Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 962  —  525. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um starfsmenn og nemendur Iðnskólans í Reykjavík og Iðnskólans í Hafnarfirði.


     1.      Var öllum starfsmönnum Iðnskólans í Reykjavík boðið starf við Tækniskólann þegar Iðnskólinn var einkavæddur árið 2008 og Rekstrarfélag Tækniskólans tók við rekstri hans?
    Öllum starfsmönnum Iðnskólans í Reykjavík var boðið starf þegar Menntafélagið ehf. tók við rekstri Iðnskólans í Reykjavík árið 2008.

     2.      Hófu allir starfsmenn Iðnskólans í Reykjavík störf hjá Tækniskólanum eftir sameiningu? Ef svo var ekki, óskast upplýsingar um hversu margir nýttu sér biðlaunarétt eða fóru á eftirlaun.
    Öllum starfsmönnum var boðið starf. 14 kennarar og fjórir aðrir starfsmenn fóru á biðlaun og tveir kennarar og tveir aðrir starfsmenn hættu vegna aldurs.

     3.      Héldu allir nemendur Iðnskólans í Reykjavík áfram námi við Tækniskólann eftir sameininguna? Ef svo var ekki, hversu mikið var brottfallið?
    Ekki er vitað til þess að nemendur hafi hætt vegna sameiningar Fjöltækniskólans og Iðnskólans í Reykjavík. Umsóknum fjölgaði eftir sameiningu við innritun 2008 og 2009 á meðan þeim fækkaði í öðrum starfsmenntaskólum á höfuðborgarsvæðinu.

     4.      Var öllum starfsmönnum Iðnskólans í Hafnarfirði boðið starf við Tækniskólann þegar Iðnskólinn var einkavæddur sumarið 2015 og Rekstrarfélag Tækniskólans tók við rekstri hans?
    Öllum starfsmönnum Iðnskólans í Hafnarfirði var boðið starf þegar Tækniskólinn ehf. tók við rekstri Iðnskólans í Hafnarfirði árið 2008.

     5.      Hófu allir starfsmenn Iðnskólans í Hafnarfirði störf hjá Tækniskólanum eftir sameiningu? Ef svo var ekki, óskast upplýsingar um hversu margir nýttu sér biðlaunarétt eða fóru á eftirlaun.
    Öllum starfsmönnum var boðið starf. Tveir kennarar nýttu biðlaunaréttinn, einn fór á eftirlaun og einn réð sig til kennslu annars staðar. Aðrir voru ráðnir til Tækniskólans.

     6.      Hve margir þeirra starfsmanna sem voru við Iðnskólann í Hafnarfirði skólaárið 2014– 2015 eru nú við störf hjá Tækniskólanum?
    Sex starfsmenn, þrír kennarar og þrír aðrir starfsmenn sem réðust til Tækniskólans frá Iðnskólanum í Hafnarfirði, hafa látið af störfum síðan skólarnir voru sameinaðir.

     7.      Héldu allir nemendur Iðnskólans í Hafnarfirði áfram námi við Tækniskólann eftir sameininguna? Ef svo var ekki, hversu mikið var brottfallið?
    Ekki er vitað til þess að nemendur hafi hætt vegna sameiningar Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði. Umsóknum fjölgaði eftir sameiningu milli áranna 2015 og 2016 á meðan þeim fækkaði í öðrum starfsmenntaskólum á höfuðborgarsvæðinu.