Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1017  —  504. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hversu mörg störf eru á vegum ráðuneytisins og stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins? Óskað er eftir sundurliðun eftir stofnunum og landshlutum.
    Ráðuneytið starfrækir þrjár starfsstöðvar þýðingamiðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Á Ísafirði eru þrír starfsmenn, á Akureyri eru fimm starfsmenn og á Seyðisfirði eru tveir starfsmenn. Auk þess eru tveir starfsmenn í fjarvinnu, búsettir erlendis. Samtals eru því 12 af 33 starfsmönnum þýðingamiðstöðvar starfandi utan höfuðborgarsvæðisins, eða rúmlega þriðjungur (36%).
    Einnig starfrækir ráðuneytið starfstöð skjalasafns á Sauðárkróki og eru þar þrír starfsmenn.

     2.      Telur ráðherra að unnt sé að láta vinna fleiri störf á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins?
    Ekki er um það deilt að ýmis störf á vegum ráðuneytisins, sérstaklega hvað varðar þýðingarstörf, er unnt að vinna utan höfuðborgarsvæðisins. Ákvörðun um fjölgun eða fækkun slíkra starfa ræðst hins vegar fyrst og fremst af verkefnastöðu til lengri tíma litið.

     3.      Hyggst ráðherra færa störf út á land á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess, sbr. markmið byggðaáætlunar og áform ríkisstjórnarinnar í samstarfssáttmála um að stefna skuli að því að auglýsa störf án staðsetningar?
    Á þessari stundu hefur ekki verið ákveðið með flutning starfa frá ráðuneytinu út á land. Ljóst má þó vera að ekki er ráðgert að færa hluta kjarnastarfsemi ráðuneytisins frá höfuðborgarsvæðinu enda óhjákvæmilegt að starfsemi ráðuneytisins sé í nágrenni við sendiráð, samtök atvinnulífs og annarra stofnana íslenskrar stjórnsýslu.