Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 463  —  338. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um laxeldi í sjókvíum.

Frá Birni Val Gíslasyni og Bjarna Jónssyni.


     1.      Telur ráðherra ástæðu til að grípa til sérstakra ráðstafana umfram þær sem nú er beitt og þá hverra til að koma í veg fyrir hættu sem stafar af erfðablöndun vegna laxeldis í sjókvíum?
     2.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana umfram þær sem þegar er beitt og þá hverra til að koma í veg fyrir að eldislax sleppi úr laxeldisstöðvum?
     3.      Hyggst ráðherra grípa til einhverra ráðstafana umfram þær sem nú er beitt til að koma í veg fyrir umhverfistjón vegna óþrifnaðar og mengunar sem fylgir laxeldi í sjókvíum?
     4.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana umfram þær sem nú er beitt og þá hverra til að hindra að sjúkdómar og sníkjudýr í eldislaxi smitist í villtan lax og ógni líffræðilegum fjölbreytileika?
     5.      Hyggst ráðherra grípa til ráðstafana og þá hverra til að sporna við lyfjanotkun í laxeldi í sjókvíum?
     6.      Mun ráðherra stöðva frekari vöxt eldis á frjóum laxi í sjó, eða jafnvel eldi framandi laxastofna að öllu leyti, á forsendum náttúruverndar og með tilliti til þeirrar hættu sem af eldinu stafar fyrir lífríki í sjó og vötnum?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Fyrirhugað er að margfalda laxeldi í sjó við Ísland í nánustu framtíð. Laxeldi í sjó er afar umdeilt, ekki síst vegna mikillar hættu á erfðablöndun eldislax og náttúrulax. Vaxandi lyfjanotkun í laxeldi og aukin tíðni sjúkdóma í eldislaxi er að sama skapi talin skapa mikla hættu fyrir lífríki hafs og vatna. Mikil mengun stafar af sjókvíaeldi. Talið er að eldi á 10.000 tonnum af laxi fylgi álíka mikil mengun og stafar frá 150.000 manna byggð.