Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 576  —  283. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur um baunarækt.


     1.      Hvert er umfang baunaræktar hér á landi?
    Umfang baunaræktar hérlendis er óverulegt, helst eru baunir ræktaðar í skiptiræktun til að auðga jarðveg. Hestabaunir (lat. vicia faba) hafa mest verið ræktaðar hérlendis.

     2.      Hvernig metur ráðherra skilyrði til baunaræktar í gróðurhúsum?
    Baunarækt er almennt fremur einföld og hérlendis herja sjaldan meindýr eða önnur óáran á baunir eða aðra ræktun og helgast það einkum af loftslagi. Baunir má rækta utan húss þó að árangurinn sé vissulega betri í gróðurhúsum, sérstaklega ef illa árar og sumarið er stutt. Ekki er þörf á upphituðum gróðurhúsum til að rækta baunir nema lengja eigi vaxtartímabil. Það er hins vegar talsverð vinna að uppskera svo huga þarf vel að mögulegum virðisauka ef ræktunin á að vera arðbær.

     3.      Hver eru viðhorf ráðherra til þess að framleiða prótín með baunarækt með tilliti til þess að slík ræktun veldur mun minni kolefnislosun og öðru álagi á umhverfið en kjötframleiðsla?
    Jákvætt er að styðja við frumkvöðla á þessu sviði og aðra þá sem veitt geta faglegan stuðning við aukna ræktun hérlendis, bæði hvað varðar baunir og aðrar garðyrkjuafurðir.

     4.      Nýtur baunarækt styrkja eða annarra ívilnana?
    Baunarækt er ekki styrkt sem slík en nýsköpunar-, þróunar- og rannsóknasjóðir standa frumkvöðlum í baunaræktun opnir eins og öðrum, að því gefnu að viðkomandi verkefni standist þær kröfur sem gerðar eru af hverjum sjóði fyrir sig.

     5.      Telur ráðherra að stuðla eigi að aukinni baunarækt og ef svo er, hvaða ráðum og aðferðum ætti þá að beita til þess?
    Æskilegt er að stuðla að fjölbreytni í innlendri ræktun, atvinnu- og virðisaukandi starfsemi hvar sem nýta má tækifæri til þess. Sífellt fleiri kjósa að nýta náttúrulegar afurðir í fæðu sinni sem hluta af lífsstíl sínum og skapar það aukna eftirspurn og möguleika fyrir innlenda framleiðslu. Í baunum finnst amínósýra (L-dopa) sem talin er geta haft jákvæð heilsufarsáhrif og gagnast m.a. í baráttunni við parkinsonsjúkdóminn.
    Tvennt getur helst gagnast til að styðja við aukna framleiðslu á baunum og öðrum verðmætum garðyrkjuafurðum, annars vegar að styðja áfram myndarlega við menntun og rannsóknir á sviði garðyrkju, hins vegar að veita bændum stuðning við þróunar- og nýsköpunarverkefni og gæta þess að starfsumhverfi þeirra sé sem best á hverjum tíma.