Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 737  —  362. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson og Steinlaugu Högnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur og Daða Heiðar Kristinsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016, frá 3. júní 2016, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB frá 15. maí 2014 um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin).
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 3. desember 2016. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2014/60/ESB kemur í stað tilskipunar 93/7/EBE um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og er ætlað að rýmka gildissviðið svo það nái til hvers kyns menningarminja sem skilgreindar eru af aðildarríki sem þjóðarverðmæti með listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi í skilningi 36. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Utanríkismálanefnd áréttar að undir hugtakið menningarminjar falla einnig náttúruminjar sem hafa verulega þýðingu. Tilskipun 93/7/EBE er sjaldan beitt vegna þess hve takmarkað gildissvið hennar er og er tilskipun 2014/60/ESB m.a. ætlað að bæta úr þessu. Í því samhengi má nefna að samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands hefur ekki reynt á lög nr. 57/2011, um skil menningarverðmæta til annarra landa, frá því tóku gildi.
    Þá er með tilskipuninni ekki lengur skilyrði að menningarminjar sem flokkaðar eru sem þjóðarverðmæti þurfi að uppfylla kröfur tengdar aldri og/eða fjárhagslegu gildi svo þau falli undir vernd tilskipunarinnar. Tilskipuninni er auk þess ætlað að stuðla að auknu og skilvirkara samstarfi aðildarríkja og samræmdari beitingu tilskipunarinnar. Þá eru þeir tímafrestir sem kveðið er á um lengdir. Þetta á við bæði um frest til að meta hvort menningarminjar, sem finnast í öðru aðildarríki, teljist til menningarminja í skilningi tilskipunarinnar og frest til þess að hefja málsmeðferð vegna skila á menningarminjum. Loks felur tilskipunin í sér skyldu þess, sem verðmætin finnast hjá, að sýna fram á að hann hafi viðhaft tilhlýðilega aðgát og árvekni við öflun minjanna.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 9. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Álfheiður Ingadóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir. Birgir Ármannsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Teitur Björn Einarsson.