Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 360  —  44. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um eftirlitsstofnanir.


     1.      Hvaða stofnanir ráðuneytisins sinna eftirliti, sbr. 1. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur?
    Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999, nær gildissvið laganna til sérstaks eftirlits á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja, þar með taldra reglna sem er ætlað að stuðla að öryggi og heilbrigði almennings, öryggi eigna, umhverfisvernd, neytendavernd, samkeppni, eðlilegum viðskiptaháttum og getu fyrirtækja til að standa við skuldbindingar sínar. Á málefnasviðum mennta- og menningarmálaráðuneytis, sbr. 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 1/2017, eru engar stofnanir sem einungis fást við eftirlit en þær sem taldar eru hér á eftir sinna eftirliti að einhverju marki. Ekki hefur verið gerð nákvæma athugun á því hve eftirlitsstarfsemin er stór hluti af heildarstarfsemi umræddra stofnana en í flestum tilvikum er hún óveruleg.
     Menntamálastofnun hefur eftirlit með og metur árangur af skólastarfi og ber saman við sett viðmið, sbr. c-lið 5. gr. laga nr. 91/2015.
     Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með fornleifum, friðuðum og friðlýstum húsum og mannvirkjum, hefur eftirlit með og annast leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja til annarra landa, sbr. 11. gr. og 2. mgr. 35. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012.
     Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 67/1990. Rannsóknadeild fisksjúkdóma skal starfa við tilraunastöðina samkvæmt lögum nr. 50/1986 og annast útgáfu heilbrigðisvottorða skv. 2. gr., 5. tölul. 5. gr. og 14. gr.
     Þjóðskjalasafn Íslands fer með eftirlit með starfsemi héraðsskjalasafna og eftirlit með framkvæmd afhendingarskyldra aðila skv. 12. gr. og 4. tölul. 13. gr. laga um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014.
    Hér er talið að eftirlitsstarfsemi fjölmiðlanefndar falli einna helst undir skilgreiningar í framangreindum lögum nr. 27/1999.
     Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með framkvæmd laga um aðgang barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, nr. 62/2006.
     Fjölmiðlanefnd fer með eftirfarandi eftirlitsverkefni samkvæmt lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/65/EB frá 11. desember 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur:
     1.      Eftirlit með myndmiðlunarefni frá öðrum EES-ríkjum, skv. 5. gr.
     2.      Ráðstafanir gagnvart fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni og heyra undir lögsögu annarra EES-ríkja, skv. 6. gr.
     3.      Almennt eftirlit, skv. 7. gr.
     4.      Eftirlit með skráningarskyldu fjölmiðla, skv. d-lið 10. gr.
     5.      Eftirlit með innihaldi og framsetningu hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem og viðskiptaboða í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum, skv. e-lið 10. gr.
     6.      Upplýsingaöflun og -miðlun til evrópskra eftirlitsstofnana, skv. 13. gr.
     7.      Eftirlit með aðgangi almennings að þýðingarmiklum viðburðum, skv. 48. gr.
     8.      Eftirlit með gagnkvæmri viðurkenningu einkaréttinda fjölmiðlaveitna, skv. 49. gr.
     9.      Eftirlit með ábyrgðarreglum, kærur til lögreglu, ákvörðun stjórnvaldsviðurlaga og fullnusta, skv. IX. kafla.
     10.      Eftirlit með eignarhaldi fjölmiðla og samrunaeftirlit í samstarfi við Samkeppniseftirlitið, skv. X. kafla A.
     Fjölmiðlanefnd fer með sjálfstætt mat og hefur eftirlit með því að Ríkisútvarpið uppfylli almannaþjónustuhlutverk sitt í samræmi við V. kafla laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, svohljóðandi:
     1.      Fjölmiðlanefnd leggur árlega sjálfstætt mat á hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt, skv. 1. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr.
     2.      Fjölmiðlanefnd leggur mat á nýja almannaþjónustu og veitir ráðherra umsögn um hvort heimila skuli Ríkisútvarpinu að taka upp nýja tegund almannaþjónustu, skv. 16. gr.
     3.      Fjölmiðlanefnd getur lagt stjórnvaldssektir á Ríkisútvarpið sé brotið gegn ákvæðum 7. gr. um viðskiptaboð, skv. 17. gr.

     2.      Hver hafa verið árleg framlög ríkissjóðs til hverrar stofnunar árin 2010–2016?


Fjárlög Fjölmiðlanefnd
2010 10,3*
2011 25,7
2012 39,1
2013 40,8
2014 37,4
2015 38,6
2016 41,7
Framlög í millj. kr.
* Útvarpsréttarnefnd


     3.      Hverjar hafa verið árlegar sértekjur hverrar stofnunar árin 2010–2016?


Fjárlög Fjölmiðlanefnd
2010 0*
2011 0
2012 0
2013 0
2014 0
2015 0
2016 0
Framlög í millj. kr.
* Útvarpsréttarnefnd

     4.      Hver var heildarfjöldi starfsmanna hverrar stofnunar í lok árs 2010 og árslok 2016?

Heildarfjöldi starfsmanna.

Fjöldi starfsmanna Fjölmiðlanefnd
2010 1,5*
2016 2
* Útvarpsréttarnefnd. Starfi nefndarinnar var sinnt af ráðuneyti og formanni í hjáverkum. Samtals vinnuframlag áætlað.

     5.      Hefur eftirliti eða einstökum verkefnum eftirlitsstofnana verið útvistað? Ef svo er, hverju hefur verið útvistað?
    Gert er ráð fyrir að spurt sé um hvort lögbundið eftirlit eða einstök verkefni hafi verið færð til einkaaðila. Eftir því sem ráðuneytinu er kunnugt gerir Menntamálastofnun samninga við fyrirtæki um einstök verkefni, þ.e. ytra mat á skólum.

     6.      Hefur ráðherra látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi einstakra eftirlitsstofnana að hluta eða öllu leyti? Telur ráðherra að slík útvistun geti verið skynsamleg?
    Ráðherra hefur ekki látið kanna sérstaklega kosti og galla þess að útvista starfsemi eftirlitsstofnana eða eftirlitsverkefni.