Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 276  —  32. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um málefni Brúneggja ehf. og upplýsingagjöf til almennings um brot á reglum um dýravelferð.



     1.      Hvenær var fyrst vitað um ástand mála hjá Brúneggjum ehf. sem fjallað var um í fréttaþættinum Kastljósi á RÚV 28. nóvember 2016?
    Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hefur stofnunin og eldri stofnanir haft eftirlit með starfsemi Brúneggja að Teigi og Silfurhöll í Mosfellsbæ allt frá því starfsemi hófst þar fyrir rúmum tíu árum. Ýmis frávik hafa verið skráð í eftirlitsskýrslum í gegnum árin, en það er fyrst í lok árs 2010 og aftur 2011 sem skráð voru frávik vegna fuglakóleru og í framhaldinu fyrirskipaði ráðuneytið bólusetningu fuglanna að beiðni Matvælastofnunar. Á þessum árum voru ekki í gildi hámarksákvæði um fjölda varpfugla í lausagöngu og því setti stofnunin eigin viðmið sem voru 12 fuglar/m 2 og gerði síðan athugasemdir um fjölda fugla í sumum varphúsum á árunum 2011 til 2014. Athugasemdir voru einnig gerðar að Stafholtsveggjum í Borgarfirði seinni hluta ársins 2014, en starfsemi hófst þar um sumarið sama ár. Við gildistöku nýrrar reglugerðar um velferð alifugla í janúar 2015 voru sett lögbundin mörk fyrir fjölda varpfugla í lausagöngu og frá þeim tíma er ástand mála hjá Brúneggjum með öllu óásættanlegt. Með nýrri reglugerð var fjöldi varpfugla í lausagöngu ákvarðaður að hámarki 9 fuglar/m 2 eða enn lægri mörk þegar mið er tekið af öðrum takmarkandi þáttum eins og fóðurlínum. Því voru skráð alvarleg frávik vegna fjölda fugla í varphúsum hjá Brúneggjum, en einnig frávik vegna annarra þátta eins og loftgæða, undirburðar, hollustuhátta og bústjórnar. Samhliða þessu var krafist úrbóta og undirbúningur hafinn að vörslusviptingu og stöðvun starfsemi. Að loknum þeim málarekstri og að fengnum andmælum frá Brúneggjum var síðan tilkynnt um aðgerðir gegn fyrirtækinu í byrjun nóvember 2015. Fuglum var fækkað og bætt úr öðrum ágöllum en áfram var unnið með tilteknar úrbætur og þá ekki síst vegna loftræstingar.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið var fyrst upplýst um möguleg brot á lögum um velferð dýra af hálfu Brúneggja hinn 25. nóvember 2016. Áður hafði Matvælastofnun upplýst ráðuneytið að Brúnegg ehf. uppfylltu mögulega ekki skilyrði reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu nr. 504/1998 með tölvupósti frá starfsmanni stofnunarinnar til ráðuneytisins hinn 19. desember 2013, en þar kom fram að Matvælastofnun taldi að neytendur væru blekktir með merkingu eggja frá Brúneggjum ehf. Þá benti Matvælastofnun á að hún hefði reglubundið eftirlit með framleiðslu eggja en þrátt fyrir það hefði stofnunin ekki eftirlit með vistvænni framleiðslu eggja.

     2.      Hvernig og hvenær hefur verið brugðist við upplýsingum um misbresti í starfsemi Brúneggja ehf. og hyggst ráðherra bregðast sérstaklega við upplýsingum sem fram komu í Kastljósi?
    Ráðherra hefur falið þeim Bjarna Snæbirni Jónssyni stjórnunarráðgjafa og dr. Ólafi Oddgeirssyni, dýralækni og framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Food Control Consultants Ltd. í Skotlandi, að fara yfir og gera úttekt á ýmsum þáttum er lúta að rekstri og starfsumhverfi Matvælastofnunar.
    Sérfræðingarnir munu fara yfir verkferla Matvælastofnunar hvað varðar eftirlit með lögum um velferð dýra og matvælaeftirlit, ásamt því að greina starfsaðferðir og bera saman við það sem almennt gerist hjá sambærilegum stofnunum í Evrópu. Þá munu starfsmenn ráðuneytisins fara yfir þau lög sem gilda um starfsemi stofnunarinnar, beitingu þeirra og greina hvort skortur á lagaúrræðum hamli því að stofnunin geti veitt almenningi og opinberum stofnunum upplýsingar úr eftirlitsskýrslum. Ráðuneytið mun leita til sérfræðinga í upplýsingarétti eftir þörfum.
    Sérfræðingarnir munu jafnframt skoða sérstaklega rekstur, skipulag og stjórnun stofnunarinnar og hvernig atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sinnir almennum eftirlitsskyldum sínum með starfsemi hennar. Loks verður óskað eftir ábendingum um það sem betur má fara varðandi framangreinda þætti, tillögum um breytingar á lögum og öðru því sem telja má að geti eflt framkvæmd með lögum um velferð dýra og matvælaeftirlit.
    Gert er ráð fyrir að niðurstöður framangreindra athugana liggi fyrir í lok febrúar 2017. Í ráðuneytinu er einnig unnið að endurskoðun laga um Matvælastofnun og verða niðurstöður úttektarinnar á Matvælastofnun m.a. nýttar við þá lagasmíð.

     3.      Hvaða verkferlar eru í ráðuneytinu til að tryggja að upplýsingar um misbresti í matvælaframleiðslu, svo sem brot á reglum um dýravelferð, berist almenningi þegar við á?
    Rétt er að benda á að stjórnsýsla ríkisins er stigskipt og þar með valdmörk stjórnvalda í málum eins og máli Brúneggja. Valdinu er skipt milli æðra setts stjórnvalds sem er ráðuneytið, og lægra setts stjórnvalds sem er Matvælastofnun. Lægra sett stjórnvald er með lögum um velferð dýra fengið vald til að leysa úr málum sem varða velferð dýra. Æðra sett stjórnvald getur ekki gengið inn á verksvið þess lægra setta með því að grípa fram fyrir hendurnar á því og taka ákvörðun í málinu. Enn fremur er mikilvægt að ráðuneyti hlutist ekki til um mál sem eru til skoðunar hjá undirstofnunum þar sem ráðuneyti gæti þurft að taka á málinu á síðari stigum ef það yrði kært til ráðuneytisins.
    Ákvarðanir Matvælastofnunar og annarra undirstofnana eru kæranlegar til ráðuneytisins. Þau mál fara í stjórnsýslukærumeðferð. Þar eru skýrir verkferlar. Þegar ráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð í málum þá eru þeir birtir á vefsíðunni www.urskurdir.is. Mál Brúneggja var aldrei kært til ráðuneytisins og þess vegna hafði ráðuneytið ekki upplýsingar um möguleg brot á lögum um velferð dýra í fyrrgreindu máli fyrr en stuttu fyrir umfjöllun Kastljóss. Upplýsi Matvælastofnun ráðuneytið um að mál sé til vinnslu hjá stofnuninni hvílir ekki ákveðin skylda á ráðuneytinu að upplýsa um málið enda er málið þá ekki á forræði ráðuneytisins. Ef ráðuneyti eða ráðherra berast upplýsingar eða aflar tiltekinna upplýsinga á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna gagnvart undirstofnun hvílir sama þagnarskylda á ráðuneytinu eins og á viðkomandi undirstofnun, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.

     4.      Hvaða skýringar eru á því að upplýsingar um blekkingarnar sem beitt var af hálfu Brúneggja ehf. og skýrt var frá í fyrrnefndum Kastljósþætti rötuðu ekki til almennings?
    Það er í höndum þess stjórnvalds sem er með forræði yfir viðkomandi máli hvort upplýsa eigi almenning og fjölmiðla um stöðu ákveðinna mála eins og mála Brúneggja. Oft liggja fyrir ákveðnar verklagsreglur eða lagafyrirmæli um hvernig staðið er að upplýsingagjöf. Mál sem varða merkingar matvæla og velferð dýra er á forræði Matvælastofnunar. Í þágildandi reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu var ekki kveðið á um tiltekna upplýsingaskyldu búnaðarsambands eða ráðuneytisins ef framleiðandi gerðist brotlegur við ákvæði reglugerðarinnar. Þá hafði Matvælastofnun samkvæmt reglugerðinni ekki eftirlit með vistvænni landbúnaðarframleiðslu og brast vald til þess að sinna eftirliti með settum skilyrðum sem og til að taka ákvarðanir vegna frávika eða brota á umræddri reglugerð. Matvælastofnun hafði því ekki skýrar upplýsingar um stöðu mála vegna frávika frá reglugerð um vistvæna framleiðslu, hvorki hjá Brúneggjum né öðrum framleiðendum sem notuðu merkið við markaðssetningu sinna matvæla. Þrátt fyrir það tilkynnti Matvælastofnun viðeigandi búnaðarsambandi um ákveðna þætti sem stofnunin taldi að fælu í sér brot á reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, en þar sem ekkert eftirlit hafði verið af hálfu búnaðarsambandsins var ráðuneytinu tilkynnt um málið. Þegar ráðuneytinu var tilkynnt um að Brúnegg ehf. hefðu mögulega brotið gegn ákvæðum reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu var ekki brugðist við því máli með ákveðnum hætti né tekin afstaða til þess hvort upplýsa ætti almenning um brot á reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, sem er miður.

     5.      Hyggst ráðherra auðvelda fjölmiðlum að nálgast upplýsingar um brot eftirlitsskyldra aðila í landbúnaði gegn lögum um velferð dýra og lögum um matvæli og þá hvernig?
    Nú stendur yfir vinna í ráðuneytinu um heildarendurskoðun á lögum um Matvælastofnun og við þá vinnu verður sérstaklega skoðað hvort tilefni sé til þess að skylda eftirlitsaðila til að upplýsa almenning og fjölmiðla um niðurstöður úr eftirliti eða ekki. Í þeirri vinnu verður m.a. litið til markmiða í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um að markviss skref verði tekin til þess að upplýsingaskylda hins opinbera gagnvart almenningi verði efld og tryggð verði gagnsæ stjórnsýsla.
    Við endurskoðun á lögum um Matvælastofnun verði lögð áhersla á skýrar reglur um merkingar matvæla, vottun og eftirlit. Gagnsæis verði gætt og komið í veg fyrir villandi merkingar sem veiti neytendum falskt öryggi. Með því verði hagsmunir neytenda hafðir í fyrirrúmi, sem jafnframt er í þágu framleiðenda, enda er þeim mikilvægt að framleiðslan njóti almenns trausts. Íslensk matvælaframleiðsla hefur ákveðna sérstöðu, m.a. vegna hreinleika náttúru, lítillar notkunar sýklalyfja og annarra efna. Rétt er að styrkja þá ímynd enn frekar.

     6.      Hvar er á vegi stödd vinna við setningu nýrrar reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu í stað reglugerðar nr. 504/1998 sem fallin er úr gildi?
    Ráðherra skipaði starfshóp 29. september 2014 til að fara yfir reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, með síðari breytingum, og meta nauðsyn reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Niðurstöður starfshópsins voru eftirfarandi:
                  a.      Reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi.
                  b.      Hugað verði að setningu rammareglugerðar sem skilgreini hvaða kröfur vistvæn vottunarkerfi þurfi að uppfylla til að mega nota hugtakið „vistvæn framleiðsla“.
                  c.      Stjórnvöld vinni með einstökum framleiðendahópum að útfærslum á vistvænni vottun, sé þess sérstaklega óskað.
    Einstakir framleiðendahópar óskuðu ekki eftir aðkomu stjórnvalda að útfærslu á vistvænni vottun en hefði komið ósk um slíka aðkomu hefðu stjórnvöld skoðað það sérstaklega. Ekki var talin ástæða til að hafa rammareglugerð um kröfur fyrir vistvæn vottunarkerfi, þar sem frá gildistöku reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu hafa verið sett margvísleg lög og reglur sem snúa m.a. að lífrænum landbúnaði, merkingum matvæla, aðbúnaði dýra og reglur um önnur gæðakerfi eins og gæðastýringu, skráargatið og skráningu afurðarheita. Starfshópurinn lagði því til að fella brott reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, með síðari breytingum.
    Niðurstöður starfshópsins voru auglýstar á heimasíðu ráðuneytisins 4. september 2015 og tillaga um að fella brott reglugerð nr. 504/1998. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu og í framhaldinu var reglugerðin felld brott með reglugerð nr. 899/2015 um brottfall reglugerðar nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, með síðari breytingum.
    Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni og fara gegn niðurstöðu fyrrgreinds starfshóps og stendur því ekki til að setja nýja reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu.