Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 844  —  401. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um lánshæfismatsfyrirtæki.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð (EB) nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki verði færð í íslensk lög. Frumvarpið snýst um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja; eftirlit með þeim, upplýsingagjöf og viðurlög. Minni hlutinn er sammála meginmarkmiðum frumvarpsins sem, eins og önnur þau frumvörp sem tilheyra hinu viðurhlutamikla eftirlitskerfi með evrópskum fjármálamarkaði, snýst um að styrkja lagarammann um evrópskan fjármálamarkað og efla eftirlit með starfseminni.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að í þessu frumvarpi væri eins og í öðrum þeim sem lytu að eftirlitskerfinu byggt á tveggja stoða lausn Evrópusambandsins (ESB) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) færi með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar innan ESB auk eftirlitsstofnana innan hvers þjóðríkis. Innan EFTA væri það hins vegar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem færi með þetta hlutverk ásamt eftirlitsstofnunum hvers ríkis.
    Aftur á móti liggur fyrir að ESMA mun að miklu leyti annast tæknilegan undirbúning allra ákvarðana þó að ESA verði formlegur ákvörðunaraðili. Fram hefur komið að frá því að EFTA-ríkin hófu innleiðingu á eftirlitskerfinu hefur ESA ráðið einn starfsmann vegna þessa. Það bendir til þess að ESA verði að einhverju leyti háð evrópsku eftirlitsstofnununum um sérþekkingu.
    Minni hlutinn telur að það framsal valdheimilda sem á sér stað með öllum þeim gerðum sem nú er verið að innleiða í íslensk lög og lúta að evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði sé verulegt og vafi leiki á að svo umfangsmikið framsal valdheimilda standist stjórnarskrá. Enn fremur telur minni hlutinn að mikilvægt sé að kanna hversu vel í stakk búin EFTA-ríkin eru til að tryggja sjálfstæða ákvarðanatöku innan ESA.

Alþingi, 22. maí 2017.

Katrín Jakobsdóttir,
frsm.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.