Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1068  —  635. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og mat á árangri af þeim.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hve mikið hefur kolefnisgjald dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi árlega frá því gjaldið var ákvarðað og hvernig er árangurinn mældur og metinn?
     2.      Hve mikið hefur kolefnisgjald dregið úr notkun ökutækja árlega frá því gjaldið var fyrst lagt á?
     3.      Hve mikið hefur árlegur útblástur gróðurhúsalofttegunda frá farartækjum aukist sl. fimm ár skipt á milli innanlandsflugs, millilandaflugs og yfirflugs, bensínbifreiða, dísilbifreiða og flutninga-, vöru- og hópbifreiða og annarrar losunar?
     4.      Hvaða áhrif mun fyrirhuguð hækkun kolefnisgjalds um 10% á ári næstu tvö ár hafa, sbr. 1.–3. tölul.?
     5.      Hvernig eru gróðurhúsalofttegundir skilgreindar, annars vegar alþjóðlega og hins vegar af ráðuneyti umhverfismála á Íslandi?
     6.      Hverjar eru helstu gróðurhúsalofttegundirnar? Hver er uppruni hinna mikilvægustu gróðurhúsalofttegunda, skipt eftir tegundum og tegund losunar?
     7.      Til hvaða annarra aðgerða en skattlagningar á ökutæki hefur ríkisstjórnin gripið til til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
     8.      Hefur ráðuneytið gefið út stefnu og áætlun um með hvaða hætti áformað er að draga úr losun í starfsemi ríkisins? Hver er núverandi staða og hver eru markmiðin til næstu fimm og tíu ára?
     9.      Er fjárhagsrammi í fjármálastefnu fyrir árin 2019–2023 og rammi fyrir stefnumörkun til að fylgja eftir og staðfesta árangur af markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til meðallangs og langs tíma?
     10.      Hverjir eru mælikvarðar fjármálaáætlunar og mælikvarðar ráðuneytis, sem ekki er að finna í fjármálaáætlun til að fylgjast með og mæla árangur við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Er árangur metinn sem magn eða hlutfall eða eftir atvikum með öðrum hætti?
     11.      Hafa stjórnvöld gefið út aðra mælikvarða en fram koma í fjármálaáætluninni sem mæla betur og skilvirkar þann árangur sem næst við að draga úr losuninni? Ef svo er, hverjir eru þeir?


Skriflegt svar óskast.