Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1057  —  398. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um verktaka
Menntamálastofnunar við fyrirlögn samræmdra prófa.


     1.      Hvernig fór val Menntamálastofnunar á fyrirtækinu Assessment Systems fram?
    Þegar undirbúningur að innleiðingu rafrænna prófa hófst í lok árs 2015 kom í ljós við athugun á rafrænum prófakerfum að ekki var til á Íslandi kerfi af þeirri stærðargráðu sem þurfti. Nokkur kerfi voru skoðuð og tvö þeirra prófuð. TAO frá Open Assessment Systems krafðist mikillar forritunar og uppsetningar sem hefði haft mikinn kostnað í för með sér. FastTest prófakerfið frá Assessment Systems kom vel út í prófunum og þar var töluverð reynsla af því að leggja rafræn próf fyrir stóra hópa auk þess sem kerfið bauð upp á einstaklingsmiðuð próf. Ákvörðun var því tekin um að velja FastTest prófakerfið frá Assessment System.
    Fyrsta fyrirlögn rafrænna könnunarprófa var haustið 2016 og gekk hún í heildina vel þrátt fyrir ýmsa annmarka. Haustið 2017 lauk innleiðingu með fyrirlögn í 4. og 7. bekk sem gekk mjög vel.
    Á árinu 2017 var ákveðið að hefja vinnu að útboði fyrir prófakerfi en notast við FastTest prófakerfið á meðan. Útboðsgögn voru útbúin en ákveðið var að bíða með að hefja útboð þar sem til umræðu var að farið yrði í stefnumótun um samræmd könnunarpróf og stofnuninni falið að vinna tillögu að fimm ára innleiðingaráætlun. Þess vegna var gerður áframhaldandi samningur til eins árs við Assessment Systems. Góð reynsla hafði verið af þessu kerfi og ekki ástæða til að ætla að svo alvarleg bilun gæti komið upp í prófakerfinu eins og raunin varð við framkvæmd prófanna vorið 2018.

     2.      Hvenær var samningur milli Menntamálastofnunar og Assessment Systems gerður?
    Samningurinn var undirritaður 16. desember 2015.

     3.      Hvaða kröfur gerði Menntamálastofnun til hinnar keyptu þjónustu?
    Menntamálastofnun gerði þær kröfur að prófakerfið gæti lagt rafræn próf fyrir heilan árgang á Íslandi samtímis. Það þyrfti að geta birt spurningar, myndir, töflur og fleira með mismunandi hætti í mismunandi námsgreinum og bekkjum og að geta birt valmyndir á íslensku og geta meðhöndlað íslenska stafi. Einnig þyrfti að vera hægt að tengja saman prófkóða og persónueinkenni og að unnt væri að leggja fyrir próf á ólíkum tölvum og tækjum ásamt því að nota reiknivél og formúlublað inni í prófinu. Þá var nauðsynlegt að hafa möguleika á að læsa aðgangi að forritum og neti á meðan á fyrirlögn stóð og þyrfti kerfið að hafa getu til að halda utan um ólíka próftíma og geta geymt bæði prófsvör og próftíma ef tölva viðkomandi stoppaði skyndilega. Að lokum voru þær kröfur gerðar að prófakerfið þyrfti að bjóða upp á að spurningar og svör væru lesin fyrir nemendur með stuðningsúrræði, að það hefði getu til að halda utan um svör allra nemenda við öllum prófatriðum og bjóða upp á örugga úrvinnslu á gögnum og biði upp á möguleika á einstaklingsmiðuðum prófum sem aðlaga sig að getu nemanda.
     4.      Hve mikið fékk Assessment Systems greitt fyrir þjónustuna?
    Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir greiðslum til Assessment Systems:

Greiðslur til Assessment System 2016–2018
Dags. Ástæða Upphæð
20.6. 2016 26.000 prófeiningar og notendagjöld 7.122.293
8.8. 2016 Uppsetning á netþjóni á Evrópska efnahagssvæðinu 1.762.650
24.11. 2016 Notendagjöld 435.642
23.12. 2016 Notendagjöld 1.056.154
30.1. 2017 25.000 prófeiningar 5.814.100
3.1. 2018 40.000 prófeiningar 7.556.569
Samtals greitt 23.747.408

     5.      Hafði Menntamálastofnun eftirlit með verktakanum og ef svo var, hvernig var því eftirliti háttað?
    Menntamálastofnun hefur unnið náið með Assessment Systems frá árinu 2016 við innleiðingu og fyrirlögn á rafrænum prófum. Gerðar voru prófanir fyrir hverja fyrirlögn til að minnka líkurnar á því að eitthvað færi úrskeiðis en Assessment Systems vann síðan eftir gæðaferlum hjá sér þar sem m.a. voru gerðar álagsprófanir.

     6.      Hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til vegna vanefnda fyrirtækisins? Er réttur til skaðabóta fyrir hendi?
    Ráðherra hefur óskað eftir því að Menntamálastofnun taki saman upplýsingar um kostnað sem til hefur fallið vegna ófullnægjandi framkvæmdar á samræmdu könnunarprófunum í íslensku og ensku og leiti eftir því að þjónustuaðilinn taki þátt í sannanlegum ófyrirséðum viðbótarútgjöldum Menntamálastofnunar.