Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 590  —  253. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þórarni Inga Péturssyni um stefnu ríkisins um innkaup á matvælum.



    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er stefna íslenska ríkisins um innkaup á matvælum?

    Innkaupastefna ríkisins nær til allra vöruflokka og er ætlað að stuðla að virkri samkeppni á markaði og tryggja hagkvæmni í rekstri ríkisins. Stefnan skilgreinir helstu forsendur og sjónarmið sem leggja á til grundvallar við einstök innkaup. Hagkvæm innkaup eða bestu kaup eru hornsteinn stefnunnar.
    Jafnframt hefur verið í gildi stefna ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur. Markmiðið með þeirri stefnu er að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins. Þessi stefna eins og innkaupastefna ríkisins tekur einnig til matvæla og ekki er í gildi sérstök innkaupastefna um innkaup á matvælum.
    Þess ber einnig að geta að í gildi eru rammasamningar um matvæli sem Ríkiskaup hefur boðið út fyrir hönd ríkisaðila. Í þeim samningum er tekið tillit til þeirra áhersluatriða sem koma fram í innkaupastefnu ríkisins og stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur.
    Aukin áhersla er nú lögð á vistvæn skilyrði en áður. Í því fellst m.a. að horft er í auknum mæli til líftímakostnaðar (t.d. kolefnisspors vöru) og annarra vistvænna þátta við innkaup, til að mynda styttri dreifileiðir vöru.