Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 621  —  188. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um rekstur innanlandsflugvalla.


    1.     Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja rekstur innanlandsflugvalla, viðhald þeirra og uppbyggingu í ljósi þess að fjárveitingar til innanlandsflugvalla voru skornar niður í fjárlögum fyrir árið 2017?
    Fjárveitingar til reksturs innanlandsflugvalla, viðhalds þeirra og uppbyggingar hafa verið skornar niður árlega frá árinu 2008. Því er mikil uppsöfnuð þörf á viðhaldi og framkvæmdum og hefur Isavia skilgreint framkvæmdir fyrir um 800 millj. kr. sem mikilvægar aðgerðir og framkvæmdir fyrir um 320 millj. kr. sem brýnar aðgerðir.
    Í þingsályktunartillögu að samgönguáætlun sem þáverandi ráðherra lagði fram á síðasta þingi, sem og í umræðum og afgreiðslu Alþingis, var lagt til að auka að nýju fjárveitingar til flugvalla. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017 vantaði aftur á móti um 10 milljarða kr. til að samgönguáætlun yrði fjármögnuð að fullu. Með hliðsjón af leiðbeiningum Alþingis við afgreiðslu fjárlaga varð ljóst að ekki var hægt að bæta í rekstur og viðhald flugvalla innanlands.
    Niðurstaðan varð sú að varanlegar heimildir voru auknar um 200 millj. kr. en tímabundin 400 millj. kr. fjárveiting var felld niður. Fjárveitingar 2017 eru því um 200 millj. kr. lægri en fjárveitingar 2016. Því munu fjárveitingar ársins 2017 einungis duga til þess að standa straum af rekstrarhluta þjónustusamningsins við Isavia um rekstur flugvalla innanlands. Fjárveitingin nægir til að tryggt sé að flugvallakerfið verði rekið eins og undanfarin ár og að ekki komi til uppsagna starfsfólks á árinu.
    Í vinnu starfshóps innanríkisráðuneytisins með þátttöku Isavia og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem hafði það hlutverk að skoða hvort ná mætti meiri skilvirkni og hagræði í rekstri innanlandsflugsins, var m.a. skoðað að styrkja flugleiðirnar í stað flugvallanna og færa minni flugvelli í umsjá Vegagerðarinnar auk fleiri atriða sem leitt gætu til aukinnar hagræðingar við rekstur flugvallakerfisins. Skýrsla hópsins er til skoðunar og hafa ákvarðanir um breytingar ekki verið teknar að svo stöddu.

    2.     Hvenær má búast við ráðstöfunum ráðherra til að tryggja starfsemi innanlandsflugvalla og verður það áður en kemur til frekari uppsagna starfsfólks og skertrar þjónustu á flugvöllum sökum samdráttar í fjárveitingum?
    Með fyrrgreindri 200 millj. kr. fjárveitingu er tryggt að rekstur flugvalla verður með sama hætti á þessu ári og verið hefur á undanförnum árum. Unnið er að frágangi þjónustusamnings ríkisins við Isavia fyrir árið 2017 og er hann á lokastigi. Í samningnum er lögð áhersla á að tryggja rekstur kerfisins og þar með störf sem samningurinn nær til. Búast má við eðlilegri hagræðingu, fjölgun eða fækkun, til samræmis við umferð um einstaka velli en ekki er gert ráð fyrir neinum meiri háttar breytingum í rekstri. Stefnt er að undirritun samningsins eins fljótt og auðið er.

    3.     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að gerður verði lengri þjónustusamningur við Isavia en nú er, t.d. til fimm ára í senn, þannig að unnt verði að gera haldbærar áætlanir um rekstur, viðhald og framkvæmdir vegna innanlandsflugs?
    Frá upphafi hefur samgönguáætlun verið unnin annars vegar sem stefna til tólf ára og hins vegar skemmri aðgerðaáætlun til fjögurra ára. Það hefur engu að síður ætíð verið Alþingi sem kveður upp úr um fjárveitingar til tiltekinna málaflokka í fjárlögum hvers árs. Með lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, var lagður grunnur að traustari áætlunum í fjármálum til fimm ára í senn. Með þessum hætti ætti jafnframt að verða auðveldara að sjá fyrir hvaða fjármunir eru til reiðu. Fjárlög eru eftir sem áður endanleg ákvörðun um fjárframlög og afgreidd árlega. Til umræðu hefur verið að lengja gildistíma þjónustusamnings við Isavia, t.d. í fimm ár. Sú umræða bíður þar til fjallað hefur verið um skýrslu starfshóps um flugvallakerfið, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar. Í framhaldi af því verða ákvarðanir teknar.