Ferill 52. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 315  —  52. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um eftirfylgni við þingsályktun nr. 45/145.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hafa stjórnvöld fylgt eftir þingsályktun nr. 45/145, um stuðning við áform og viðræður um alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla?

    Framleiðsla og beiting sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla (dróna) er nú þegar orðin að veruleika. Þessum vopnum er unnt að beita á skotmörk án þess að mannshöndin komi þar nærri. Beiting þeirra snertir því mannúðarlög á átakatímum.
    Sjálfvirkar og sjálfstýrðar vígvélar hafa verið til umfjöllunar hjá sérfræðinganefnd samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við eða takmarkanir á notkun tiltekinna hefðbundinna vopna sem unnt er að flokka sem mjög skaðleg eða sem hafi ófyrirsjáanleg áhrif (Convention on Prohibitions or Restrictions on the Use of Certain Conventional Weapons which may be deemed to be Excessively Injurious or to have Indiscriminate Effects). Á endurskoðunarráðstefnu samningsins, sem fullgiltur var af Íslandi árið 2008, og haldin var í desember 2016 ákváðu aðildarríki hans að taka málið til sérstakrar meðferðar. Þau hefja þá vinnu síðar á þessu ári og vænta má að álitaefnin verði margvísleg og flókin. Þannig hefur t.d. ekki verið skilgreint nákvæmlega hver þessi vopn séu. Ísland tekur þátt í fundinum sem haldinn verður í Genf. Í aðdraganda fundarins taka íslensk stjórnvöld málið fyrir á norrænum vettvangi í mars til að kanna hvort unnt verði að ná sameiginlegri norrænni afstöðu um málið á alþjóðavettvangi.
    Þess ber einnig að geta að vandamál varðandi notkun á drónum hafa verið til umræðu á fundi þingmannasamkomu Evrópuráðsins og ráðherranefnd þess. Í svari frá 8. desember 2015 við fyrirspurn þingmannasamkomunnar taldi ráðherranefndin ekki ástæðu til, að svo stöddu, að semja tilmæli til aðildarríkjanna um notkun dróna eins og lagt var til í ályktun þingmannasamkomunnar. Íslensk stjórnvöld munu áfram fylgjast með framvindu mála innan Evrópuráðsins.