Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1131  —  336. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um ráðstafanir samkvæmt þingsályktun nr. 49/145.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er hafin vinna að gerð áhættumats fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, sbr. þingsályktun nr. 49/145? Ef svo er ekki, hver eru áform ráðherra varðandi efndir við fyrrgreinda þingsályktun?

    Í þingsályktun nr. 49/145, sem samþykkt var á Alþingi 2. júní 2016, var þáverandi innanríkisráðherra falið ,,að koma því til leiðar að ríkislögreglustjóri geri áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, eftir atvikum í samstarfi við Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og aðra aðila á vettvangi ferðamála, öryggis- og björgunarmála og náttúruverndar. Í framhaldi af því verði kannað og metið hvort ástæða þyki til að setja sérstakar reglur um ferðir á þeim svæðum sem falla í efsta áhættuflokkinn,“ eins og segir í þingsályktuninni.
    Í framhaldi af samþykkt þingsályktunarinnar óskaði innanríkisráðuneytið eftir því við ríkislögreglustjóra, með bréfi dags. 1. júlí 2016, að hann gerði áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er þegar hafin frumgreining á þessu viðfangsefni. Gerð ítarlegs heildaráhættumats geti hins vegar tekið tvö til fjögur ár, enda kalli það m.a. á aðkomu almannavarnanefnda og margra stofnana.
    Í svari ríkislögreglustjóra segir einnig að mikilvægt sé að huga vel að öryggi ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra. Vinna þurfi hættumat fyrir fjölsóttustu ferðamannastaði landsins en almannavarnanefndir sveitarfélaga eigi lögum samkvæmt að vinna hættumat, hver í sínu umdæmi, og því sé mikilvægt að þær séu hafðar með í ráðum. Hlutverk ríkislögreglustjóra sé að hafa eftirlit með gerð hættumats í samráði við almannavarnanefndir, þar meðtöldu hættumati sem unnið sé fyrir fjölsótta ferðamannastaði. Ríkislögreglustjóri muni beina því til almannavarnanefnda að gera hættumat með tilliti til ferðamennsku, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008. Mat á hættum í einstökum umdæmum þurfi að liggja fyrir áður en embætti ríkislögreglustjóra geti flokkað ferðamannastaði eða stærri landsvæði í áhættuflokka og/eða sett sérstakar reglur um ferðir á viðkomandi svæðum.
    Þá telur ríkislögreglustjóri réttast að haldið verði áfram þeirri vinnu sem unnin hefur verið á vegum Stjórnstöðvar ferðamála við gerð úttekta á ferðamannastöðum og almannavarnanefndir um allt land verði hvattar til að gera úttektir á skipulagi sveitarfélaga með hliðsjón af fjölsóttum ferðamannastöðum og aðkomu að þeim en hvort tveggja muni nýtast við gerð heildaráhættumats.