Ferill 655. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1265  —  655. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um notkun á Alþingishúsinu.


     1.      Hver veitti leyfi fyrir því að hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn gera við þingsetningu?
    Ef hér er átt við, í fyrri hluta spurningarinnar, ljósmynd sem tekin er í Alþingishúsinu og var hluti af viðburði á Listahátíð í Reykjavík, þá er því til að svara, eins og menn kunnugir þinghúsinu eru líklegir til að átta sig á, að hún er af þremur ungum konum nöktum ofan mittis, tekin í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Það mun hafa verið formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem góðfúslega veitti leyfi fyrir myndatökunni og við það gerir forseti engar athugasemdir.
    Varðandi þann listgjörning að hópur kvenna gekk berbrjósta út úr Alþingishúsinu um aðaldyr og út í bæinn, þá var leyfi til þess veitt af skrifstofustjóra Alþingis og er það sömuleiðis athugasemdalaust af hálfu forseta. Áður hafði verið vel tekið í ósk aðstandenda Listahátíðar um samvinnu við Alþingi um uppsetningu mynda og var forseti því meðmæltur. Ekki reyndi þó, þegar til kom, á þann þátt með sama hætti og til stóð þar sem það fannst annar heppilegri staður fyrir uppsetningu myndanna.
    Rétt er að minna á í þessu sambandi að listviðburður þessi og gjörningur er í beinu samhengi við þá vakningu sem konur víða um heim, og einnig á Íslandi, hafa hrundið af stað undir formerkjunum „Ég líka“ og hefur m.a. leitt til þess að Alþingi hefur nú breytt siðareglum sínum og einnig haldið rakarastofuviðburð, hvort tveggja í því skyni að vinna gegn hvers kyns kynbundnu áreiti, kynbundnu ofbeldi, einelti og annarri óásættanlegri hegðun.

     2.      Telur forseti Alþingis slíka notkun á þinghúsinu og þinghefðum til þess fallna að auka virðingu Alþingis?
    Á því kunna eðlilega að vera skiptar skoðanir og getur farið eftir smekk manna og viðhorfi til listsköpunar hvert svar hvers og eins er. Viðhorf forseta er að Alþingi eigi að vera í góðum tengslum við þjóðlífið og finna til í stormum sinnar tíðar. Þar á meðal er að leggja fyrir sitt leyti lið ef óskað er eftir atbeina við listsköpun og atburði af því tagi sem Listahátíð í Reykjavík er og ekki síst ef vettvangur slíkra atburða er næsta nágrenni þinghússins.

     3.      Var þetta leyfi tengt stuðningi forseta Alþingis við málstað þeirra sem leyfið hlutu?
    Engin afstaða var sem slík tekin til þess boðskapar sem listamennirnir vildu koma á framfæri eða þess málstaðar sem þeir vildu með listsköpun sinni þjóna. Forseti dregur þó enga dul á að hann lítur með velvilja og aðdáun á þá vakningu sem konur hafa með hetjulegri framgöngu sinni og frásögnum vakið varðandi margs konar forneskjuleg viðhorf og óásættanlega framkomu sem þær mega enn sæta í samtímanum vegna kynferðis síns. Þessi afstaða forseta hafði þó ekki áhrif í þessu tilviki, heldur þau almennu sjónarmið sem að framan greinir um að Alþingi eigi að vera í góðum tengslum við þjóðlífið og megi gjarnan styðja við atburði af því tagi sem Listahátíð í Reykjavík er, ef eftir því er leitað.

     4.      Mega aðrir hópar vænta þess að fá leyfi fyrir sams konar viðburðum óháð því hvort forseti Alþingis er fylgjandi málstað þeirra eða ekki?
    Í því máli sem hér er spurt um voru svör þingsins ekki byggð á afstöðu til boðskapar eða málstaðar listamannanna eins og áður sagði, heldur almennum sjónarmiðum um það hvort Alþingi ætti að leggja sitt lið atburði af þessu tagi. Væntanlega yrðu sömu viðhorf uppi ef eftir einhverju sambærilegu yrði leitað í framtíðinni og aðstæður að öðru leyti sambærilegar. Vonandi verður aldrei farið inn á þá braut að láta einhvers konar listpólitíska íhlutun eða afstöðu ráða för heldur almenn sjónarmið.

     5.      Er þetta leyfi til marks um að vænta megi frekari tilslakana á reglum um klæðaburð Alþingismanna?
    Þessi listviðburður er rótgrónum venjum um snyrtilegan klæðaburð þingmanna við vinnu sína á þingstað óviðkomandi með öllu.