Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 706  —  230. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um styrki til tölvuleikjagerðar.


     1.      Hvaða styrki veitir ráðherra, ráðuneytið eða undirstofnanir þess til tölvuleikjagerðar?
    Veittir eru styrkir til gerðar og þróunar tölvuleikja úr Tækniþróunarsjóði og einnig úr Rannsóknasjóði hvað varðar grunnþróun hugbúnaðar. Styrkir hafa verið veittir til tölvuleikjagerðar úr styrkáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, áætluninni Átak til atvinnusköpunar, fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Þá nutu íslenskir aðilar stuðnings í átaksverkefni norrænu ráðherranefndarinnar á sviði tölvuleikja á síðasta áratug.

     2.      Hefur ráðherra áform um að styrkja sérstaklega tölvuleikjagerð, með vísan til menntunar- og menningargildis tölvuleikja, sbr. aðra miðla á borð við kvikmyndir, leikhús og tónlist sem eru styrktir og hafa menntunar- og menningarlegt gildi?
    Þróun tölvuleikjagerðar hefur verið mjög mikil í stafrænu byltingunni. Ráðherra vill beita sér fyrir því að auka forritun í námi á Íslandi og hyggst skoða það að setja á laggirnar sérstakan sjóð til að efla tölvuleikjagerð á borð við aðra verkefnasjóði ráðuneytisins á sviði lista, líkt og sum Norðurlandanna hafa gert.