Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1152  —  556. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.


     1.      Hversu margar íbúðir eða herbergi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur Útlendingastofnun tekið á leigu á hverju ári frá árinu 2010?
    Frá árinu 2004 hafa sveitarfélög hafa sinnt þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en fyrir þann tíma var þjónustan á hendi Rauða kross Íslands. Þrjú sveitarfélög sinna nú þessari þjónustu á grundvelli samnings við Útlendingastofnun. Í september 2014 hóf Útlendingastofnun til bráðabirgða að útvega húsnæði og annast framfærslu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd. Stofnunin tók það verkefni að sér vegna mikils álags á þau sveitarfélög sem annast höfðu þjónustuna en þá höfðu umsamin rými á vegum sveitarfélaga verið fyllt vegna mikillar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Herbergi á gistiheimilum og hótelum voru keypt eftir þörfum hverju sinni. Frá byrjun árs 2015 hefur verið leitað útboða í húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

A.     Húsnæði á grundvelli útboða:
          Gistiheimili, Bæjarhrauni, Hafnarfirði (útboð 2015).
          Gistiheimili, Grensási og Skeggjagötu, Reykjavík (útboð 2015).
          Gistiheimili, Arnarholti, Kjalarnesi (útboð 2016).
    Skilmálar í öllum útboðum eru að húsnæðið fullnægi kröfum til íbúðar, gistiheimila eða samsvarandi starfsemi, 7–10 m2 séu á einstakling, leiga sé til 12 mánaða með ákvæði um framlengingu og húsnæðið sé á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrannasveitarfélögum.

B.     Leiga á herbergjum á hótelum og gistiheimilum án útboðs:
    Frá byrjun árs 2017 hefur verið haldin skrá yfir fjölda herbergja sem tekin hafa verið á leigu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd en ekki er til yfirlit um fjölda herbergja fyrir þann tíma. Árlegur heildarkostnaður hefur verið 205.590 kr. vegna ársins 2014, 28.090.095 kr. vegna ársins 2015 og 176.098.930 kr. vegna ársins 2016. Leiga á stöku herbergi er mjög mismunandi eftir stærð, staðsetningu og veittri þjónustu (8.000–15.000 kr. hver nótt).

C.     Leiga á húsnæði vegna mikillar fjölgunar umsækjenda á skömmum tíma í ágúst 2016 (þá fengu um 780 einstaklingar þjónustu Útlendingastofnunar):
     i )      Gistiskýli Reykjavík (Krókhálsi) – nú lokað.
     ii )      Víðines hjúkrunarheimili – lokað 30. júní 2017.
     iii )      Bifröst, íbúðir – nú lokað.
     iv )      Herkastalinn Reykjavík.
     v )      Íbúðahótel Hafnarfirði.
     vi )      Hótel- og gistiherbergi í Reykjavík, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Kópavogi.
    Leigusamningar voru gerðir vegna húsnæðis skv. i–v-lið. Leiguverð var mismunandi. Leiga á stökum herbergjum hjá hótelum og gistiheimilum var samkvæmt gjaldskrá rekstraraðila.

     2.      Hvort hafa leigusamningar um framangreint íbúðarhúsnæði verið til langs eða skamms tíma og hafa útboð farið fram á þessum búsetuúrræðum?
    Allir samningar eru skammtímasamningar með uppsagnarákvæðum sem nema 30–90 dögum. Útboð hafa farið fram þrívegis og húsnæði verið leigt á grundvelli tilboða sem borist hafa. Utan útboða hefur verið leigt húsnæði til að bregðast við skyndilegri þörf, sbr. i–v-lið C-hluta svars við 1. lið.

     3.      Hver hefur verið fermetrafjöldi á hvern einstakling, hvert hefur verið leiguverð á fermetra og hvernig er dreifing leiguhúsnæðisins eftir póstnúmerum?
    Samkvæmt kröfum í útboðum vegna húsnæðis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd er miðað við 7–10 m2 á einstakling. Ef um er að ræða gistiskála eða rými sem fleiri einstaklingar deila er lágmarksviðmið 4 m2 á einstakling.
    Eins og segir hér að framan er leiguverð á fermetra mjög mismunandi og ekki samanburðarhæft milli úrræða þar sem húsnæði er ýmist leigt tómt, með húsgögnum, með húsgögnum að hluta, með eða án nettenginga, þrifa, aksturs o.s.frv.
    Húsnæði dreifist um Reykjavík (101–116, 200–203, 220–221), Reykjanes (230–260) og Borgarnes (311). Einstaka hótelherbergi umhverfis landið falla hér utan.