Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 701  —  337. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um verðmæti veiða í ám og vötnum.


     1.      Hefur nýlega verið lagt mat á verðmætasköpun sem veiði í ám og vötnum stendur undir og þýðingu veiða á vatnafiskum fyrir byggð í sveitum landsins, og ef svo er, hverjar eru meginniðurstöður slíks mats?
    Slíkt mat hefur ekki verið framkvæmt nýlega, en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann skýrslu árið 2004 að beiðni Landssambands veiðifélaga um efnahagsleg áhrif lax- og silungsveiða á Íslandi. Sé stuðst við töflu sem þá var sett fram, og tölur úr henni uppreiknaðar til verðlags dagsins í dag, gætu heildarumsvifin verið á bilinu 14 til 17 milljarðar króna. Hafa verður fyrirvara við slíka framreikninga, en áformað mun vera að uppfæra þessa skýrslu og er áætlað að niðurstöður verði kynntar fyrir lok árs.

Efnahagsleg áhrif innlendra og erlendra stangaveiðimanna á Íslandi að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands 2004.

Neðra mat Efra mat
Bein áhrif:
-Tekjur veiðifélaga 868 961
-Tekjur leigutaka 173 228
Tekjur annarra sem tengjast veiðum beint:
-Innlendir stangaveiðimenn 501 543
-Erlendir stangaveiðimenn 201 403
Bein áhrif (samtals) 1.743 2.135
Óbein og afleidd áhrif 6.068 6.958
Efnahagslegt virði stangaveiða 7.811 9.093

     2.      Telur ráðherra að áform um aukið laxeldi í sjó krefjist nýs verðmæta- og áhættumats fyrir veiði í ám og vötnum?
    Markmið laga nr. 71/2008, um fiskeldi, er að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.
    Ráðherra telur mikilvægt að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja um leið verndun villtra nytjastofna svo sem íslenskra villtra laxastofna. Að tilstuðlan starfshóps um stefnumótun í fiskeldi er vinna hafin við gerð áhættumats vegna erfðablöndunar eldislax við íslenska villta laxstofna. Markmið verkefnisins er að meta hve mikið umfang eldis má vera á hverjum stað án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum vegna erfðablöndunar. Í verkefninu eru notuð bestu fáanlegu gögn um hlutfall sleppinga, áhrifa hafstrauma, fjarlægð áa og stofnstærð laxa í ám auk erfðasamsetningar villtra stofna. Tilgangur verkefnisins er að leitast við að gera stjórnvöldum betur kleift að stýra þróun fiskeldis. Hafrannsóknastofnun annast framkvæmd verkefnisins.
    Að öðru leyti vísast til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvernig telur ráðherra að haga beri umgengni um þá auðlind sem villtir íslenskir laxfiskar eru og varðveislu erfðauðlindar þeirra til framtíðar?
    Ráðherra telur mikilvægt að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja um leið verndun íslenskra villtra laxastofna í samræmi við markmið laga um fiskeldi. Þetta beri að gera með öflugu opinberu eftirliti auk innra eftirlits rekstraraðila. Gæta þarf þess að fiskeldisfyrirtæki fari í einu og öllu eftir reglum um eldisaðferðir, sjúkdómsvarnir, sníkjudýr og búnað. Gerð og framkvæmd framangreinds áhættumats er liður í ábyrgu fiskeldi. Meta þarf niðurstöður slíks áhættumats og eftir atvikum bregðast við ef niðurstöður kalla á slík viðbrögð. Jafnframt gerð áhættumats þarf að sinna vöktun í ám og vötnum vegna mögulegrar göngu eldislax upp í íslenskar ár, þannig að fyrir liggi eins réttar upplýsingar um umfang slysasleppinga og göngumynstur eldislax hér við land og mögulegt er.