Ferill 294. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 525  —  294. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ráðningar ráðherrabílstjóra.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu ráðherrabílstjóra á tímabilinu 2009 til dagsins í dag og hversu margir umsækjendur af hvoru kyni voru um hverja stöðu?
     2.      Hvernig var hæfi umsækjenda metið og hver tók ákvörðun um ráðningu? Var tekið tillit til 26. gr. jafnréttislaga við ráðningar og til reglunnar um að ef starfsumsækjendur af gagnstæðum kynjum teljast jafnhæfir og það hallar á annað kynið á tilteknu starfssviði, þá beri að veita umsækjanda af því kyni starfið?


    Núverandi bílstjóri forsætisráðherra fluttist til forsætisráðuneytisins frá þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneyti árið 2009 með þáverandi forsætisráðherra.
    Þess má geta í tengslum við umfjöllun um stöðu mála varðandi umsýslu og rekstur ráðherrabifreiða og ráðningarfestu ráðherrabílstjóra að ríkisstjórnin hefur nýverið samþykkt breytingar á skipan þeirra mála með þeim hætti að umsjón með rekstri, viðhaldi og innkaupum ráðherrabifreiða verði framvegis á einum stað innan Stjórnarráðsins og munu þessi mál flytjast frá einstökum ráðuneytum til miðlægrar þjónustueiningar innan Stjórnarráðsins. Samhliða þessu er stefnt að því að ráðningarfesta ráðherrabílstjóra flytjist í framtíðinni til sömu miðlægu þjónustueiningar, Rekstrarfélags Stjórnarráðsins, í stað þess að vera hjá einstökum ráðuneytum. Með því að sameina eignarhald og rekstur ráðherrabifreiða á einn stað er m.a. stefnt að lækkun rekstrarkostnaðar. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar fólst jafnframt að við endurnýjun ráðherrabifreiða verði framvegis gerðar ófrávíkjanlegar vistvænar innkaupakröfur sem miða að því að bifreiðarnar gangi fyrir vistvænni orku og uppfylli bestu mögulegu umhverfisskilyrði hverju sinni, að teknu tilliti til öryggiskrafna. Þannig muni Stjórnarráðið ganga á undan með góðu fordæmi. Öryggisstjóri forsætisráðuneytisins mun veita ráðherrabílstjórum stuðning í störfum þeirra þannig að þeir geti enn betur gegnt öryggis- og þjónustuhlutverki gagnvart ráðherrum, sbr. reglugerð nr. 1281/2014, um bifreiðamál ríkisins.