Ferill 375. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1112  —  375. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra og ráðuneytisstjóra.


     1.      Hver var frá árinu 2006 árlegur fjöldi ferða umhverfis- og auðlindaráðherra annars vegar og þeirra ráðherra sem fóru með málefnasvið hans og hins vegar ráðuneytisstjóra þessara sömu ráðuneyta til útlanda vegna starfa á vegum ráðuneytisins?
     2.      Hve háar voru árlegar greiðslur dagpeninga hvors um sig vegna þessara ferða?
    Sjá eftirfarandi töflur.

Ferðir ráðherra erlendis árin 2006–2017.

Ár Fjöldi ferða Dagpeningar Hótelgisting Annar ferðakostnaður
2006 15 1.117.369 691.086 1.864.509
2007 10 1.406.426 355.433 1.486.829
2008 10 1.105.044 543.479 1.338.646
2009 4 451.945 88.441 630.668
2010 4 406.085 291.945 1.011.910
2011 3 177.299 162.728 345.240
2012 5 638.778 532.231 1.928.198
2013 1 86.856 73.366 194.124
2014 2 363.773 291.407 569.670
2015 2 232.114 113.084 299.872
2016 4 392.404 158.276 729.674
2017 5 446.318 251.559 555.941

Ferðir ráðuneytisstjóra erlendis árin 2006–2017.

Ár Fjöldi ferða Dagpeningar Hótelgisting Annar ferðakostnaður
2006 7 856.453 627.734 1.382.859
2007 11 651.911 316.554 1.832.043
2008 7 659.679 552.858 1.039.261
2009 8 1.003.782 44.736 2.135.906
2010 3 246.854 47.283 538.571
2011 3 448.608 201.242 644.436
2012 7 929.035 508.151 1.291.774
2013 1 139.237 73.853 254.934
2014 1 98.390 139.157 163.438
2015 3 291.922 58.310 670.748
2016 1 190.424 76.170 186.318
2017 2 209.642 184.142 539.022

     3.      Hversu oft á hverju ári fengu ráðherra og ráðuneytisstjóri 1/3 hluta dagpeninga og hve oft 2/3 hluta?
    Fjallað er um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins í reglum nr. 1/2009 sem tóku gildi í mars 2009. Í 9. gr. reglnanna kemur fram að ráðherrum og forseta Hæstaréttar skuli greiddir hlutar dagpeninga, en 1/ 3 hluta dagpeninga ef um opinbera heimsókn er að ræða. Fyrrnefnd 9. gr. reglnanna tekur ekki til ráðuneytisstjóra og fær hann óskerta dagpeninga og greiðir allan sinn kostnað sjálfur. Eftir gildistöku reglunnar hafa ráðherrar sem ferðast á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis fengið greiddar 2/ 3 hluta dagpeninga.

     4.      Hverjar voru árlegar fjárhæðir, skipt á ráðherra og ráðuneytisstjóra, vegna hótelgistingar þeirra annars vegar og hins vegar annars ferðakostnaðar?
    Sjá töflur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar en þær sýna m.a. árlegar fjárhæðir skipt á ráðherra og ráðuneytisstjóra vegna hótelgistingar þeirra og annars ferðakostnaðar fyrir árin 2006–2017 en annar ferðakostnaður samanstendur m.a. af kostnaði vegna flug- og lestarfargjalda.

     5.      Í hversu mörgum tilfellum hvert þessara ára var ráðherra eða ráðuneytisstjóra ekið út á flugvöll í bifreiðum ráðuneytisins og í hve mörgum tilfellum endurgreiddu þeir þann hluta dagpeninga sem ætlaður er til að standa undir þeim hluta ferðakostnaðarins?
    Í 8. gr. reglugerðar nr. 1281/2014, um bifreiðamál ríkisins, segir að leggja skuli ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna. Þar af leiðandi er ráðherra jafnan ekið til flugvallar í bifreið ráðuneytisins. Ráðuneytisstjóra hefur ekki sérstaklega verið ekið til flugvallar í bifreið ráðuneytisins.

     6.      Hversu oft og hve háar voru árlegar endurgreiðslur ráðherra og ráðuneytisstjóra vegna styrkja og hvers konar hlunninda sem þeir nutu erlendis og eiga samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar að koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum?
    Í 7. gr. reglna nr. 1/2009 segir að styrkir og hvers konar hlunnindi varðandi gistingu og fæði sem ríkisstarfsmenn njóta meðan á dvölinni stendur skuli koma til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum eftir því sem við á og unnt er að meta hverju sinni. Á ferðalögum ráðherra og/eða ráðuneytisstjóra ber við að gestgjafi eða sá aðili sem hýsir fund bjóði veitingar eða standi fyrir kurteisisviðburði sem hæfir tilefninu. Hefð hefur skapast fyrir því að leggja ekki sérstakt mat á umfangið þannig að það hafi leitt til frádráttar almennum dagpeningagreiðslum.