Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 895  —  293. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Hildi Knútsdóttur um olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu.


     1.      Hver er stefna ráðherra varðandi olíuleit á Drekasvæðinu og mögulega olíuvinnslu þar?
    Ráðherra er andvíg olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

     2.      Telur ráðherra að olíuvinnsla í íslenskri lögsögu geti samræmst þeirri stefnu að Íslendingar verði forystuþjóð í loftslagsmálum og hvernig félli slík starfsemi að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lýst yfir að verði gerð?
    Ísland hefur lengi talið sig vera forystuþjóð í loftslagsmálum og einkum byggt þar á þeirri staðreynd að nær öll orka til rafmagnsframleiðslu og hitunar kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sem skapar Íslandi sérstöðu. Nú eru blikur á lofti, þar sem spár benda til mikillar aukningar losunar og að Ísland standi ekki að óbreyttu við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni til 2020 eða Parísarsamningnum til 2030. Ráðherra telur engu að síður að Ísland geti áfram talið sig í fararbroddi ef metnaður er aukinn og meiri kraftur settur m.a. í orkuskipti í samgöngum og sjávarútvegi, loftslagsvæna nýsköpun og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
    Olíuvinnsla í íslenskri lögsögu mundi hins vegar gjörbreyta þessari mynd. Sérstaða Íslands varðandi mikla nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hyrfi. Ísland gæti auðvitað eflt aðgerðir gegn loftslagsbreytingum ef olíuvinnsla hæfist og nýtt til þess m.a. tekjur af vinnslu olíu. Mörg olíuvinnsluríki verja miklum fjárhæðum til loftslagsmála, svo sem Noregur. Það er þó ljóst að öll ásýnd Íslands í loftslagsmálum og forsendur í aðgerðaáætlun breyttist verulega með vinnslu olíu. Það væri afar erfitt að halda því fram að Íslendingar væru forystuþjóð í loftslagsmálum í því tilfelli. Þess ber líka að geta að olíuvinnsla á Drekasvæðinu fæli alltaf í sér hættu fyrir lífríki hafsins og sjávarútveg, eins þótt afar strangar kröfur verði gerðar til umhverfis- og öryggismála fyrir slíka vinnslu.

     3.      Hafa áhrif stórfellds olíuleka frá borholu á Drekasvæðinu á lífríki hafs og stranda verið metin?
    Áhrif hugsanlegs olíuleka á Drekasvæðinu hafa ekki verið metin en samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eru rannsóknarboranir og vinnsla kolvetna tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar. Í umhverfismati áætlana fyrir Drekasvæði frá 2007 er tafla yfir þá þætti sem taldir eru geta haft áhrif á umhverfið og í tilkynningu um matsskyldu eða mati á umhverfisáhrifum þarf að gera grein fyrir hugsanlegum áhrifum og mótvægisaðgerðum vegna þeirra þátta.
    Skylt er að sækja um starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun vegna rannsókna- og vinnsluborana, samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og taka þarf tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum við gerð leyfisins. Einnig þarf starfsleyfi að vera í samræmi við lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, varðandi bráðamengun.

     4.      Hafa áhrif stórfellds olíuleka á Drekasvæðinu á afkomu og stöðu íslensks sjávarútvegs verið metin?
    Ráðuneytið veit ekki til þess að slíkt hafi verið metið, en það er ekki hlutverk ráðuneytisins eða stofnana þess að gera slíkt mat. Það er hins vegar ljóst að stórfelldur olíuleki getur haft slæm áhrif á lífríki hafsins og ímynd hreinleika og þar með neikvæð áhrif á íslenskan sjávarútveg.

     5.      Hefur verið lagt mat á kostnað við að hefta olíuleka frá borholu á Drekasvæðinu og hreinsa olíu úr sjó og hver er þá kostnaðurinn?
    Unnið er eftir þeirri meginreglu umhverfisréttar að mengunarvaldur borgi. Framkvæmdaraðili ber kostnaðinn við að uppfylla þau skilyrði sem kunna að vera sett varðandi boranir og vinnslu, þar á meðal varðandi viðbrögð og önnur atriði til að hindra mengun, útbreiðslu og hreinsun, komi til þess. Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki metið kostnað við aðgerðir til að hefta hugsanlegan olíuleka á Drekasvæðinu eða hreinsunaraðgerðir.

     6.      Hafa þeir aðilar sem nú hafa sérleyfi til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu sýnt fram á að þeir hafi bolmagn til að standa straum af kostnaði við hreinsun eftir olíumengunarslys af þeirra völdum og hver væri staða þeirra mála við gjaldþrot umræddra fyrirtækja?
    Við undirbúning veitinga sérleyfa til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu var m.a. litið til tæknilegra og fjárhagslegra burða umsækjenda og eftir því sem við átti var leitað eftir móðurfélagsábyrgðum. Þá má rekja að með vísan til 2. mgr. 28. gr. kolvetnislaga, nr. 13/2001, er í 19. kafla leyfanna ákvæði um að leyfishafar sameiginlega, sem og hver fyrir sig, bera ábyrgð á tjóni (in solidum). Skv. 20. kafla rannsóknar- og vinnsluleyfa, sem útgefin hafa verið á Drekasvæðinu, er kveðið á um að leyfishafi skuli kaupa tryggingu sem bæti tjón sem leyfishafi kunni að valda, þ.m.t. tjón vegna mengunar og skaðabóta til þriðju aðila. Frekari tilhögun þessara ábyrgða verður nánar ákvörðuð þegar kemur að framkvæmdum á svæðinu.
    Nú er eitt sérleitarleyfi í gildi á Drekasvæðinu og að því standa kínverska ríkisolíufélagið (CNOOC) (60%), Petoro fyrir hönd norska ríkisins (25%) og íslenska félagið Eykon Energy (15%). Ólíklegt er að allir þessir aðilar yrðu gjaldþrota en í slíku tilviki er tryggingarákvæði leyfanna m.a. ætlað að grípa inn í.

     7.      Hafa íslensk stjórnvöld gert áætlanir varðandi mögulega hættu á stórfelldri umhverfismengun frá starfsemi þeirra aðila sem hafa hlotið sérleyfi til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu og ef svo er, hvað fela þær í sér með tilliti til umfangs og kostnaðar?
    Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert slíkar áætlanir. Komi til þess að sótt verði um leyfi til rannsóknarborana eða vinnslu telur Umhverfisstofnun að framkvæmdaraðili þurfi að leggja fram áhættumat varðandi mengunarhættu og áætlun um hvernig hann ætlar að bregðast við slíkri hættu.

     8.      Telur ráðherra að íslenska ríkinu sé skylt að framlengja sérleyfi nr. 2014/01 þegar það rennur út árið 2026?
    Ráðherra er andvíg framlengingu sérleyfis, en leyfisveitingar vegna slíkra leyfa falla ekki undir verksvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.