Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 443  —  332. mál.




Fyrirspurn


til forseta Alþingis um notkun akstursbóka í bifreiðum Alþingis og greiðslur dagpeninga til forseta Alþingis.

Frá Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Er akstursbók í bifreiðum Alþingis og er hver bók fyllt nákvæmlega út þannig að gerð sé grein fyrir öllum aksturserindum?
     2.      Er akstursbók í viðhafnarbifreið Alþingis, er hún fyllt nákvæmlega út og er gerð skilmerkileg grein fyrir öllum aksturserindum?
     3.      Fylgist innra eftirlit Alþingis með því hvort forsetar Alþingis nota bifreiðar þingsins sem þingmenn kjördæma eða eingöngu vegna erinda sem þeim eru falin sem forsetar þingsins? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir notkun bifreiðanna í þessu tilliti frá árinu 2006.
     4.      Eru bifreiðar Alþingis notaðar til að aka forseta Alþingis út á flugvöll og sækja hann þegar hann fer til útlanda á vegum Alþingis? Ef svo er, endurgreiðir forseti Alþingis þann hluta dagpeninga sem ætlaður er til að greiða fyrir þennan kostnað? Óskað er eftir árlegu yfirliti frá árinu 2006 þar sem gerð er grein fyrir endurgreiðslunum.
     5.      Hefur forsetum Alþingis verið reiknað hlunnindamat vegna notkunar bifreiða Alþingis frá árinu 2006? Hefur einhvern tíma komið upp sú staða að slíkt hlunnindamat þurfi að reikna?
     6.      Hafa styrkir og hvers konar hlunnindi varðandi gistingu og fæði, sem forseti Alþingis nýtur meðan á dvöl hans erlendis stendur, komið til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum eftir því sem við á? Óskað er eftir árlegu yfirliti, sem sýnir fjölda ferða forseta Alþingis frá árinu 2006, árlegar heildardagpeningagreiðslur og árlegar endurgreiðslur dagpeninga vegna fyrrgreinds, og yfirliti yfir annan ferðakostnað sem greiddur hefur verið á sama tíma.
     7.      Ef fyrrgreindur hluti dagpeninga hefur ekki verið endurgreiddur, hvers vegna hefur það ekki verið gert?


Skriflegt svar óskast.