Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 673  —  351. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um geðheilbrigðisþjónustu barna.


     1.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að bæta og tryggja nauðsynlegt aðgengi barna að sálgæslu og geðheilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, tekjum og fjölskylduaðstæðum fólks og ef svo er, hverra?
    Unnið er að því að bæta geðheilbrigðisþjónustu á landinu öllu samkvæmt stefnulýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og þeirri stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var á Alþingi 29. apríl 2016. Meginmarkmið þessara aðgerða er að auka vellíðan og bæta geðheilsu landsmanna óháð búsetu. Áhersla er á að auka aðgengi landsmanna að áhrifaríkri þjónustu á öllum þjónustustigum geðheilbrigðisþjónustu.
    Til þess að auka aðgengi allra, barna, ungmenna og fullorðinna, að gagnreyndri geðheilbrigðisþjónustu er markvisst verið að ráða sálfræðinga inn á heilsugæslur á landinu öllu. Í mars á þessu ári var stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslum í landinu fjölgað um 8,5. Nú eru því stöðugildi sálfræðinga á heilsugæslum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Stefnt er að því að eitt stöðugildi sálfræðings verði á heilsugæslu að lágmarki fyrir hverja 9.000 íbúa árið 2019. Verkefni þetta eykur bæði aðgengi að þjónustu og styttir bið eftir henni.
    Börn yngri en 18 ára greiða ekkert gjald fyrir komu á heilsugæslu samkvæmt gildandi reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Í nýju greiðsluþátttökukerfi munu börn eiga kost á gjaldfrjálsri þjónustu á öllum þjónustustigum.
    Einnig er stefnt að því að efla þekkingu starfsfólks í félags- og heilbrigðisþjónustu á geðheilbrigðismálum og þjálfa það í einfaldari íhlutunum þannig að hægt sé að grípa inn í geðheilbrigðisvanda fyrr en ella.
    Samkvæmt aðgerðaráætluninni munu sveitarfélög sjá til þess að skimað verði fyrir kvíða, depurð, þunglyndi og afleiðingum áfalla hjá börnum. Þeim börnum sem á þurfa að halda mun verða vísað áfram í frekari greiningu og meðferð. Einnig er markmið að koma á fót þverfaglegum geðheilsuteymum í samstarfi heilbrigðisþjónustu og sveitarfélaga.
    Börn verja miklum hluta síns tíma í skólanum. Um nokkurt skeið hafa verkefnin um heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla verið í gangi og snúa þau að forvörnum og heildrænni nálgun til að styrkja börn og ungmenni, m.a. á sviði geðræktar. Markmiðið er að flestir skólar í landinu verði heilsueflandi og er það í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Í september 2016 samþykkti ráðherranefnd um samræmingu mála lýðheilsustefnu og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi með sérstakri áherslu á börn og ungmenni að 18 ára aldri. Geðrækt er þar talin með sem mikilvægur þáttur heilbrigðis.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er einnig lögð áhersla á að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verði aukið í framhaldsskólum og að sálfræðiþjónusta verði felld undir tryggingakerfi í áföngum. Fyrirkomulag þessara mála er til nú til skoðunar hjá velferðarráðuneytinu.

     2.      Hvaða leiðir sér ráðherra til að stytta eða afnema langan biðtíma barna sem þurfa á þjónustu sálfræðings eða geðlæknis að halda og hvenær og hvernig er ætlunin að hrinda ráðstöfunum til úrbóta í framkvæmd?
    Eitt af markmiðum geðheilbrigðisáætlunarinnar er að efla þjónustu á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans með því að stytta biðlista þannig að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu. Í ár hafa 60 millj. kr. verið veittar til eflingar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er gert ráð fyrir að efla geðheilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum enn frekar.
    Eins og kom fram hér á undan hefur efling sálfræðiþjónustu í heilsugæslu um land allt þau áhrif að stytta bið barna eftir geðheilbrigðisþjónustu.

     3.      Telur ráðherra að gera þurfi betur í að jafna aðstöðumun og veita fjölskyldum, sem þurfa að sækja geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn um langan veg og dvelja fjarri heimili, faglegan og fjárhagslegan stuðning? Ef svo er, hvaða leiðir koma helst til greina? Ef svarið er neitandi óskast skýring á því.
    Mikilvægt er að halda áfram að vinna að því að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Unnið er eftir stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og snúa áhersluatriði að öllum þjónustustigum geðheilbrigðisþjónustu um land allt. Verið er að efla geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslum á landinu öllu, sbr. nýlega fjölgun stöðugilda sálfræðinga, og er sú aðgerð snar þáttur í því að jafna aðstöðumun eftir búsetu og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Annar liður í geðheilbrigðisáætluninni snýr að fjargeðheilbrigðisþjónustu, en fjargeðheilbrigðisþjónusta jafnar einnig aðstöðumun fólks. Ráðuneytið mun leggja mat á þann ávinning sem efling fjargeðheilbrigðisþjónustu gæti haft í för með sér.
    Sjúkratryggðir einstaklingar eiga í ákveðnum tilfellum rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar en slíkt er til þess fallið að jafna aðstöðumun eftir búsetu.