Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 842  —  402. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun
fyrir árin 2018–2022.


Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Ófjármögnuð fjármálaáætlun.
    Meiri hluti fjárlaganefndar skilur eftir a.m.k. 8,5 milljarða kr. gat í rekstri ríkisins árið 2018 við afgreiðslu sína á fjármálaáætlun og óvíst er um 17 milljarða kr. 2019 og út áætlunartímann vegna þess að fallið er frá fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðamenn sem taka átti gildi í júlí 2018. Ekki eru lagðar til tekjur eða sagt til um hvar eigi að skera niður á móti minni tekjum. Þetta er óábyrgt.
    Nauðsynlegt er að halda sig við markmið um niðurgreiðslu skulda en ekki gera eins og meiri hlutinn sem lofar ófjármögnuðum útgjöldum. Það dregur úr trausti og setur markmið um afgang af fjárlögum í fullkomið uppnám og ógnar stöðugleika. Aukinn þrýstingur myndast á hækkun vaxta og kynt er undir óstöðugleika á vinnumarkaði, allt vegna þess að fjárlaganefnd og þingmenn ríkisstjórnarinnar ráða ekki við að afla ríkissjóði tekna þegar það hefur sjaldan verið auðveldara. Þeir virðast trúa í blindni á þá kennisetningu frjálshyggjunnar að opinber afskipti og skattheimta geti ekki verið af hinu góða.
    Þingmenn Samfylkingarinnar hafna með öllu þessum óábyrgu vinnubrögðum meiri hlutans við afgreiðslu á fjármálaáætluninni. Það að umgangast áætlunina svona er í algjörri andstöðu við áform um betri vinnubrögð við fjárlagagerð og markmið nýrra laga um opinber fjármál um góða hagstjórn og styrka og ábyrga stjórn opinberra fjármála.
    Meiri hlutinn segist í áliti sínu vilja skoða kosti og galla komugjalda og eykur með því enn óvissu í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar og setur fjármögnun fjármálaáætlunarinnar út gildistíma hennar í uppnám. Þessar fyrirætlanir og spennitreyja fjármálastefnunnar sem kveður á um tiltekinn afgang af ríkisrekstrinum gera það að verkum að niðurskurðarhnífurinn hangir yfir almannaþjónustunni og hann mun falla við minnsta hökt í efnahagslífinu ef núverandi ríkisstjórn fær að halda völdum.
    Ófjármögnuð útgjöld meiri hlutans verða enn óheppilegri þegar þau eru sett í samhengi við helstu athugasemdir fjármálaráðs og annarra um að sýna þurfi meiri ábyrgð í góðærinu. Skila þurfi öruggum afgangi af fjárlögum, meiri frekar en minni, og að lækkun efra þreps virðisaukaskattsins í miðri uppsveiflu sé óheppileg og auki á þensluna. Þessi 13,5 milljarða kr. árlega skattalækkun er aðgerð sem frekar ætti að fara í þegar skóinn kreppir en ekki þegar eitt af helstu verkefnum hagstjórnarinnar ætti að vera að halda aftur af einkaneyslu. Og hún er fráleit ráðstöfun þegar horft er til allra þeirra samfélagslegu mikilvægu verkefni sem eru ófjármögnuð og var lofað að ráðast í að loknum kosningum. Um þau er betur fjallað síðar í þessu nefndaráliti og þar eru settar fram breytingartillögur til að mæta brýnum málum sem stjórnarmeirihlutinn hunsar.
    Í áliti meiri hlutans er rætt um að selja eignir á Keflavíkurflugvelli til að fjármagna samgöngubætur. 3. minni hluti leggst alfarið gegn sölu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sem er hliðið inn og út úr landinu. Mikilvægt er að því sé stjórnað af opinberum aðilum og að þar þrífist ekki einokunarstarfsemi. Fráleitt er að gera að því skóna að sú sala sé eina leiðin til þess að fjármagna samgöngubætur. Þvert á móti er opinber rekstur flugstöðvarinnar góð leið til að fjármagna samgöngubætur. Í fyrra var 7 milljarða kr. hagnaði af rekstri varið til nauðsynlegra fjárfestinga en ekki arðgreiðslna. Útlit er fyrir enn sterkari stöðu félagsins á næstu árum og þá getur það greitt út arð sem væri hægt að nýta í uppbyggingu um allt land.

Skattbreytingar sem auka ójöfnuð.
    Fyrirhuguð lækkun á almennu þrepi virðisaukaskatts er ekki skynsamleg ráðstöfun, jafnvel þótt aðrar aðstæður væru uppi en nú í mikilli uppsveiflu. Aðgerðin er í takt við breytingar síðustu ára þar sem skattkerfið er flatt út og ójöfnuður er aukinn á kostnað velferðarkerfisins. Verið er að búa þannig um hnútana að þeir sem best standa njóti góðærisins betur en aðrir. Nær væri að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins og styðja betur við börn og fólk sem býr á dýrum og ótryggum leigumarkaði í stað þess að minnka stuðninginn við þessa viðkvæmu hópa.
    Sé markmiðið að draga úr umsvifum ríkisins sama hvað það kostar ætti frekar að lækka tryggingagjaldið. Þannig væri stutt við uppbyggingu vel launaðra starfa í mannaflsfrekum þekkingargeiranum og í alþjóðageiranum.
    Nauðsynlegt er einnig að styrkja tekjustofna sveitarfélaga sem sinna stórum og mikilvægum verkefnum. Stærri hlutur sveitarfélaga í tekjum ríkisins af ferðamönnum væri sanngjarn, enda skilja ferðamenn eftir sig stærri spor en tekjur flestra sveitarfélaga ráða við að bæta og tekjurnar duga sjaldnast heldur til að byggja upp innviði til að fyrirbyggja eyðileggingu vegna álags.
    Margir hafa komið fyrir fjárlaganefnd og bent á að skattalækkanirnar sem reiknað er með í fjármálaáætluninni séu illa ígrundaðar og betra væri að styrkja tekjuöflun ríkisins nú þegar vel árar. Þessa gagnrýni er m.a. að finna í umsögn fjármálaráðs. Meiri hlutinn lætur ekki mikið með þá umsögn og horfir fram hjá þyngstu athugasemdunum. Síðan setur hann fram hugmyndir um að veikja tekjugrunn ríkisins enn frekar þvert á ábendingar fjármálaráðs.
    Meiri hluti fjárlaganefndar og þingmenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki ráða við það verkefni að fjármagna almannaþjónustuna. Í stað þess að styrkja tekjuöflunina í takt við athugasemdir sendir meiri hlutinn 8,5 milljarða kr. reikning á skattgreiðendur.
    Ótryggur eins manns meiri hluti þessarar ríkisstjórnar sem féll í fyrstu skoðanakönnun og nú á fyrsta prófi sínu mun reynast almenningi dýrkeyptur. Hann hendir 8,5 milljörðum kr. út um gluggann svo að ríkisstjórnin fái ár í viðbót til að smala liði sínu saman.

Kosningasvik.
    Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022 er svik við kjósendur og almenning í landinu. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Þegar fjármálaáætlunin var kynnt voru stóru fyrirsagnirnar um 20% aukningu til heilbrigðiskerfisins. Það gleymdist að vísu að segja frá því í leiðinni að stærstur hluti þeirrar aukningar væri bygging nýs Landspítala. 3. minni hluti fagnar því að byggja eigi nýjan spítala en hverjum hefði dottið í hug fyrir kosningar að samhliða loforði um byggingu spítalans ætti að skera niður þjónustu á sjúkrahúsunum, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri? Sú viðbót sem ætluð er til spítalanna í fjármálaáætluninni nægir ekki einu sinni til að mæta fjölgun sjúklinga, hvað þá að hún dugi til að vinna á biðlistum eða fyrir nauðsynlegum tækjakaupum eða viðhaldi. Þetta þýðir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og því mótmælir 3. minni hluti og krefst breytinga á fjármálaáætluninni.
    Fjárhæðir til samgöngumála og löggæslu geta ekki mætt uppsafnaðri þörf fyrir samgöngubætur eða til að létta álagi af löggæslu í landinu. Menntastofnanir eru sveltar og einnig helstu jöfnunartæki ríkisins, barnabætur og vaxtabætur.
    Í samþykkt fjármálaáætlunar felst að Alþingi samþykki að stjórnvöld fylgi áætluninni og tölur um útgjöld málasviða verði undirstaða fjárlagafrumvarps næsta árs. Því telur 3. minni hluti að ekki verði hjá því komist að leggja fram breytingartillögur í þeim málaflokkum sem almenningur kallar eftir umbótum á og þar sem svik stjórnarflokkanna eru hvað augljósust.

Heilbrigðismál.
    Í framlögum til heilbrigðismála koma kosningasvik ríkisstjórnarinnar vel í ljós. Fyrir kosningar töluðu allir flokkarnir um stóraukin fjárframlög til heilbrigðisþjónustunnar og betri þjónustu um allt land. Ákalli fólksins í landinu um að heilbrigðisþjónustan yrði framar í forgangsröðinni hjá stjórnvöldum er ekki sinnt. Því mótmælir 3. minni hluti harðlega og leggur fram breytingartillögur.
    Framlög til sjúkrahúsþjónustu verða samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun aukin um 16 milljarða kr. á tímabilinu til ársins 2022. Þar af nema framlög vegna byggingar nýs Landspítala 8,7 milljörðum kr. og aukin framlög til annarra þátta því 7,3 milljörðum kr. Ef þetta verður niðurstaðan mun rekstrarvandi fyrirsjáanlega blasa við öllum heilbrigðisstofnunum þegar á næsta ári, þ.m.t. á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þessi aukning er til muna minni en sú lágmarksviðbótarfjárþörf sem t.d. Landspítalinn hefur áætlað að þurfi til reksturs spítalans, m.a. vegna mannfjöldaþróunar, styttingar biðlista, lágmarksviðhalds og tækjakaupa auk annarra aðkallandi verkefna. Í viðmiði fyrir breytingartillögur 3. minni hluta er gert ráð fyrir að aukningin sem ætluð er til sjúkrahúsþjónustu erlendis vegna biðlistatilskipunarinnar gangi til Landspítalans þannig að fleiri sjúklingar fari í nauðsynlegar aðgerðir hér á landi í stað þess að ferðast til þess til útlanda.

23 Sjúkrahúsþjónusta 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 7.850 9.544 11.440 12.218 14.900

    Ef standa á við markmið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, einkum á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni sem hliðvörðum inn í heilbrigðiskerfið. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks. Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, nýtt kerfi sé vanfjármagnað, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er. Samfylkingin vill að stefnt sé að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði minnkuð í áföngum. 3. minni hluti leggur því til eftirfarandi breytingar þar sem gert er ráð fyrir fjármagni til að lækka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu og styrkja heilsugæsluna í landinu.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 1.750 1.750 1.750 1.750 1.750

    Brýn þörf er fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og fjármagn skortir til rekstrar þeirra sem fyrir eru. Fjölgunin sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni er ekki nægileg til þess að leysa brýnan vanda á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og nemur einungis helmingnum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými fram til ársins 2020. Þá er í áætluninni gert ráð fyrir að fjölga dagdvalarrýmum um 150 til ársins 2022. Jafnframt er stefnt að því að bæta aðbúnað og uppfylla kröfur um öryggi og byggingarreglugerðir á mörgum stofnunum aldraðra og gert ráð fyrir að á tímabilinu verði ráðist í endurbætur á 115 rýmum. Aukning framlaga til málefnasviðsins í heild er áætluð um 5 milljarðar kr. sem er hvergi nærri þeim raunverulegu útgjöldum sem af þessum verkefnum hljótast. Starfsemi nýju hjúkrunarheimilanna hefst í áföngum fram til ársins 2022. Rekstur þeirra kostar á núverandi verðlagi um 2,9 milljarða kr. á ársgrundvelli þegar þau verða öll komin í fullan rekstur. Í þennan lið vantar verulegt fjármagn ef áætlanir eiga að verða að veruleika. Í breytingartillögum 3. minni hluta felst áætlun um hve miklu fjármagni þarf að bæta við til að mæta rekstrarvanda þeim sem hjúkrunarheimilin búa við. Nauðsynlegt er og löngu tímabært að gera áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og fjármagna hana. Ef það verður ekki gert verðum við í stórkostlegum vanda innan fárra ára vegna breytinga á aldursskiptingu þjóðarinnar.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 185 782 3.200 1.800 1.700

Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Löngu tímabærar breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega telur 3. minni hluti forgangsverkefni. Það var einnig kosningaloforð núverandi stjórnarflokka fyrir síðustu kosningar. Óljós vilyrði um efndir eru ekki gefin fyrr en í fyrsta lagi árið 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar við flókin og ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur. Samfylkingin leggur áherslu á að áður en starfsgetumat verður tekið upp eins og boðað hefur verið, muni stjórnarmeirihlutinn kynna sér vandlega reynslu annarra landa af því og hvaða áhrif endurmatið hefur haft á kjör öryrkja, t.d. í Bretlandi. Litlu skiptir hvað það mat er kallað sem skýrir stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild neitar að koma til móts við fólk með ráðningu í hlutastörf eða með sveigjanlegum vinnutíma. Sumir þurfa t.d. á dýrum hjálpartækjum að halda og enn aðrir geta suma daga verið með 100% starfsgetu en á öðrum tímum aðeins með 20% starfsgetu. Til er fólk sem mun aldrei geta haslað sér völl á vinnumarkaði og taka þarf tillit til aðstæðna þess. Einnig þarf t.d. að taka tillit til aðstæðna úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Ef alvara er að baki því að grípa til aðgerða sem stuðlað geta að því að fækka fólki með örorkumat ber fyrst og fremst að leggja höfuðáherslu á aukinn jöfnuð í samfélaginu. Í breytingartillögum 3. minni hluta er gert ráð fyrir kjarabótum til öryrkja strax á næsta ári.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 4.538 2.610 1.688 1.922 2.200

Stuðningur við ungar fjölskyldur.
    Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu á síðasta kjörtímabili lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur, létu barnabætur tapa verðgildi sínu og gerðu tekjuskerðingar bótanna þar að auki meiri en áður. Núverandi ríkisstjórn heldur áfram á sömu braut.
    Þó að staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð hefur fátækt barna aukist. Mörg börn búa við óviðunandi aðstæður og húsnæðiskostnaður er mjög hár hlutfallslega af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og húsnæðisstuðning. Útgjöld til barnabóta halda áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár samkvæmt fjármálaáætluninni. Fjölskyldum sem fá barnabætur fækkaði um tæplega 12.000 milli áranna 2013 og 2016 og heldur áfram að fækka á næstu árum. Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur á undanförnum árum og fólki hefur verið gert erfiðara um vik að ala upp börn sín við efnahagslegan stöðugleika. Þetta er raunverulegt áhyggjuefni og Samfylkingin leggur til heildarendurskoðun á stuðningi við barnafjölskyldur og á barnabótakerfinu og að litið verði til Norðurlanda í því sambandi. 3. minni hluti gerir því tillögu um viðbótarframlög af þessu tilefni.

29 Fjölskyldumál 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 3.000 3.000 3.000 3.000 3.000

    Það eru nokkur atriði sem hafa valdið því neyðarástandi sem ríkir á fasteignamarkaði en þau veigamestu eru skortur á framboði, tilurð risastórra leigufélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni, íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum og sambland aðgerða og verkleysis síðustu ríkisstjórnar og því miður virðist sú nýja ekki hafa metnað til að gera betur. Það er nauðsynlegt að bregðast við ástandinu á húsnæðismarkaðnum með öllum tiltækum ráðum. Fyrir liggur þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu fjögur árin þar á eftir. Þannig geta stjórnvöld aukið framboð af niðurgreiddu húsnæði og unnið gegn þeirri miklu spennu sem nú er á húsnæðismarkaði.
    3. minni hluti telur að vinna þurfi hratt að því að hlutfall ráðstöfunartekna heimila sem varið er í húsnæðiskostnað verði ekki hærra en 25%. Nú er ástandið þannig að mikið öryggisleysi er á húsnæðismarkaði og húsnæðiskostnaður í mörgum tilvikum nærri helmingur ráðstöfunartekna fjölskyldna. 3. minni hluti leggst gegn því að dregið verði úr húsnæðisstuðningi í vaxtabótakerfinu og leggur til að viðmiðunarfjárhæðum í kerfinu verði ekki haldið föstum allt tímabilið. Ef áætlun ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga mun fækka í hópi þeirra sem fá vaxtabætur sem dregur enn meira úr jöfnunarhlutverki kerfisins. Þá er mikilvægt að ljóst liggi fyrir hvernig farið verði með húsnæðisbætur til leigjenda en af lestri fjármálaáætlunar er óljóst hvort upphæðir húsnæðisbóta muni standa í stað eða fylgja þróun verðlags.

31 Húsnæðisstuðningur 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 3.000 3.550 5.277 5.489 5.700

Menntun.
    Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvæðingu og gervigreind munu mörg störf hverfa, önnur haldast og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika. Stefna ríkisstjórnarinnar er önnur og henni mótmælir Samfylkingin harðlega og telur hana lýsa ótrúlegri skammsýni ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum.
    Framhaldsskólarnir standa frammi fyrir miklum áskorunum á næstu skólaárum, m.a. að:
          tryggja eins gott aðgengi að námi og mögulegt er, enda eru framhaldsskólar hornsteinar byggða um allt land,
          bregðast við því að nemendum fækkar í bóknámi vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs,
          takast á við tímabundna fækkun nýnema vegna færri einstaklinga í árgangi,
          fámennari skólar þurfa að vinna meira saman til að tryggja fjölbreytt námsframboð ýmist með staðbundnu námi eða fjarnámi,
          vinna gegn brottfalli nemenda,
          efla starfsmenntun.
    3. minni hluti leggur því til að framhaldsskólarnir fái auknar fjárveitingar á meðan vandinn gengur yfir því að strax árið 2021 fer nýnemum aftur að fjölga og fjölgar meira næstu árin þar á eftir. Með fjárveitingunum verði skólunum gert kleift að halda úti fámennum áföngum, auka samstarf skóla með fjar- og dreifnámi og halda aðgengi að framhaldsskólum í heimabyggð. Einnig leggur 3. minni hluti til að sá sparnaður sem hlýst af styttingu námstíma til stúdentsprófs verði nýttur til að styrkja framhaldsskólakerfið, bæði stoðþjónustu og kennslu.

20 Framhaldsskólastig 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 400 400 400 513 687

    3. minni hluti telur þau framlög til háskólastigins sem lögð eru til með fjármálaáætluninni vera ávísun á að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum og að samkeppnisstaða landsins versni ár frá ári. Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 millj. kr. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðunum því framlagið nemur rúmlega 2,2 millj. kr. að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. Í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er markmiðið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins svo að hún verði a.m.k. sambærileg við meðaltal annarra norrænna ríkja árið 2020. Tillaga ríkisstjórnarinnar að fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 sýnir hins vegar að ekki á að vinna að því markmiði og reyndar langt því frá. Ef ekki verður lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði. Slíkt getur Samfylkinginn alls ekki stutt og leggur til að farið verði í átak sem færi háskólakerfið nær því sem best gerist í nágrannalöndunum með því að bæta milljarði við áætluð fjárframlög á hverju ári sem fjármálaáætlunin næst til. Þessar viðbætur munu þó ekki duga til þess að ná hinum norrænu ríkjunum í fjárframlögum á hvern nemenda og því þarf að halda áfram í átt að settu marki Vísinda- og tækniráðs. Tillögur 3. minni hluta um viðbótarframlög til háskólastigsins eru sýnd í eftirfarandi töflu.

21 Háskólastig 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 1.000 2.000 3.000 4.000 5.000

Samgöngur.
    Augljóst er að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta nægja engan veginn til að mæta þeirri þörf sem fyrir er í landinu. Landshlutasamtök sveitarfélaga sem komu til fundar við fjárlaganefnd eftir framlagningu fjármálaáætlunarinnar lýstu öll áhyggjum af ástandi vegakerfisins sem er orðið mjög bágborið. Þar kemur bæði til að ekki hefur verið veitt nægt fé í viðhald og nýframkvæmdir og álag vegna fjölgunar ferðamanna, einkum á ákveðnum svæðum landsins. Bættar samgöngur munu skila sér í margvíslegu formi til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina, búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landssvæðum þar sem samgöngur eru svo slæmar að ástandið bitnar á lífsgæðum íbúa. Eitt af meginskilyrðunum fyrir búsetu um allt land er að fjarskipti séu í góðu lagi alls staðar. Því þarf að styrkja þá áætlun sem fyrir er í fjarskiptamálum og flýta því að kerfið virki á öllu landinu. Í breytingartillögum 3. minni hluta er gert ráð fyrir þessu og að samgönguáætlun verði að fullu fjármögnuð fyrir árið 2018 og nauðsynleg aukning verði út áætlunartímann.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 7.739 7.270 6.447 6.498 3.112

Löggæsla.
    Álag á lögreglu vegna fjölgunar ferðamanna hefur aukist um allt land frá árinu 2012 þegar stökk kom í fjölgunina. Lögreglumönnum hefur ekki fjölgað í takt við fjölda mála sem snúast um brot fólks með erlenda kennitölu né í takt við fjölgun ferðamanna. Því er nokkuð ljóst að álag á hvern lögregluþjón hefur aukist mikið og búast má við að þjónusta við íbúa sem ekki varðar líf og limi fólks sitji á hakanum. Því leggur 3. minni hluti til breytingar á fjárframlögum til löggæslunnar með viðbótum sem sýndar eru í töflunni.

09 Almanna- og réttaröryggi, löggæsla 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 600 500 150 300 300

Þróunarsamvinna.
    Sameinuðu þjóðirnar hafa sammælst um að framlög til þróunarsamvinnu verði 0,7% af vergum þjóðartekjum ríku iðnríkjanna. Fá ríki skila því viðmiði til fátækustu þjóða heims og við Íslendingar erum langt undir því viðmiði. Í fjármálaáætluninni leggur ríkisstjórnin til að 0,26% af vergum þjóðartekjum verði varið til þróunarsamvinnu. Milljarður manna fær ekki hreint vatn og 2,4 milljarðar manna búa ekki við hreinlætisaðstöðu. Að jafnaði deyr eitt barn úr malaríu á 30 sekúndna fresti. Meðalævi í fátækum löndum er um helmingi styttri en á Vesturlöndum. Flóttamannastofnunin sendi út neyðarkall til ríkja heims á þessu ári um að auka fjárframlög til mannúðarmála og þróunarsamvinnu. Íslenska þjóðin, sem er ein sú ríkasta í heimi, á að sjá sóma sinn í að gera mun betur. Árið 2013 samþykkti Alþingi þingsályktun um þróunarsamvinnu nr. 21/141, með aðeins einu mótatkvæði, en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks aftengdi hana á síðasta kjörtímabili. Hefði þeirri þingsályktun verið fylgt hefðu framlög Íslands til þróunarsamvinnu numið 0,5% af vergum þjóðartekjum árið 2017 og náð viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um 0,7% árið 2019. Samdrátturinn heldur áfram í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Í breytingartillögum 3. minni hluta er gert ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu hækki upp í 0,29% af vergum þjóðartekjum (VÞT) á árinu 2018 og fari stighækkandi þannig að framlögin hækki um 0,01 prósentustig á ári til ársins 2022 og verði þá 0,33% af VÞT. Slík hækkun er algjört lágmark og ætti í raun að vera mun meiri svo sómi væri að. Viðbótarframlög samkvæmt breytingartillögunni eru sýnd í töflunni.

04 Utanríkismál 2018 2019 2020 2021 2022
Breytingartillaga, viðbót í millj. kr. 782 1.072 1.377 1.697 2.028

Breytingartillögur samtals.
    Breytingartillögurnar sem 3. minni hluti telur lágmarksbreytingar sem gera þarf á fjármálaáætluninni eru sýndar samtals í töflunni hér á eftir.

2018 2019 2020 2021 2022
Verg landsframleiðsla (VLF) í millj. kr. 2.735.000 2.893.000 3.052.000 3.212.000 3.379.000
Útgjaldaaukning í millj. kr. 30.844 32.478 37.729 39.187 40.377
Útgjaldaaukning, % af VLF 1,13% 1,12% 1,24% 1,22% 1,19%

    Þar sem að ljóst er að þörf er frekari breytinga en nefndar eru í nefndaráliti þessu eru gerðar tillögur að tekjuaukningu sem rúma frekari útgjöld og/eða skila betri afkomu ríkissjóðs en stjórnvöld gera ráð fyrir. Gerðar eru tillögur um tekjuöflun sem stuðlar að réttlátara skattkerfi, spornar gegn auðsöfnun á fárra hendur og gefur sanngjarnari tekjur af auðlindum þjóðarinnar. Tillögurnar eru sundurliðaðar í eftirfarandi töflu.

Milljarðar kr. 2018 2019 2020 2021 2022
Skattar á tekjur og hagnað
Hert skatteftirlit 6 5 5 5 5
Stighækkandi tekjuskattur lögaðila 4 4 4 4 4
Stighækkandi fjármagnstekjuskattur 2 2 2 2 2
Eignarskattar
Stóreignaskattur 0 7 7 7 7
Skattar á vöru og þjónustu
Almennt vsk-þrep ekki lækkað 0 13,5 13,5 13,5 13,5
Eignatekjur
Arðgreiðslur 13 7 7 7 7
Veiðigjöld 3 9 9 9 9
Orkufyrirtæki, auðlindarenta 3 3 3 4 5
Tekjuaukning alls 31 50,5 50,5 51,5 52,5

    Varlega er áætlað í tillögum 3. minni hluta að hert skatteftirlit skili 5 milljörðum kr. í ríkissjóð en áætlað hefur að rúmum 80 milljörðum kr. sé stungið undan skatti á ári.
    3. minni hluti gerir tillögu um stighækkandi tekjuskatt lögaðila og stighækkandi fjármagnstekjuskatt. Til að gefa vísbendingar um umfangið, þá mundi hækkun skatts á hagnað lögaðila úr 20% í 25% skila 17 milljarða kr. auknum tekjur miðað við skattstofninn 2016. 3. minni hluti leggur þó ekki til slíka hækkun heldur að með þrepaskiptum tekjuskatti lögaðila fengjust samtals 4 milljarðar kr. í auknar tekjur af skattstofninum. Sama má segja um stighækkandi fjármagnstekjuskatt sem einstaklingar greiða að mestu en einnig lögaðilar sem ekki eru tekjuskattsskyldir. Fjármagnstekjuskattur gæfi 7,5 milljarða kr. í tekjuaukningu ef hann yrði hækkaður úr 20% í 25% en með þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti gerir 3. minni hluti ráð fyrir 2 milljörðum kr. í auknar tekjur.
    Lagt er til að auðlegðarskatti verði komið á að nýju en hann skilaði 10 milljörðum kr. í ríkissjóð síðasta árið sem hann var lagður á stóreignafólk árið 2014. 3. minni hluti gerir þó ráð fyrir lægri tekjum en þá og að íbúðarhúsnæði vegi minna í skattstofninum. Einnig er gerð tillaga um stóreignaskatt.
    3. minni hluti leggur til að almenna virðisaukaskattþrepið verði ekki lækkað niður í 22,5%. Sú lækkun á almennum virðisaukaskatti úr 24% í 22,5% sem ríkisstjórnin hefur lagt til og reiknað er með í áætluninni mundi minnka tekjur ríkissjóðs um 13,5 milljarða kr. árlega en 3. minni hluti leggur til að fallið verði frá þeim áformum
    Áætlaðar arðgreiðslur eru of lágar í fjármálaáætluninni og hafa verið vanáætlaðar undanfarin ár. Áætluð viðbót sem 3. minni hluti leggur til er hófleg.
    Lagt er til að veiðigjöld hækki þannig að 3 milljarðar kr. bætist við á þarnæsta fiskveiðiári frá 1. september 2018 en aukningin skili 9 milljörðum kr. til viðbótar á ársgrundvelli. Einnig er lagt til að ríkið innheimti auðlindarentu af orkufyrirtækjum.

Fjármálaráð og fylgiskjöl.
    3. minni hluti tekur undir gagnrýni fjármálaráðs sem bendir m.a. á að áætlunin er ógegnsæ og erfitt að átta sig á hvað að baki tillögunni býr í sumum tilfellum. 3. minni hluti telur afar brýnt að fyrir gerð næstu fjármálaáætlunar verði tekið tillit til ábendinga og gagnrýni fjármálaráðs sem finna má á slóðinni: www.althingi.is/altext/erindi/146/146-800.pdf.
    Fylgiskjöl nefndarálits þessa eru umsögn Guðjóns S. Brjánssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í velferðarnefnd, og umsögn Loga Einarssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í atvinnuveganefnd.

Alþingi, 22. maí 2017.

Oddný G. Harðardóttir.




Fylgiskjal I.



Umsögn 4. minni hluta velferðarnefndar.


    Velferðarnefnd fjallar um sjúkra- og lífeyristryggingar, félagsþjónustu, málefni barna, málefni aldraðra og málefni fatlaðra, húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og heilbrigðisþjónustu.
    Við umfjöllun fjármálaáætlunar í velferðarnefnd var almennt rætt um vinnubrögð og verklag að því er varðar þinglega meðferð áætlunarinnar. Æskilegt er að fastanefndum gefist kostur á að fjalla ítarlegar um fjármálaáætlun með lengri umsagnarfresti framvegis og hvernig greiningu og meðferð áætlunarinnar skuli háttað. Brýnt er að stefna að bættri framsetningu fjármálaáætlunar og sérstaklega að því er varðar framsetningu á tölum. Það er haldlítil og ómarkviss vinna ef nefndir hafa ekki í umsagnarvinnu sinni aðgang að áætluðum kostnaði við einstakar aðgerðir sem stefna á að, eftir því sem kostur er. Þörf er á samræmdum verklagsreglum um hvernig skuli áætla kostnað aðgerða í fjármálaáætlun. Nauðsyn er á auknu gagnsæi, eins og lögin um opinber fjármál gera ráð fyrir, og birta í áætluninni útgjöld brotin niður á málaflokka. Þá er ótækt annað en að í framsetningu fjármálaáætlunar verði sundurliðaður annars vegar rekstrarkostnaður og hins vegar kostnaður við einstakar fjárfestingar á tilteknu málefnasviði.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Eins og fram kemur í fjármálaáætluninni verða framlög til sjúkrahúsþjónustu aukin um 16 milljarða kr. á tímabilinu til ársins 2022 eða sem nemur um 20%. Þar af nema framlög vegna byggingar nýs Landspítala 8,7 milljörðum kr. og aukin framlög til annarra þátta eru því 7,3 milljarðar kr. sem er 9% raunaukning á tímabilinu. Ef þetta verður niðurstaða áætlunarinnar mun rekstrarvandi fyrirsjáanlega blasa við öllum heilbrigðisstofnunum þegar á næsta ári, þ.m.t. á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þessi aukning er til muna minni en sú lágmarksviðbótarfjárþörf sem t.d. Landspítalinn hefur áætlað að þurfi til reksturs spítalans m.a. vegna mannfjöldaþróunar, styttingar biðlista, lágmarksviðhalds og tækjakaupa auka annarra aðkallandi verkefna. Að mati stjórnenda á Landspítalanum einum nemur þessi upphæð að lágmarki 5 milljörðum kr. Í fjármálaáætluninni er ekki ljóst hvort gert sé ráð fyrir fjármunum til stofnframkvæmda við Sjúkrahúsið á Akureyri né á hvaða tímabili þau muni falla til. Ljóst er að stofnframkvæmdir og stór endurbótaverkefni bíða víðar á heilbrigðisstofnunum, t.d. á Selfossi, á Akranesi og í Stykkishólmi. Ekki er með nokkru móti hægt að átta sig á því hvort gert sé ráð fyrir einhverju fé til þessara verkefna í fyrirliggjandi fjármálaáætlun og líklegast að svo sé ekki. Það mun kalla á ósætti og vanda í starfsemi þessara stofnana.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Heilsugæsla víða um land hefur verið veitt með ófullnægjandi hætti undanfarin ár og svo hefur verið frá efnahagshruni þegar fjöldi lækna hvarf til starfa í útlöndum. Allt þetta tímabil hafa heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni verið vanfjármagnaðar og brýnustu verkefnin leyst með verktakaþjónustu. Stórfelldar launahækkanir lækna, þ.m.t. verktakalækna á tímabilinu, hafa ekki verið bættar sem hluti launakostnaðar í launakerfi ríkisins. Fyrirliggjandi fjármálaáætlun gerir ekki ráð fyrir því átaki sem þarna þarf að vinna, eftir því sem best verður séð. Ef standa á við markmið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, einkum á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni sem hliðvörðum inn í heilbrigðiskerfið í vaxandi mæli. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks.

Greiðsluþátttaka.
    Nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustunni var tekið í notkun 1. maí sl. en gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þess nemi um 1,5 milljarði kr. á ársgrundvelli. Breytingin felur í sér að sett er tæplega 70.000 kr. þak á ári á greiðsluþátttöku almennra sjúklinga fyrir þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérgreinalækna, myndgreininga, rannsókna og þjálfunar. Breytingin er að mestu fjármögnuð með tilfærslu á kostnaði frá þeim sem þurfa mikla heilbrigðisþjónustu til þeirra sem þurfa minni þjónustu. Það þýðir að fyrir allflesta sem þurfa tilfallandi þjónustu munu gjöld hjá sérfræðilæknum og fyrir rannsóknir og myndgreiningar hækka umtalsvert áður en þaki er náð. Við samþykkt laganna gaf heilbrigðisráðherra loforð um að þakið fyrir almenna sjúklinga yrði lækkað í um 50.000 kr. og fjármagnað í fjárlögum fyrir árið 2017 en við það verður ekki staðið samkvæmt áætluninni.
    Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, núverandi aðgerð sé vanfjármögnuð, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er.
    Samfylkingin leggur til að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði lækkuð í áföngum. Þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um fyrsta áfanga þess er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd og er efnislega á þá leið að heilsugæsla verði gjaldfrjáls, læknisþjónustan utan heilsugæslu fari ekki upp fyrir 35.000 kr. á ári og greiðsluþátttaka aldraðra og öryrkja í tannlækningum verði lækkuð.

Sjúkraflutningar.
    Enginn samningur er lengur í gildi um sjúkraflutninga í landinu. Samningar við Rauða krossinn á Íslandi um rekstur og starfsemi sjúkrabifreiða f.h. heilbrigðisráðuneytis féll úr gildi fyrir tveimur árum. Ekki hefur tekist að semja að nýju þrátt fyrir umleitanir RKÍ sem á og starfrækir bifreiðarnar og búnað þeirra. Ráðuneyti hefur ekki gefið upp hvort samið verður við sömu aðila að nýju, hvort það taki þjónustuna til sín eða að þjónustan verði boðin út til einkaaðila. Samningurinn er vanáætlaður vegna aukins kostnaðar við þjónustuna sem felst m.a. í betur búnum bifreiðum. Engar upplýsingar þessa efnis er að finna í fjármálaáætluninni. Andvirði flota sjúkrabifreiða RKÍ er talinn vera a.m.k. 1 milljarður kr.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Samkvæmt því sem fram kemur í fjármálaáætlun eru áformuð fimm ný hjúkrunarheimili á tímabilinu til ársins 2022. Fram kemur misræmi í áætluninni um fjölda rýma. Á bls. 68 segir að ný rými verði 261 en á bls. 306 að fjölgun rýma á tímabilinu nemi 292. Þarna skeikar um 31 rými sem er kostnaður sem hleypur á ríflega 300 millj. kr. á ársgrundvelli. Þessi fjölgun er hvort heldur sem er alls ekki nægileg til þess að leysa brýnan vanda á höfuðborgarsvæðinu og nemur einungis helmingnum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými fram til ársins 2020. Þá er í áætluninni gert ráð fyrir að fjölga dagdvalarrýmum um 150 á tímabilinu til ársins 2022. Jafnframt er stefnt að því að bæta aðbúnað og uppfylla kröfur um öryggi og byggingareglugerðir á mörgum stofnunum aldraðra og gert ráð fyrir að á tímabilinu verði ráðist í endurbætur á 115 rýmum. Í málaflokkinn eru áætlaðir í heild um 5 milljarðar kr. sem er hvergi nærri þeim raunverulegu útgjöldum sem af þessum verkefnum hljótast. Starfsemi hjúkrunarheimilanna hefst í áföngum fram til 2022. Rekstur þeirra kostar á núverandi verðlagi um 2,9 milljarða kr. á ársgrundvelli þegar þau verða öll komin í fullan rekstur. Með áfangaskiptingu í huga er hins vegar varlega áætlað að rekstrarkostnaðurinn verði á tímabilinu um 11,9 milljarðar kr. 150 ný dagdvalarrými, sem sömuleiðis verða tekin í notkun í áföngum, kosta að sama skapi um 1 milljarð kr. á tímabilinu skv. mati. Endurbætur á eldra húsnæði er óviss upphæð en hleypur sennilega samkvæmt mati á 1/ 2–1 milljarði kr. Niðurstaðan er því sú að inn í þennan lið vantar verulegt fjármagn ef áætlanir eiga að verða að veruleika.
    Þá er á það bent að hjúkrunarheimili eru nú þegar undirfjármögnuð og mörg hver í rekstrarvanda þrátt fyrir nýlega gerðan þjónustusamning við S.Í. Talið er að inn í rekstur hjúkrunarheimilanna vanti á bilinu 7–10% hækkun daggjalda svo jafnvægi verði náð.

26 Lyf og lækningavörur.
    Íslendingar neyta meiri lyfja en aðrar þjóðir í Evrópu samkvæmt endurteknum könnunum. Engin rannsókn hefur verið gerð á ástæðum þessa sem vekur athygli. Markmið yfirvalda er að fjölga innleiðingum nýrra lyfja en ekki er ljóst hvað vegur þyngst í þessum málaflokki. Það liggur hins vegar fyrir að kostnaður vegna innleiðingar nýrra lyfja og mikillar lyfjanotkunar Íslendinga almennt hefur farið fram úr áætlunum. Fjármálaáætlunin virðist hvorki gera ráð fyrir þeirri óumflýjanlegu þróun sem virðist blasa við, þ.e. auknum væntingum um upptöku nýrra lyfja sem fjölgar stöðugt, né taka tillit til framþróunar eða öldrunar þjóðarinnar.
    Varðandi hjálpartæki er svipaða sögu að segja. Ný tækni skapar auknar væntingar, NPA-innleiðingin mun sömuleiðis kalla á aukinn viðbúnað að þessu leyti enda geta rétt hjálpartæki skipt sköpum um lífsgæði einstaklinga sem búa við líkamlega fötlun. Ekki hefur verið hægt að uppfylla væntingar um átak í þessum efnum undanfarin ár og ekki sýnilegt í fjármálaáætlun til næstu ára að bragarbót verði gerð þar á.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Löngu tímabærar breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega telur 4. minni hluti að sé forgangsverkefni. Það var kosningaloforð núverandi stjórnarflokka fyrir síðustu kosningar. Óljós vilyrði um efndir þessa eru ekki gefin fyrr en í fyrsta lagi árið 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar við flókin og ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.
    4. minni hluti leggur áherslu á að áður en starfsgetumat verður tekið upp eins og boðað hefur verið muni stjórnarmeirihlutinn kynna sér vandlega reynslu annarra landa af því og hvaða áhrif endurmatið hefur haft á kjör öryrkja t.d. í Bretlandi. Það skiptir litlu hvað það mat er kallað sem skýrir stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild neitar að koma til móts við fólk með ráðningu í hlutastörf eða með sveigjanlegum vinnutíma. Sumir þurfa t.d. á dýrum hjálpartækjum að halda og enn aðrir geta suma daga verið með 100% starfsgetu en í annan tíma aðeins með 20% starfsgetu. Sumir munu aldrei geta haslað sér völl á vinnumarkaði. Það þarf líka að taka tillit til aðstæðna þeirra. Einnig þarf að taka tillit til aðstæðna, svo sem úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Ef alvara er að baki því að grípa til aðgerða sem stuðlað geta að því að fækka fólki með örorkumat ber fyrst og fremst að leggja höfuðáherslu á aukinn jöfnuð í samfélaginu.
    Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir fær senn umfjöllun velferðarnefndar. Lögin geta falið í sér mikla réttarbót fyrir þennan hóp ef þau komast til framkvæmda. Veigamikill þáttur þeirra er NPA-þjónusta eða notendastýrð persónuleg aðstoð. Gert er ráð fyrir að í lok tímabilsins, árið 2022, verði komnir til framkvæmda í áföngum 172 samningar um þá þjónustu en sterkar vísbendingar eru um að þetta séu of fáir samningar. Sömuleiðis eru teikn um að kostnaðarforsendur séu mjög veikar, þ.e. að framkvæmd samninganna kosti meira en gert er ráð fyrir í áætluninni. Þá er óútkljáður ágreiningur ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarhlutdeild ríkisins og það getur skipt talsverðu í áætlun þessari.

28 Málefni aldraðra.
    Samfylkingin áréttar að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25.000 kr. á mánuði í 100.000 kr. í áföngum á árunum 2018–2022 er breyting sem eingöngu gagnast þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25.000 kr. á mánuði. Það eru um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum.

29 Fjölskyldumál.
    Útgjöld til barnabóta halda áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár samkvæmt fyrirliggjandi fjármálaáætlun. Fjölskyldum sem fá barnabætur fækkaði um tæplega 12.000 milli áranna 2013 og 2016 og heldur samkvæmt þessu áfram að fækka á næstu árum. Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur á undanförnum árum og þeim gert erfiðara um vik að ala upp börn sín við efnahagslegan stöðugleika. Þetta er raunverulegt áhyggjuefni og 4. minni hluti leggur til heildarendurskoðun á stuðningi við barnafjölskyldur og á barnabótakerfinu og að litið verði til Norðurlanda í því sambandi.

Fæðingarorlof.
    4. minni hluti telur forsendur til að hækka hámarksgreiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði umfram það sem áformað er, þ.e. í 600.000 kr. á mánuði í áföngum fram til ársins 2020 sem er alls engin raunhækkun ef horft er til verðlagsþróunar. Þetta er mikið hagsmunaatriði þegar haft er í huga að frjósemi þjóðarinnar er nú undir þeim mörkum að geta viðhaldið mannfjölda til lengri tíma. Þá leggur 4. minni hluti til að farið verði að tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem lagði til að tekjur upp að 300.000 kr. á mánuði skerðist ekki og að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12 í áföngum.

30 Vinnumarkaðsmál og atvinnuleysi.
    Mikilvægt er að tryggilega sé um það búið að ekki sé brotið á starfsmönnum og réttindi þeirra varin. Tekið er undir áherslur á fækkun vinnuslysa og áform um að sporna við þeim en ekki er ljóst hvort fjármunir munu fylgja svo hrinda megi verkefnum í framkvæmd.
    Varað er við áformum um að stytta bótatímabil atvinnuleysisbóta og vakin athygli á að ríkið getur skapað sér bótaskyldu fyrir dómstólum á grundvelli þess að um afturvirkar skerðingar sé að ræða á þegar áunnum réttindum. Tillögur um styttingu þessa er lögð fram án alls samráðs við aðila vinnumarkaðarins og þar með löng hefð brotin.

31 Húsnæðisstuðningur.
    Það eru nokkur atriði sem hafa valdið neyðarástandi því sem ríkir á fasteignamarkaði en þau veigamestu eru skortur á framboði, tilurð risastórra leigufélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni, íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum og sambland aðgerða og verkleysis síðustu ríkisstjórnar. 4. minni hluti áréttar að bregðast þurfi við bráðu ástandi á húsnæðismarkaði með öllum tiltækum ráðum.
    4. minni hluti telur að vinna þurfi hratt að því að hlutfall ráðstöfunartekna heimila sem varið er í húsnæðiskostnað verði ekki hærra en 25%. Nú er ástandið þannig að mikið öryggisleysi er á húsnæðismarkaði og húsnæðiskostnaður í mörgum tilvikum nærri helmingur ráðstöfunartekna fjölskyldna. Fyrir liggur þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu fjögur árin þar á eftir og um 600 íbúðir á ári eftir það til að tryggja nægilegt framboð fyrir þá hópa sem kerfinu er ætlað að ná til. Til þess að svo megi verða þarf að auka og framlengja stofnframlög til fjölgunar almennra íbúða lengur en til ársins 2022. Þannig geta stjórnvöld aukið framboð af niðurgreiddu húsnæði og unnið gegn þeirri miklu spennu sem nú er á húsnæðismarkaði.
    4. minni hluti leggst gegn því að dregið verði úr húsnæðisstuðningi í vaxtabótakerfinu. Þá er brýnt að viðmiðunarfjárhæðum í kerfinu verði ekki haldið föstum allt tímabilið. Það þýðir að fækka mun í hópi þeirra sem fá vaxtabætur sem dregur enn meira úr jöfnunarhlutverki kerfisins. Þá er mikilvægt að ljóst liggi fyrir hvernig farið verði með húsnæðisbætur til leigjenda en af lestri fjármálaáætlunar er óljóst hvort upphæðir húsnæðisbóta muni standa í stað eða fylgja þróun verðlags.

Lokaorð.
    Hvað varðar málefnasvið velferðarnefndar, þá er það í stuttu máli mat 4. minni hluta að tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 skapi hvorki grundvöll að efnahagslegum stöðugleika né undirbyggi þær velferðarumbætur sem nauðsynlegar eru til að stuðla að félagslegum stöðugleika, jöfnuði og betri heilbrigðisþjónustu sem Íslendingar hafa lýst yfir tugþúsundum saman að eigi að vera algjört forgangsverkefni stjórnvalda. Sú viljayfirlýsing endurspeglast ekki í þessari fjármálaáætlun.

Alþingi, 8. maí 2017.

Guðjón S. Brjánsson.




Fylgiskjal II.


Umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Við Íslendingar erum rík af auðlindum en okkur hefur ekki lánast að móta auðlindastefnu þar sem er jafnvægi milli þess að tryggja atvinnugreinum ásættanleg rekstrarskilyrði og um leið þjóðinni sanngjarna auðlindarentu. Það er gagnrýnivert og miður að ekki sé að finna áform í fjármálaáætluninni um að nýta tækifærin sem eru til staðar til að styrkja velferðarkerfið og innviði með auknum tekjum af auðlindum. Ábyrg stjórnvöld verða að mæta kröfum um uppbyggingu innviða sem er háværari en ákall um skattalækkanir.
    Veikleiki tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun felst í því að ekki er gengið nógu langt í að afla meiri tekna til að standa undir almennri velferð og meiri jöfnuði í landinu. Í tillögunni koma fram ágætis markmið og tillögur að aðgerðum í atvinnumálum. Þó er ljóst eftir heimsókn gesta til atvinnuveganefndar að ekki eru tryggðir fjármunir til að fylgja þeim öllum eftir. Erfitt er að gefa markmiðum og aðgerðum jákvæða umsögn þegar þau eru að mestu ófjármögnuð. Algengasta setning fjármálaáætlunarinnar er líklega „verður forgangsraðað innan ramma“ og er slíkt í sjálfu sér óboðlegt og ávísun á niðurskurð sem við vitum ekki hvar lendir.
    Því miður er heldur lítið í tillögunni sem snýr að nýsköpun og neytendavernd. Þar eru tækifæri til að gera miklu betur.
    2. minni hluti telur æskilegt að rýmri tíma ætti að gefa fyrir þinglega meðferð tillögunnar, einkum fyrir fastanefndir þingsins sem ættu að geta fjallað ítarlegar um fjármálaáætlun og hafa lengri tíma til að skila umsögn.
    Brýnt er að stefna að bættri framsetningu fjármálaáætlunar, sérstaklega að því er varðar framsetningu á tölum. Nauðsyn er á auknu gagnsæi, eins og lögin um opinber fjármál kveða á um, og að birta í áætluninni útgjöld skipt eftir málaflokkum. Þá er ótækt annað en að í framsetningu fjármálaáætlunar verði greint á milli annars vegar rekstrarkostnaðar og hins vegar kostnaðar við einstakar fjárfestingar á tilteknu málefnasviði.

Sjávarútvegur og fiskeldi, 13. málefnasvið.
    Útgerðarfyrirtæki greiða veiðigjald sem er langt undir markaðsverði kvóta.
    Útboð á kvóta er skilvirk leið til að tryggja sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlindinni til þjóðarinnar og endurspegla raunverulegt verðmæti hans hverju sinni. Útboð mundi örva sanngjarna samkeppni milli sjávarútvegsfyrirtækja og tryggja minni fyrirtækjum aðgang að kvóta. Nú gengur kíló af þorski á 180 kr. á millimarkaði en veiðigjaldið sem rennur í ríkissjóð er aðeins 11 kr. Það eru vonbrigði að engar áætlanir er að finna um að sanngjarn hluti auðlindarentunnar renni til þjóðarinnar. Fyrirhugað er að skipa nefnd um sátt um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnunar. Á meðan kvóti er ekki boðinn út er nauðsynlegt að hækka veiðigjöld af hverjum veiddum fiski.
    Til að öðlast reynslu af útboði á kvóta, þar sem taka þarf tillit til byggðasjónarmiða og minni útgerða, væri skynsamlegt að bjóða út mögulegan viðbótarkvóta, þ.e. þá aukningu sem verður á veiðiheimildum á milli ára. Tekjur sem af því hlytust ætti að nýta til þess að styrkja tekjugrunn fjármálaáætlunar. Hið sama ætti að gera með makríl og aðrar nýja fisktegundir sem koma á miðin.
    Útboð á hluta kvóta mundi nýtast til að ákvarða veiðigjöld og gæti verið grundvöllur sáttar um gjaldtöku af greininni. Hún yrði þá ekki bitbein stjórnmálamanna á hverju ári. Litlar líkur á eru að sátt náist um veiðigjöld fyrr en að þau verða ákvörðuð á markaðslegum forsendum.
    Þorskkvótinn hefur aldrei mælst stærri en á þessu ári og líklegt er að lagður verði til góður viðbótarkvóti á næstu fiskveiðiárum.
    Það kom skýrt fram á fundum nefndarinnar að Fiskistofa og Hafrannsóknastofnun þarfnast meiri fjármuna vegna aukinna verkefna, ekki síst vegna uppgangs í fiskeldi og breytingum á gengd fiskistofna. Við því þarf að bregðast. Fram kom hjá gestum nefndarinnar að kostnaðargreining verkefna stofnananna hafi legið fyrir áður en fjármálaáætlun var lögð fram. Lítið tillit virðist hafa verið tekið til þeirra gagna í fjármálaráðuneytinu þar sem viðbótarfjármagn til málaflokksins dugir ekki til að sinna þeim verkefnum sem sett eru fram í fjármálaáætluninni.

Fiskeldi, 13. málefnasvið.
    Fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein sem huga þarf vel að og gæta fyllstu varúðarsjónarmiða. Ekki ríkir full sátt um öll þau umsvif sjókvíaeldis í íslenskum fjörðum sem áform eru um og takast ólík sjónarmið á. Á meðan talsmenn fiskeldis benda á það sem mikilvæga atvinnuuppbyggingu benda talsmenn verndunar á það óafturkræfa tjón sem það getur valdið á náttúru og lífríki, ef ekki er farið gætilega. Um leið og tekið er undir þau sjónarmið að þessi nýja grein geti skotið traustum stoðum undir samfélag á viðkvæmum stöðum, t.d. á Vestfjörðum og Austurlandi, þarf að gæta ítrustu varúðarsjónarmiða. Móta þarf skýra lagaumgjörð, gegnsæja verkferla og tryggja gott eftirlit þar sem fullt tillit er tekið til sjónarmiða þeirra sveitarfélaga sem standa næst starfseminni. Eins og fram kom að framan hafa þær stofnanir sem eiga að sinna undirbúningi og eftirliti viðrað við nefndina áhyggjur af of litlu fjármagni til þess. Þessu ákalli þarf þingið og ríkisstjórnin að svara og þess þarf að finnast staður í fjárveitingum.
    Þá er vakin sérstök athygli á nauðsyn þess að móta skýra sýn og stefnu um hvernig eigi að haga gjaldtöku af þessari sívaxandi atvinnugrein. Tryggja verður að samfélagið og sveitarfélög njóti góðs af uppgangi greinarinnar sem getur orðið gríðarlegur í framtíðinni. Fjármagnseigendur mega ekki fá allan ávinninginn af nýtingu íslenskra fjarða í eigin vasa. Stefnumörkun við meðferð og gjaldtöku af auðlindum almennt er í skötulíki hér á landi og er þessi grein engin undantekning.

Nýsköpun og tækniþróun, 7. málefnasvið.
    Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir stórkostlegum breytingum. Ný tæknibylting, tölvuvæðing og gervigreind mun hafa mikil áhrif á líf allra landsmanna. Hún mun ekki einungis leysa vöðvaafl af hólmi, eins og í iðnbyltingu 19. aldar, heldur líka hugarafl að einhverju leyti. Þetta mun hafa í för með sér gjörbreyttan vinnumarkað. Ný störf verða til en önnur tapast. Líklegt er að greinar sem mikilvægastar verða lúti ekki síst að nýsköpun og krefjist skapandi hugsunar.
    Þess vegna er mikið í húfi og vonbrigði að sjá að ekki sé meira gert til að efla rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Það er bagalegt að fjárframlög til þessa mikilvæga málaflokks minnki talsvert á tímabilinu.
    Meðal mikilvægra aðgerða sem Nýsköpunarmiðstöð setur í forgang er efling byggingarrannsókna. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þeirra. Bæði eru húsnæðiskaup stærsta fjárfesting flestra Íslendinga á ævinni, auk þess sem fyrir liggur að ástand húsnæðismarkaðarins kallar á byggingu þúsunda nýrra íbúða. Þær þurfa að rísa hratt og mikilvægt er að huga að gæðum. Það er ekki eingöngu spurning um lýðheilsu heldur eru hér gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Fram kom hjá fulltrúum Nýsköpunarmiðstöðvar að annaðhvort verði þessar rannsóknir í lágmarki, ef litið er til núverandi fjármálaáætlunar, eða skera þarf niður annars staðar í starfsemi stofnunarinnar. Svipaða sögu höfðu fulltrúar frá öðrum rannsóknarsjóðum að segja. Lítið svigrúm er til að efla starfsemina.
    Sé horft breiðar á málefni nýsköpunar en á þá málaflokka sem heyra beint undir atvinnuveganefnd er útlitið ekki bjart. Í þessu sambandi verður að nefna sérstaklega stöðu opinberu háskólana. Ekki stendur til að efna loforð um stóraukin framlög til þeirra svo að hægt sé að ná markmiðum Vísinda- og tækniráðs um að framlög verði samanburðarhæf við önnur OECD-ríki.
    Það er mikilvægt fyrir þróun íslenskrar tungu að hún haldi í við tækniþróun og er brýnt að tryggja fjármagn til þessa verkefni.
    Ísland er í færum til þess að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum vegna mikillar framleiðslu á rafmagni. Græn atvinnustefna getur skilað margföldum ávinningi. Við þurfum að styðja við áframhaldandi rannsóknir á þróun raforkuvinnslu og tryggja áætlanir um orkuskipti í samgöngum.
    Fyrirheit um lækkun tryggingagjalds eru of óljós, ekki síst í ljósi þess að þau leggjast einna harðast á nýsköpuna og þekkingarfyrirtæki. Ríkisstjórnin áformar að lækka efra þrep virðisaukaskattsins sem er óskynsamlegt á þenslutíma. Nær hefði verið að lækka tryggingagjaldið fyrst ríkisstjórn telur að svigrúm sé til að lækka skatta.

Ferðaþjónusta, 14. málefnasvið.
    Vinna er framundan við mikilvæga endurskoðun ferðamálastefnu. Mikilvægt er að hún verði unnin í breiðu samráði við alla hagsmunaaðila. Þar þurfa talsmenn greinarinnar sjálfrar að koma að borði, stéttarfélög sem og fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Lengi hefur legið fyrir mikilvægi þess að laða fleiri ferðamenn víðar um landið. Á meðan einstaka staðir glíma við allt of marga ferðamenn eru stór svæði vannýtt. Ókostirnir sem fylgja því að ekki hefur betur tekist til felast m.a. í því að nú þegar talað er um að takmarka þurfi fjölda ferðamanna vegna átroðnings gætu önnur landsvæði orðið fyrir miklum búsifjum.
    Í fjármálaáætluninni er kveðið á um að gisting og afþreying muni færast upp í efra þrep virðisaukaskattsins. Við það skapast aukið svigrúm til þess að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu, vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. Nýta þarf fjármunina til að byggja upp ferðamannastaði um allt land í sátt við náttúru, heimamenn, sveitarfélög og aðila í ferðaþjónustu. Það er lykill að farsælli uppbyggingu. Slík uppbygging þarf að vera á grundvelli gæða, varanleika, samfellu og í sátt við náttúruna.
    Gagnrýnt er samráðsleysi ríkisstjórnarinnar við þessa ákvarðanatöku, auk þess sem aðlögunartími greinarinnar er mjög skammur. Þá hefði þurft að liggja skýrar fyrir hvernig fyrirhugað er að áætlaðar tekjur nýtist til að byggja upp innviði og hver aðkoma sveitarfélaga að henni verður. Ljóst er að mæta þarf sérstaklega áhrifum sem ferðaþjónustuaðilar á viðkvæmum uppbyggingarsvæðum, sérstaklega á landsbyggðinni, munu verða fyrir vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Þess vegna er mikilvægt að hraða stefnumörkun ogrannsóknum og nauðsynlegt að verja fjármunum til að mæta þessu.
    Styrkja þarf tekjugrunn fjármálaáætlunarinnar sérstaklega til að hægt sé að sinna nauðsynlegu viðhaldi vega og hefja nýjar vegaframkvæmdir. Samgöngubætur munu að sjálfsögðu ekki aðeins gagnast ferðaþjónustunni heldur íbúum um allt land sem og öðrum atvinnugreinum. Horfa þarf sérstaklega til þess að auðvelda erlendum ferðamönnum að koma fljúgandi til annarra staða en Keflavíkur. Efla þarf millilandaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum.
    Tryggja þarf að sveitarfélögin fái meira í sinn hlut af þeim tekjum sem hið opinbera fær vegna fjölgunar ferðamanna. Ljóst er að þau verða fyrir talsverðum kostnaði vegna uppgangs greinarinnar sem þau ráða ekki öll við. Slíkt mun skila betri og eftirsóknarverðari kostum fyrir ferðamenn og bæta stöðu sveitarfélaganna, okkur öllum til hagsbóta. Ríkið hefur notið góðs af uppganginum undanfarin ár á meðan sveitarfélögin hafa að sumu leyti setið eftir. Vandinn á húsnæðismarkaðnum helst að nokkru leyti í hendur við fjölgun ferðamanna. Mikil útleiga íbúða til ferðamanna hefur ýkt hann. Trúverðug áætlun í húsnæðismálum mundi því eflaust tryggja áframhaldandi sátt um þá viðkvæmu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Tekið er undir óskir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að gistináttagjald renni til sveitarfélaga þar sem hluti færi í sameiginlegan sjóð sem dreifðist á sveitarfélögin, óháð því hvar gjaldið ætti rætur sínar. Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um kosti bílastæðagjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu á ferðamannastöðum. Brýnt er að greiða fyrir lagasetningu sem liðkar fyrir slíkri gjaldtöku. Ferðaþjónustan er mikilvæg en viðkvæm grein. Því reynir á fumlaus viðbrögð nýrrar ríkisstjórnar, tíminn er að renna út.

Landbúnaður, 12. málefnasvið.
    Í landbúnaði er brýnt að snúa frá þeirri stefnu sem beinir bændum inn í miðstýrt framleiðslukerfi takmarkaðra framleiðsluþátta með kvótum. Þess í stað þarf að gera bændum kleift að sækja fram og gera þeim fært að einbeita sér að þeim búskap sem hæfni þeirra og kostir jarðnæðis á hverjum stað skapar þeim best kjör. Aðeins með þeim hætti er líklegt að sú nýsköpun sem er undanfari framfara verði að veruleika og að nýliðun verði nægjanleg í greininni.
    Nýir búvörusamningar þurfa að taka fullt tillit til þessara þátta og tryggja að hefðbundin lögmál samkeppni tryggi neytendum gæðavöru á góðu verði.
    Í íslenskri matvælaframleiðslu liggja mikil sóknarfæri, ekki síst vegna tilkomu mikils fjölda ferðamanna á liðnum árum. Leita þarf leiða til að þróa enn frekar hið íslenska eldhús og standa vel að vöruþróun og markaðssetningu. Slík vinna krefst fjármagns
    Mikilvægt er að hugað verði í ríkari mæli að sjónarmiðum neytenda við mótun nýrrar matvælastefnu og við gerð nýrra búvörusamninga.
    Vert er að benda á mikilvægi þess að komið verð til móts við athugasemdir Matvælastofnunar um að nýjum verkefnum verði að fylgja fjármunir. Ljóst er að ef gæta á betur að hagsmunum neytenda verður að styrkja stofnunina.
    Horfa þarf í auknum mæli til þess að efla skógrækt. Hún er mikilvæg í baráttunni gegn hlýnun jarðar og til þess þarf að styrkja byggð um allt land. Á fundum nefndarinnar kom fram að með 200 millj. kr. viðbótarframlagi mætti tvöfalda skógrækt á Íslandi.
    Tekið er undir með Bændasamtökunum um að ríkið þurfi að móta sýn og reglur vegna bújarða sinna.

Orkumál, 15. málefnasvið.
    Trygg raforka, þriggja fasa rafmagn og góð fjarskipti um allt land eru nauðsynleg til þess að skapa aðlaðandi búsetuskilyrði. Hraða þarf þessari nauðsynlegu uppbyggingu og til þess þarf aukið fjármagn.
    Það verður að vera hafið yfir allan vafa að varanlegur eignar- og yfirráðaréttur þjóðarinnar á orkuauðlindinni sé tryggður og að hún njóti sanngjarns arð af henni með auðlindarentuskatti. Móta þarf skýrari auðlindastefnu um nýtingu allra auðlinda þjóðarinnar þ.m.t. orkuauðlindarinnar.
    Auðlindaarður þjóðarinnar af nýtingu sameiginlegra auðlinda þarf að vera sýnilegur og honum ráðstafað með skynsamlegum hætti.
    Samfylkingin styður háleit markmið sem er að finna í stefnuyfirlýsingu sex ráðherra ríkisstjórnarinnar sem kynnt var 5. maí sl. Minnt er á að aðgerðirnar sem fara þarf í eru ekki ókeypis. Þeim þurfa að fylgja fjármunir. Skoða þarf hvort og að hvað miklu leyti skilyrða á tekjur af grænum sköttum til að fjármagna aðgerðir og hvata til að ná settum markmiðum.
    Fara þarf mun ítarlegar yfir fjármálaáætlunina og gera nauðsynlegar breytingar ef Ísland ætlar að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Fyrir þinginu liggur tillaga um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) og eru þar mörg áhugaverð markmið og leiðir. En hún er því marki brennd að ekki verður séð að fjármagn sé að finna í ríkisfjármálaáætlun til að styðja nægilega vel við markmiðin. Við það verður að gera athugasemdir.

Markaðseftirlit og neytendamál, 16. málefnasvið.
    Eins og í mörgum öðrum málaflokkum eru góð og gild markmið sett á blað en litlir nýir fjármunir eru eyrnamerktir aðgerðum sem fara á í samhliða þeim.
    Mikilvægt er að efla samkeppni hér á landi og tryggja að styrking krónunnar skili sér í vasa neytenda. Það eru viss vonbrigði að ný ríkisstjórn sýni ekki meiri metnað í málaflokknum. Varla er vikið orði að mikilvægi Samkeppniseftirlitsins sem þó er ótvírætt vegna smæðar íslensks markaðar. Liggja þarf fyrir skýr stefna um að Samkeppniseftirlitinu verði gert kleift að þróast í takt við nýja tíma og það geti unnið hratt og örugglega úr þeim fjölda mála sem því berst.
    Ein af boðuðum aðgerðum er endurskoðun á skipan neytendamála. Vanda þarf til þeirrar vinnu og mikilvægt að endurskoðunin fari fram í samstarfi við hagsmunaaðila og að þinginu verði haldið upplýstu um gang vinnunnar.

Alþingi, 8. maí 2017.

Logi Einarsson.