengri tíma, en ekki að framfylgja stefnu eða stjórna aðgerðum.
    Nú er að hefjast undirbúningur endurskoðunar fyrirliggjandi stefnu og mótun nýrrar stefnu til samþykktar árið 2018.

     5.      Hvernig telur ráðherra að til hafi tekist við að samræma vinnu á grundvelli almannavarna- og öryggismálastefnunnar því starfi sem byggist á þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var í apríl 2016?
    Þegar litið er til ólíkra hlutverka almannavarna- og öryggismálaráðs samkvæmt lögum 82/2008, um almannavarnir, annars vegar og hlutverks þjóðaröryggisráðs samkvæmt lögum nr. 98/2016, um þjóðaröryggisráð, hins vegar má telja að vel hafi tekist til að skapa grundvöll fyrir mikilvæga samvinnu og samráð milli þessara tveggja ráða.
    Eðli málsins samkvæmt er skörun á milli almannavarna- og öryggismálastefnunnar og þjóðaröryggisstefnunnar, en í báðum tilvikum er tekið mið af víðtækri skilgreiningu á öryggishugtakinu sem byggt var á í Áhættumatsskýrslu fyrir Ísland sem kom út á vegum utanríkisráðuneytisins árið 2009 og tekur til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta.
    Stefna í almannavarna- og öryggismálum er einn af þremur meginþáttum í framkvæmd þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi 13. apríl 2016 og er hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
    Framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar sem samþykkt var á alþingi 13. apríl 2016 er enn í mótun en nú er unnið að skipan þjóðaröryggisráðs. Á grundvelli þeirrar skipunar sem löggjafinn hefur ákveðið er engin ástæða til að ætla annað en að vel muni takast til við að samræma vinnu á grundvelli almannavarna- og öryggismálastefnunnar því starfi sem kemur til með að byggjast á þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var í apríl 2016. Það ætti að auðvelda samvinnu þessara tveggja ráða að þau eru að hluta til skipuð sömu fulltrúum.

Fylgiskjal.


Samantekt um stöðu aðgerða stefnu í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017, staða 30. september 2016.


www.althingi.is/altext/pdf/146/fylgiskjol/s0208-f_I.pdf


1     www.innanrikisraduneyti.is/media/blai_bordinn/Almannavarnastefna.pdf