Ferill 554. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 832  —  554. mál.




Fyrirspurn


til félags- og jafnréttismálaráðherra um málefni hinsegin fólks.

Frá Daníel E. Arnarssyni.


     1.      Hefur nefnd um málefni hinsegin fólks, sem skipuð var samkvæmt ályktun Alþingis nr. 7/143, lokið störfum og lagt fram tillögur eða lokaskýrslu? Ef svo er ekki, hvenær eru verklok nefndarinnar áformuð?
     2.      Hefur ráðherra skýringu á því hvers vegna Ísland hefur dregist aftur úr öðrum löndum varðandi lagalegan rétt hinsegin fólks, sbr. nýtt regnbogakort sem gefið er út af ILGA Europe? Hyggst ráðherra bregðast við og beita sér fyrir bættri stöðu hinsegin fólks?
     3.      Hyggst ráðherra, í ljósi þess að það er einkum skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem verður til þess að Íslandi vegnar ekki betur regnbogakortinu en raun er á, beita sér fyrir gerð löggjafar þar sem lagt er bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna?
     4.      Hefur verið hafin vinna við nýja löggjöf um transfólk?
     5.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að transfólk geti með auðveldum hætti breytt kynskráningu sinni hjá þjóðskrá?
     6.      Hefur ráðherra látið kanna möguleika á því að einstaklingar geti skráð kyn sitt með öðrum hætti heldur en hin hefðbundna kynjatvíhyggja gerir ráð fyrir, t.d. með X?
     7.      Telur ráðherra að sú staðreynd að framlög til Samtakanna ´78 hafa lækkað að raunvirði undanfarin sex ár skýri það að Ísland dregst aftur úr í samanburði regnbogakortsins og telur ráðherra rétt að bæta Samtökunum ´78 lækkun framlaga undanfarin ár?
     8.      Hver er afstaða ráðherra til þess að Samtökin ´78 hljóti framlag á fjárlögum hvers árs í ljósi hins fjölþætta og mikilvæga starfs sem fram fer á þeirra vegum?


Skriflegt svar óskast.