Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 465  —  340. mál.




Fyrirspurn


til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um sjókvíaeldi og vernd villtra laxfiska.

Frá Bjarna Jónssyni.


     1.      Hefur verið gerð fagleg úttekt á samlegðaráhrifum stóraukins fiskeldis í sjó hér við land á lífríki og, ef svo er ekki, mun ráðherra láta gera slíka úttekt áður en fleiri slík leyfi verða veitt?
     2.      Liggja fyrir verkferlar og viðbragðsáætlanir til að vernda villta stofna laxfiska fyrir erfðamengun, sjúkdómum, sníkjudýrum og öðrum áföllum sem geta hlotist af því að eldisfiskur sleppur úr haldi?
     3.      Hversu mörg fiskeldisleyfi telur ráðherra að eitt og sama fyrirtækið eigi að geta haft að hámarki?
     4.      Mun ráðherra stuðla að því að settar verði reglur um eignarhald fiskeldisfyrirtækja líkt og gert hefur verið í Færeyjum og eru í gildi varðandi eignarhald í sjávarútvegi hérlendis?
     5.      Mun ráðherra beita heimild í lögum til að fyrirskipa að notaðir verði geldir laxar til eldis í sjó hér við land í ljósi þess að í það stefnir að um 160.000 tonn af laxi verði alin hér?
     6.      Verður komið á reglulegu opinberu eftirliti með lúsasýkingum í sjókvíaeldi og niðurstöður þess birtar opinberlega í ljósi þess að fregnir hafa borist af alvarlegum sýkingum af þessu tagi og hvert er viðhorf ráðherra til þess að fylgst verði reglubundið með magni laxalúsa alls staðar þar sem sjókvíaeldi er fyrirhugað hér við land?
     7.      Verða sett viðmiðunarmörk um hámark leyfilegrar lúsasýkingar í fiskeldi í sjó? Ef svo er, munu þá viðurkenndir erlendir staðlar verða lagðir til grundvallar eða hvaða viðmiðunum yrði ella beitt og hvers vegna?
     8.      Hafa farið fram rannsóknir þær á umfangi laxalúsasmits í Eyjafirði sem lýst er yfir að verði gerðar í bréfi til Landssambands veiðifélaga þar sem beiðni Landssambandsins um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíaeldi er hafnað?


Skriflegt svar óskast.