Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1031  —  569. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um heilbrigðisþjónustu við Grænland og Færeyjar.


     1.      Eru í gildi samningar um heilbrigðisþjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri við Grænland og Færeyjar? Ef svo er, hver er gildistími samninganna og um hvers konar heilbrigðisþjónustu er samið? Ef slíkir samningar eru ekki í gildi, er ætlunin að gera aftur sambærilega samninga?
    Í gildi eru samningar Landspítala við annars vegar The Faroese Hospital System (FHS) og hins vegar við Agency for Health and Prevention in Greenland (AHP) um sjúkrahúsþjónustu. Samningurinn við Færeyjar er frá 2014 og gildir í 12 mánuði, en framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn ef honum er ekki sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Hið sama gildir um samninginn við Grænland, hann er frá 2016 og framlengist sjálfkrafa um ár í senn ef honum er ekki sagt upp.
    Samningarnir eru hliðstæðir að flestu leyti. Þetta eru samstarfssamningar, en klíníska þjónustan miðast við að Landspítali taki við sjúklingum frá FHS og AHP, sem er ávísað af umsjónarlækni á viðkomandi stöðum og heyra undir samninginn. Um er að ræða rammasamning um valkvæða þjónustu og eru engar sérstakar takmarkanir á því hvaða þjónustu er hægt að fella þar undir. Landspítala er hins vegar frjálst að vísa beiðni frá ef hann hefur ekki svigrúm til að veita viðkomandi þjónustu. Hver beiðni er metin fyrir sig og afstaða til hennar er tekin af hálfu Landspítala út frá aðstæðum á spítalanum á hverjum tíma.
    Auk hefðbundinna þjónustukaupa fyrir tilstilli samningsins á Landspítalinn í reglubundnu samráði við samningsaðila Grænlands og Færeyja um aðra þætti er tengjast sjúkrahúsrekstri, svo sem mönnun, menntun heilbrigðisstarfsfólks, sjúkraflutninga og rannsóknir á sviði heilbrigðisþjónustu, svo að eitthvað sé nefnt.
    Engir samningar eru í gildi milli Sjúkrahússins á Akureyri og aðila í Færeyjum eða á Grænlandi. Þangað koma hins vegar ferðamenn eftir atvikum.

     2.      Hversu margir einstaklingar frá Grænlandi og Færeyjum hafa nýtt sér heilbrigðisþjónustu á grundvelli þessara samninga sl. þrjú ár?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda sjúklinga frá Færeyjum og Grænlandi sem fékk þjónustu á Landspítala á grundvelli samninganna sl. þrjú ár:

Ár Færeyjar Grænland
2015 33 9
2016 35 9
2017 36 8

     3.      Greiða sjúkratryggingar viðkomandi landa kostnaðinn að fullu við heilbrigðisþjónustuna sem nýtt er á grundvelli þessara samninga?
    Greiðslur fyrir veitta þjónustu á Landspítala eru samkvæmt DRG-verðskrá Landspítala bæði hvað varðar legudeildarsjúklinga og göngudeildarsjúklinga. Lendi sjúklingar utan kostnaðarmarka verðskrár greiða gagnaðilar 80% af raunkostnaði, nema um bráðasjúklinga sé að ræða, þá greiða gagnaðilar 100% af raunkostnaði dvalar.
    Greiðslur vegna sjúklinga á Sjúkrahúsi Akureyrar miðast einnig við DRG-verðskrá Landspítala.

     4.      Hvernig er sjúkraflutningum háttað með þá sjúklinga sem nýta sér heilbrigðisþjónustu á grundvelli þessara samninga?
    Sjúkraflutningar, bæði í lofti og á landi, eru ekki hluti af þessum samningum við Landspítala. Landspítala er kunnugt um að FHS og AHP hafi gert samninga við aðila í flug- og sjúkraflutningarekstri.
    Norlandair á Akureyri er með samninga við Grænland um sjúkraflug og hefur félagið lista yfir lækna sjúkrahússins sem hringja má í til fylgdar ef með þarf. Um þetta er ekki formlegur samningur.

     5.      Hafa einkarekin heilbrigðisfyrirtæki á Íslandi gert sambærilega samninga um heilbrigðisþjónustu við Grænland og Færeyjar?
    Ráðuneytið hefur ekki vitneskju um samninga einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja við Færeyjar eða Grænland.