Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 624  —  246. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um hæstu og lægstu laun hjá ríkinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver eru hæstu heildarlaun hjá ríkinu og opinberum fyrirtækjum, þ.e. laun þess hundraðshluta sem hæstar tekjur hefur að meðtöldum öllum starfstengdum greiðslum og yfirvinnu, og fyrir hvers konar störf eru þau greidd?
     2.      Hver eru lægstu heildarlaun hjá hinu opinbera og hverjir eru lægstu launataxtarnir, þ.e. hjá lægsta hundraðshlutanum, og um hvers konar störf er þar að ræða?
     3.      Hver hefur þróun launabils á milli fyrrgreindra tveggja hópa verið síðustu 20 árin?


    Svarið er unnið upp úr nýjustu upplýsingum um dreifingu launa fullvinnandi launamanna sem birtar eru árlega á vef Hagstofu Íslands en þær ná aftur til ársins 2008. Upplýsingar fyrir tímabilið þar á undan eru unnar upp úr launakerfi ríkisins. Þessar upplýsingar eru einungis til fyrir efstu og neðstu 10% hópsins. Ráðuneytið býr ekki yfir miðlægum upplýsingum um launakjör starfsmanna í opinberum fyrirtækjum. Árið 2015 voru þeir sem höfðu 10% hæstu tekjurnar með að lágmarki um 983 þús. kr. á mánuði í heildarlaun og sinnir sá hópur aðallega stjórnendastörfum, sérfræðistörfum innan flugstétta eða störfum sérfræðilækna. Tekjuhópur 10% lægst launuðu var með að hámarki um 385 þús. kr. á mánuði í heildarlaun og sinnir sá hópur aðallega ófaglærðum þjónustustörfum. Bilið á milli launa tekjuhæsta hópsins miðað við launin hjá þeim lægstu hefur dregist saman á tímabilinu 1997–2015. Yfirlit um tölurnar eru í eftirfarandi töflu.

Dreifing launa fullvinnandi launamanna.
Opinberir starfsmenn – ríkisstarfsmenn – heildarlaun.


Í þús. kr. Eining Hlutfall
10% 90% 90% / 10%
1997 94 270 2,9
1998 109 313 2,9
1999 115 340 3,0
2000 125 361 2,9
2001 139 404 2,9
2002 150 449 3,0
2003 160 470 2,9
2004 171 486 2,8
2005 182 516 2,8
2006 199 569 2,9
2007 217 616 2,8
2008 252 698 2,8
2009 260 696 2,7
2010 269 684 2,5
2011 288 724 2,5
2012 306 794 2,6
2013 333 841 2,5
2014 351 887 2,5
2015 385 983 2,6
Eining: Hlutfallstölurnar sýna hvar mörkin liggja á milli tíundahluta. Þannig eru 90% launamanna með lægri laun en gildið í dálkinum 90%
Heildarlaun eru öll laun einstaklingsins, þ.e. regluleg heildarlaun auk ýmissa óreglulegra greiðslna, svo sem orlofs- og desemberuppbótar, eingreiðslna, ákvæðisgreiðslna og uppgjörs vegna uppmælinga. Við útreikninga er hvorki tekið tillit til hlunninda né akstursgreiðslna.
Heimild: Hagstofa Íslands 2008–2015 og launakerfi ríkisins 1997–2007.