Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 814  —  381. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um framkvæmdir við Landspítalann.


     1.      Hefur bygging á nýju sjúkra- og sjúklingahóteli við Landspítalann farið fram úr tímaáætlun eða fjárhagsáætlun? Ef svo er, hversu mikið?
    Frumtímaáætlanir við hönnun og útboð á verklegri framkvæmd sjúkrahótelsins gerðu ráð fyrir fullnaðarskilum í júní 2017, sem svarar til 18 mánaða verktíma. Fljótlega varð ljóst að ekki næðist að ljúka framkvæmdinni innan hins þrönga tímaramma sem settur var, m.a. vegna öryggis- og áhættumats sem gert var vegna klæðningar hússins auk þess sem uppsteypu hússins seinkaði. Efnisöflun vegna festingakerfis hefur verið tímafrek svo og vegna steinklæðningar, sem er hluti af listskreytingu hússins. Miðað við núverandi áætlun verktaka má gera ráð fyrir að húsið verði fullbúið að utan og lóð frágengin í júlí, en innan húss má búast við að úttektum verði lokið í apríl 2018. Í kjölfarið verður gengið frá búnaði innan húss. Verktaki afhendir stjórnvöldum húsið þegar ljóst verður um efndir samkvæmt verksamningi milli verkkaupa og verktaka, en gera má ráð fyrir að það liggi fyrir í ágúst 2018 samkvæmt framansögðu.
    Verktaki hússins fær greitt samkvæmt verktilboði í samræmi við magntölur í tilboðsskrá samkvæmt framvindu. Í lok árs 2017 átti verktakinn enn eftir um 16% af framvindu verksamninga. Aukaverk og magnbreytingar stefna í að verða innan viðmiðunar- og óvissumarka heildarverks en verksamningar eru þrír: 1) bygging, 1.416 millj. kr. (bvt. 127,8); 2) gatnagerð, 417,3 millj. kr. (bvt. 127,8); 3) og tengigöng, 91,5 millj. kr. (bvt. 132,6).

     2.      Hefur nýbygging sem hýsa á jáeindaskanna við Landspítalann farið fram úr tímaáætlun eða fjárhagsáætlun? Ef svo er, hversu mikið?
    Íslensk erfðagreining ákvað í ágúst árið 2015 að færa íslensku þjóðinni að gjöf jáeindaskanna ásamt hringhraðli og þeim tækjum og búnaði sem heyra til rekstrar skannans.
    Íslensk erfðagreining lét reisa sérhannaða byggingu við Landspítalann við Hringbraut og var hún hluti af gjöfinni.
    Kostnaðaráætlun fyrir bygginguna var 266 millj. kr. auk kostnaðar við tengingu við núverandi húsnæði en sá kostnaður var metinn á 35 millj. kr., alls 301 millj. kr. Endanlegur kostnaður við húsið fyrir jáeindaskannann og við tengingar við byggingar Landspítala er 355 millj. kr. Landspítali greiddi hluta af kostnaði við húsið og tengingar þess við byggingar Landspítala eða 154 millj. kr.
    Húsið fyrir jáeindaskannann var fullklárað haustið 2017 en tímaáætlun gerði ráð fyrir verklokum vorið 2017. Tafir helguðust af uppgjöri við verktaka og frágangi húsnæðis í framhaldi af því, svo sem tengingum á stjórnkerfum og virkniprófunum.
    Jáeindaskanninn fór inn í sérútbúna húsið í ársbyrjun 2017. Farið var að nota CT-skannann (hluti af PET/CT-skanna) haustið 2017 og hefur hann verið í reglulegri notkun, og þá einkum sem varatæki og fyrir geislaplön.
    Núna standa yfir úttektir á framleiðslueiningunni og vonir standa til að tilskilin leyfi til rekstrar jáeindaskannans fáist á næstunni.