Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 593  —  217. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Evu H. Baldursdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Rúnar Örn Olsen og Sigurð Frey Jónatansson frá Fjármálaeftirlitinu og Hörpu Jónsdóttur og Ólaf Pál Ólafsson frá Seðlabanka Íslands. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands hf., Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að fimm evrópskar reglugerðir varðandi Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina, Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina og Evrópska kerfisáhætturáðið verði færðar í lög hérlendis, en með þeirri aðlögun að Eftirlitsstofnun EFTA fari að meginstefnu til með valdheimildir sem tilheyra fyrrgreindum eftirlitsstofnunum innan Evrópusambandsins.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að reglugerðirnar fái lagagildi með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar er lagt til að viðkomandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skuli jafnframt hafa lagagildi. Að mati meiri hluta nefndarinnar er nægjanlegt að reglugerðirnar með aðlögunum samkvæmt ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvarðanirnar í heild sinni. Meiri hlutinn leggur því til að 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingar á 6. og 10. gr. frumvarpsins með tilliti til ábendinga í umsögn Fjármálaeftirlitsins. Í umsögninni kom einnig fram að mikilvægt væri að heimild Fjármálaeftirlitsins til að veita Seðlabanka Evrópu og seðlabönkum innan seðlabankakerfis Evrópu upplýsingar væri skýr. Meiri hlutinn telur vera nógu skýra heimild til þess í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Seðlabanki Íslands taldi æskilegt að mælt yrði fyrir um heimild bankans til að veita upplýsingar sem háðar væru þagnarskyldu til eftirlitsstjórnvalda annarra aðildarríkja EES-samningsins, stofnana EFTA og hinna evrópsku eftirlitsstofnana á sviði fjármálastarfsemi í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með tilliti til ákvæðis um þagnarskyldu bankans í 1. mgr. 35. gr. þeirra laga. Meiri hlutinn leggur til að mælt verði fyrir um slíka heimild í 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands með hliðsjón af athugasemdunum.
    Í umsögn Persónuverndar var bent á að slíkt eftirlit sem lagt er til í frumvarpinu gæti falið í sér vinnslu persónuupplýsinga. Nauðsynlegt væri að löggjafinn legði mat á að hvaða marki vinnsla persónuupplýsinga væri nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Eftirlits- og upplýsingaöflunarheimildir samkvæmt frumvarpinu taka aðeins til þess sem þarf til að framfylgja fyrrgreindum reglugerðum. Reglugerðirnar, sem eru undirstaða hinna evrópsku eftirlitsstofnana á sviði fjármálastarfsemi, hafa allar verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og Íslandi ber því þjóðréttarleg skylda til að taka þær upp í íslenskan rétt. Þá skal einnig nefnt að reglugerðirnar taka mið af tilskipun 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, sbr. 71. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1093/2010, 71. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1094/2010 og 71. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1095/2010, líkt og lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Meiri hluti nefndarinnar telur því ekki annað að ætla en að framkvæmd þeirra muni samræmast íslenskri persónuverndarlöggjöf.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      Á eftir dagsetningunni „30. september 2016“ í 1. mgr. komi: sem eru birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 13 frá 23. febrúar 2017, bls. 1–35.
                  b.      2. mgr. falli brott.
     2.      Á eftir orðinu „Fjármálaeftirlitinu“ í 1. mgr. 5. gr. komi: Seðlabanka Íslands.
     3.      2. mgr. 6. gr. orðist svo:
                 Fjármálaeftirlitið getur krafið markaðsaðila um sömu upplýsingar og segir í 1. mgr. og getur sett skilafrest í því sambandi.
     4.      10. gr. orðist svo, ásamt fyrirsögn:

Breytingar á öðrum lögum.

                 Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
              1.      Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, með síðari breytingum: 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
                         Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja EES-samningsins, stofnunum EFTA og hinum evrópsku eftirlitsstofnunum á sviði fjármálastarfsemi, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu skv. 13. gr. sé það liður í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi aðila á fjármálamarkaði og slík upplýsingagjöf sé gagnleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun. Þagnarskylda skv. 1. mgr. 13. gr. gildir um hliðstæðar upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið fær frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja, stofnunum EFTA og hinum evrópsku eftirlitsstofnunum á sviði fjármálastarfsemi.
              2.      Lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum: Við 35. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                         Seðlabanka Íslands er heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja EES-samningsins, stofnunum EFTA og hinum evrópsku eftirlitsstofnunum á sviði fjármálastarfsemi, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu skv. 1. mgr. sé það liður í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi aðila á fjármálamarkaði og slík upplýsingagjöf sé gagnleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun. Þagnarskylda skv. 1. mgr. gildir um hliðstæðar upplýsingar sem Seðlabanki Íslands fær frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja, stofnunum EFTA og hinum evrópsku eftirlitsstofnunum á sviði fjármálastarfsemi.

    Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. apríl 2017.

Óli Björn Kárason,
form.
Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Albert Guðmundsson.
Bessí Jóhannsdóttir. Lilja Alfreðsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason.