Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 709  —  504. mál.




Fyrirspurn


til mennta- og menningarmálaráðherra um áform um sameiningar framhaldsskóla.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hvaða áform hefur ráðherra um að sameina framhaldsskóla á kjörtímabilinu?
     2.      Ef fækkun nemenda á höfuðborgarsvæðinu eru rök fyrir því að sameina Fjölbrautaskólann við Ármúla öðrum framhaldsskóla, mega aðrir skólar á höfuðborgarsvæðinu búast við því sama?
     3.      Má búast við að eftirgreindir framhaldsskólar verði sameinaðir öðrum í ljósi þess að á þskj. 429 á 145. löggjafarþingi kemur fram að áætlaður fjöldi nemenda við Fjölbrautaskólann í Ármúla var 910 talsins haustið 2015, en til samanburðar voru 980 ársnemar áætlaðir við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, 869 við Menntaskólann í Reykjavík og aðeins 770 í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ?
     4.      Hyggur ráðherra jafnframt á sameiningu smærri framhaldsskóla, t.d. þeirra sem voru haustið 2015 með færri en 300 áætlaða ársnema – en þar á meðal eru Fjölbrautaskólinn í Mosfellsbæ (284 ársnemar), Fjölbrautaskóli Snæfellinga (207 ársnemar), Verkmenntaskóli Austurlands (193 ársnemar), Menntaskólinn á Laugarvatni (154 ársnemar) og Framhaldsskólinn á Laugum (111 ársnemar)?


Skriflegt svar óskast.