Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 449  —  330. mál.




Fyrirspurn


til forsætisráðherra um hugsanlega hagsmuni ráðherra ríkisstjórnarinnar vegna ráðstafana í gjaldeyrismálum.

Frá Birni Val Gíslasyni.


     1.      Hefur ráðherra kallað eftir upplýsingum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hugsanlega fjárhagslega hagsmuni þeirra og tengdra aðila vegna nýlegs samkomulags við eigendur aflandskróna og síðustu breytinga á reglum um fjármagnsflutninga?
     2.      Hafa einhverjir ráðherrar upplýst innan ríkisstjórnar um fjárhagslega hagsmuni sína eða tengdra aðila vegna síðustu breytinga á reglum um fjármagnsflutninga?
     3.      Telur ráðherra ástæðu til að kalla eftir frekari upplýsingum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hugsanlegra fjárhagslegra hagsmuna?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Í ræðu á Alþingi um afnám gjaldeyrishafta 13. mars sl. sagði fjármála- og efnahagsráðherra mikla hagsmuni vera í húfi við afnám haftanna, um þau giltu innherjareglur og mikilvægt væri að allir markaðsaðilar sætu við sama borð. Í ríkisstjórninni eiga nú sæti nokkrir ráðherrar sem haft hafa mikil tengsl í atvinnu- og viðskiptalífinu. Sumir þeirra komu á vettvang stjórnmálanna, og skömmu síðar í ráðherraembætti, beint úr störfum fyrir hagsmunaaðila og aðrir rakleitt frá því að vera virkir aðilar og stjórnendur í fjármála- og viðskiptalífinu. Nýlegar ráðstafanir í gjaldeyrismálum geta varðað miklu fyrir ýmsar greinar atvinnustarfsemi og viðskipta. Mikilvægt er að hafið sé yfir allan vafa að ráðherrar og aðilar þeim tengdir hafi ekki haft hagsmuni af slíkum ákvörðunum umfram almenning og þær kringumstæður sem að framan var lýst krefjast þess að um það sé spurt.