Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 662  —  163. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um framkvæmd Menntamálastofnunar á PISA-könnunum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggst ráðherra bregðast við því að svo virðist sem verulegir ágallar hafi reynst vera á framkvæmd Menntamálastofnunar á svonefndum PISA-könnunum?

    Í upphafi svars er rétt að upplýsa að ráðuneytinu hafa borist fjögur erindi þar sem gerðar eru athugasemdir við þýðingar á spurningum í PISA 2015 og framkvæmd prófsins. Til að fá heildaryfirsýn yfir athugasemdir og ábendingar sem gerðar hafa verið við PISA 2015 óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá framkvæmdaraðila PISA hér á landi, þ.e. Menntamálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni bárust stofnuninni ábendingar og umkvartanir sem beindust að eftirfarandi framkvæmdaþáttum PISA 2015.
    Í fyrsta lagi voru gerðar athugasemdir við málfar í prófinu, einkum greinamerkjasetningar í spurningum. Í öðru lagi var gerð athugasemd við fyrirlögn prófsins í einu sveitarfélagi sem snéri að því að fresta þurfti í þrígang próftöku nemenda. Í þriðja lagi var gerð athugasemd við sýnidæmi sem stofnunin birti úr eldri PISA-könnun og í fjórða lagi voru gerðar athugasemdir við þýðingu prófsins.
    Rétt er að árétta að ráðuneytið gerir þá kröfu til Menntamálastofnunar að vel sé vandað til allra verka við undirbúning og framkvæmd PISA og farið sé að öllu leyti eftir þeim nákvæmu fyrirmælum sem OECD gefur út um framkvæmdina enda er það afar mikilvægt til að niðurstöður könnunarinnar séu samanburðarhæfar á milli landa. Það er hins vegar ljóst að í svona flóknu verkefni getur alltaf eitthvað komið upp á sem erfitt er að ráða við. Það á t.d. við um fyrrgreinda frestun prófsins sem orsakaðist af samgönguerfiðleikum. Þá er einnig ljóst að ávallt er svigrúm til umbóta og það á auðvitað við um málfar prófsins og þýðingu en afar mikilvægt er að þyngd prófatriða sé sambærileg óháð tungumáli og því er sérstaklega mikilvægt að vandað sé til þýðingar.
    Ráðuneytið óskaði eftir viðbrögðum Menntamálastofnunar við fyrrgreindum ábendingum. Í svari Menntamálastofnunar kemur fram að hún telji að engar líkur séu á því að meintir ágallar á prófinu hafi skekkt heildarniðurstöður könnunarinnar. Óskaði stofnunin m.a. eftir áliti OECD á þessu atriði sem staðfesti þá niðurstöðu. Stofnunin hefur þó tekið til sín þær ábendingar sem fram hafa komið og mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja góða þýðingu og málfar í komandi könnunum. Þá hefur stofnunin þegar birt endurbætta útgáfu af sýnidæmum á vefsíðu sinni.
    Hér á undan hefur verið farið yfir þær athugasemdir og umkvartanir sem formlega bárust til ráðuneytisins og Menntamálastofnunar vegna PISA 2015.
    Nauðsynlegt er að vandað sé vel til allra verka við undirbúning og framkvæmd PISA-rannsóknarinnar og mikilvægt er að draga lærdóm af þeim ágöllum sem fram hafa komið við framkvæmd PISA 2015. PISA er ákveðinn mælikvarði sem gerir kleift að skoða íslenska menntakerfið í samanburði við önnur lönd og þrátt fyrir að ekki sé um algildan mælikvarða á gæði menntunar að ræða þá gefur hann vísbendingar um stöðuna, bæði ýmislegt sem vel er gert í menntun hér á landi og dregur einnig fram ýmislegt sem betur má fara. Þetta þarf að nýta á sem bestan og faglegastan hátt fyrir fræðsluyfirvöld ríkis og sveitarfélaga, skólana sjálfa og stoðkerfi skólanna og kennaramenntun.
    Af hálfu OECD eru gerðar miklar kröfur til þeirra sem annast þýðingu og framkvæmd PISA og er fylgst mjög náið með ferli þýðinga og mögulegum áhrifum þeirra á niðurstöður. Það er mat OECD að athugasemdir sem formlega komu fram við PISA 2015 hér landi gefi ekki tilefni til viðbragða. Ráðuneytið mun engu að síður, m.a. í ljósi þess að það er ávinningur allra sem að rannsókn þessari koma, þ.e. nemenda, foreldra, kennara og annarra aðila, að framkvæmdin sé sem best, óska eftir því að sérstaklega verði farið yfir verklag og framkvæmd af hálfu Menntamálastofnunar á PISA hér á landi með það fyrir augum að vinna að nauðsynlegum umbótum fyrir næstu PISA-könnun sem verður 2018.