Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 702  —  256. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um framkvæmd landamæraeftirlits o.fl.


     1.      Hvaða íslenska stjórnvald eða stofnun bar ábyrgð á aðgerðum og annaðist framkvæmdina þegar för breska ríkisborgarans Juhels Miah til New York var stöðvuð á Keflavíkurflugvelli 16. febrúar 2017?
    Hvorki íslensk stjórnvöld né stofnun á vegum íslenska ríkisins bar ábyrgð á aðgerðum eða annaðist framkvæmd þess þegar för farþegans, Juhels Miah, til Bandaríkjanna var stöðvuð.

     2.      Hvaða aðili krafðist þess að Juhel Miah yrði meinað að halda áfram för sinni?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað komu bandarísk stjórnvöld tilmælum á framfæri við flutningsaðila fyrir brottför sem fólu í sér að umræddum farþega yrði synjað um landgöngu í Bandaríkin við komu þangað. Flutningsaðilinn kom þessum tilmælum á framfæri við farþegann og mæltist til þess að hann færi frá borði í samræmi við flutningsskilmála.

     3.      Á grundvelli hvaða laga, alþjóðasamþykkta eða annarra réttarheimilda var Juhel Miah meinað að halda áfram för sinni?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað byggðist ákvörðun flutningsaðila á flutningsskilmálum sem koma fram á vefsíðu flutningsaðila með hliðsjón af tilmælum bandarískra stjórnvalda sem fólu í sér að umræddum farþega yrði synjað um landgöngu í Bandaríkin við komu þangað.

     4.      Eftir hvaða íslensku lögum og reglum var farið við framfylgd ákvörðunarinnar og samkvæmt hvaða réttarheimildum gripu viðkomandi flugfélag og opinbera hlutafélagið sem annast öryggismál á Keflavíkurflugvelli til ráðstafana gagnvart þessum tiltekna flugfarþega?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað ákvað flutningsaðili, þ.e. viðkomandi flugfélag, að synja farþega um flutning á grundvelli flutningsskilmála sinna með hliðsjón af fyrrgreindum tilmælum bandarískra stjórnvalda. Opinbera hlutafélagið sem annast öryggismál á Keflavíkurflugvelli hafði ekki aðkomu að málinu.

     5.      Í hvaða tilvikum þurfa íslensk flugfélög og opinbera hlutafélagið sem annast öryggismál á Keflavíkurflugvelli að leita heimilda frá íslenskum löggæsluyfirvöldum við valdbeitingu, hindrun á ferð flugfarþega eða aukna öryggisleit?
    Flugstjóra íslensks loftfars er heimilt að beita valdi eða óska eftir liðsinni annarra farþega til að tryggja öryggi um borð í loftfari, sbr. 43. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998. Sú heimild miðast við að meðalhófs sé gætt og því myndi flugstjóri væntanlega kalla eftir liðsinni lögreglu ef farþegi færi ekki eftir fyrirmælum fyrir flugtak. Ekki er sérstök heimild til handa lögreglu að heimila öðrum aðilum valdbeitingu á flugvallarsvæðum eða um borð í loftfari.

     6.      Hvaða ábyrgð eða skyldur bera íslensk stjórnvöld gagnvart þeim sem verða strandaglópar á Íslandi vegna ákvarðana annarra ríkja um að meina þeim för með flugi?
    Aðilar sem dvelja hér á landi bera skyldur og njóta þeirra réttinda sem þeim eru tryggð á grundvelli íslenskra laga. Þá bera íslensk stjórnvöld skyldur samkvæmt íslenskum lögum gagnvart almennum borgurum og öðrum þeim sem dvelja tímabundið hér á landi. Þetta gildir jafnframt um aðila sem synjað hefur verið um flutning af öðrum ríkjum og dvelja hér á landi af þeim sökum. Ábyrgð íslenska ríkisins nær ekki til ákvarðana annarra ríkja eða framkvæmd í lögsögu þeirra.

     7.      Hver sér til þess að íslensk flugfélög og opinbera hlutafélagið sem fer með rekstur flugvallarins gæti að mannréttindum þeirra sem um flugvöllinn fara?
    Íslensk lög gilda um borð í íslenskum loftförum og á íslensku yfirráðasvæði. Ef aðili telur að brotið sé á grundvallarréttindum sínum, hvort sem er að hálfu íslenskra stjórnvalda eða íslenskra aðila, gilda um slík brot íslensk lög.

     8.      Tengdist ákvörðun um að hindra för Juhels Miah til New York tilskipun Bandaríkjaforseta frá 27. janúar 2017 um að meina borgurum tiltekinna ríkja landgöngu í Bandaríkjunum?
    Íslenskum stjórnvöldum er ekki kunnugt um ástæður ákvörðunar.

     9.      Hafa hliðstæð atvik átt sér stað áður og ef svo er, hversu oft hefur ferðafrelsi erlendra ríkisborgara verið heft á þennan hátt á millilandaflugvöllum landsins og á grundvelli hvaða laga eða alþjóðasamþykkta?
    Eins og að framan greinir eru íslensk stjórnvöld ekki upplýst um tilvik þar sem farþega er synjað um flutning á grundvelli tilmæla frá móttökuríki. Flutningsaðila er jafnframt ekki tilkynnt um á hvaða grundvelli tilmælin byggja og því er ekki hægt að segja til um á grundvelli hvaða laga eða alþjóðasamþykkta ákvörðun byggist hverju sinni.

     10.      Hafa íslensk stjórnvöld farið fram á það við erlend yfirvöld að för einstaklinga á leið til Íslands verði stöðvuð með viðlíka hætti og þá hversu oft á undangengnum fimm árum?
    Nei.