Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1338  —  225. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um úrvinnslu upplýsinga um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.


     1.      Hver er staðan á úrvinnslu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á þeim gögnum sem keypt hafa verið með upplýsingum um eignir Íslendinga á aflandssvæðum (skattaskjólum) eða hafa fengist með öðrum hætti á undanförnum fjórum árum?
    Á undanförnum árum hefur embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) fengið í hendur og aflað gagna af ýmsum toga sem tengjast beint eða óbeint eignarhaldi Íslendinga á félögum á aflandssvæðum. Mest að umfangi eru þau gögn sem SRS keypti á árinu 2015 sem sýndu fram á raunverulegt eignarhald nokkur hundruð íslenskra skattþegna á félögum sem staðsett eru á aflandssvæðum. Nánar tiltekið var um að ræða upplýsingar um 585 félög og tengsl þeirra við nafngreinda Íslendinga. Önnur gögn og upplýsingar með ábendingum hafa jafnframt borist SRS á undanförnum árum af svipuðum meiði, þar á meðal frá erlendum skattyfirvöldum. Auk þess hefur SRS talið efni til aðgerða í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar eða umfjöllunar á öðrum opinberum vettvangi. Framangreindu til viðbótar hefur SRS aflað gagna m.a. frá fjármálastofnunum innanlands sem og erlendis sem lið í greiningu og úrvinnslu verksins.
    Svo sem fyrr greinir voru þau gögn sem keypt voru 2015 mikil að umfangi. Í framhaldi af þeim kaupum voru gögnin greind og þær upplýsingar sem þar komu fram m.a. bornar saman við innsend skattframtöl. Í ljós kom að einvörðungu um þriðjungur þeirra einstaklinga, sem gögnin báru með sér að væru raunverulegir eigendur félaganna, höfðu gert grein fyrir eignarhaldi á félögunum í skattskilagögnum sínum. Í þeim tilvikum þar sem gerð var grein fyrir eignarhaldi var ýmist að gerð væri grein fyrir einhverjum umsvifum félaganna eða engum. Enginn þeirra einstaklinga sem hér um ræðir hafði skilað inn sk. CFC-skýrslu til skattyfirvalda. 1
    Greining nefndra gagna leiddi einnig í ljós að um tveir tugir þeirra einstaklinga sem þar komu fram höfðu ýmist áður sætt rannsókn hjá SRS, og þá vegna tekna eða eigna í tengslum við nefnd aflandsfélög, eða voru á þeim tímapunkti til rannsóknar hjá SRS. Rannsóknir þeirra mála leiddu til þess að hafin var rannsókn á á sjötta tug mála vegna gruns um undanskot sem vaknað hafði við rannsókn hinna fyrrnefndu mála.
    Eftir greiningu gagnanna voru tekin til rannsóknar um 30 mál þar sem grunur var um refsiverð skattundanskot. Við rannsóknir þeirra mála hefur vaknað grunur um skattalagabrot annarra skattþegna sem leitt hefur til þess að hafin var rannsókn um tugs aðila til viðbótar.
    Samhliða ákvörðun SRS um rannsókn framsendi SRS embætti ríkisskattstjóra (RSK) gögnin í október 2015, ásamt greiningu sinni á þeim og öðrum gögnum sem SRS hafði aflað í tengslum við þá vinnu, með vísan til þess að greining SRS benti til þess að skattskil væru athugunarverð, án þess að sýnt væri fram á að um refsiverð undanskot væri að ræða án frekari skoðunar.
    SRS hefur lokið rannsókn í alls 89 málum sem tengjast svonefndum Panamagögnum. Er þar hvort tveggja horft til mála er lúta að skattskilum þeirra er beint koma fram í nefndum gögnum sem og til þeirra mála sem afleidd eru og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Alls eru 14 mál enn í rannsókn, þar af sjö afleidd mál. Fimm þeirra eru á lokastigi rannsóknar. Þá má ætla að ástæða sé til að hefja rannsókn á nokkrum málum til viðbótar. Rannsóknir í 12 málum hafa verið felldar niður, þar á meðal sökum þess að grunur hefur ekki reynst á rökum reistur eða vegna þess að ekki hefur reynst unnt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti.
    Í kjölfar loka rannsóknar SRS hefur 57 málum verið vísað til héraðssaksóknara þar eð rannsókn hefur leitt í ljós stórfelld undanskot; í 18 málum hefur SRS farið fram með sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd og einu máli hefur verið lokið með sektargerð hjá SRS. Í níu málum hefur ákvörðun verið tekin um að fella niður refsimeðferð. Til viðbótar liggur fyrir ákvörðun um að vísa einu máli til héraðssaksóknara og þremur til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar.
    Á grundvelli framsendra gagna frá SRS stofnaði RSK tæplega 200 mál og ritaði öllum hlutaðeigandi bréf og í sumum tilfellum fleiri en eitt. Viðbrögð við nefndum bréfum voru mjög mismunandi. Í október 2017 framsendi RSK til SRS mál 187 einstaklinga sem ekki höfðu svarað fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra eða svör höfðu að mati þess embættis ekki reynst fullnægjandi. Benti RSK á að það embætti hefði ekki lagaheimildir til frekari aðgerða og ekki væri útilokað að unnt væri að ná frekari upplýsingum, svo sem með beitingu húsleitar, og því var það mat RSK að ekki væru efni til að ljúka málum fyrr en að gagnaöflun hefði verið fullreynd. Þá er enn í gangi úrvinnsla RSK á nokkrum málum aðila sem fram komu í hinum keyptu gögnum þar sem verið er að vinna úr svörum og kanna bankaupplýsingar.

     2.      Hve há fjárhæð hefur runnið í ríkissjóð í kjölfar vinnu með upplýsingar um eignir Íslendinga á aflandssvæðum (skattaskjólum)?
    Við lok rannsóknar hjá SRS er niðurstaða hennar tekin saman í skýrslu þar sem ítarlega er gerð grein fyrir ferli rannsóknarinnar, gagnaöflun og ætluðum brotum. Þar er einnig gerð grein fyrir tölulegum niðurstöðum um fjárhæðir ætlaðra undanskota. Endanleg niðurstaða endurálagningar skatta á sér í framhaldinu að jafnaði stað með úrskurði RSK og eftir atvikum yfirskattanefndar. Endanleg niðurstaða refsiþáttar málsins og þar með fjársektar kemur fram í niðurstöðu dómstóla eða eftir atvikum með sektarákvörðun SRS eða yfirskattanefndar.
    Sé horft til tölulegra niðurstaðna í rannsóknarskýrslum SRS í þeim málum sem nú er lokið rannsókn á, sbr. svar við 1. lið, nema vanframtaldir undandregnir skattstofnar alls um 15 milljörðum kr. Meginhluti skattstofnsins eru fjármagnstekjur.
    Gjaldabreytingar RSK á árunum 2016, 2017 og það sem af er árinu 2018 hafa numið samtals 518 millj. kr. hjá þeim aðilum sem komu fram í þeim gögnum sem RSK fékk framsend frá SRS, sbr. svar við 1. lið.
    Enn sem komið er liggur ekki fyrir hversu mikið muni innheimtast af þeim fjárhæðum sem nefndar eru hér að framan.

     3.      Hafa eftirlitsstofnanirnar nægilegt fjármagn, starfsfólk og þekkingu til að vinna úr þeim gögnum sem fyrir liggja?
    Fjárheimildir SRS til skattrannsókna voru auknar í kjölfar hrunsins sem hefur gert SRS kleift að fjölga starfsfólki. Samkvæmt upplýsingum frá SRS kemst embættið þó ekki yfir að sinna öllum þeim verkefnum sem embættið teldi æskilegt að sinna og er því málum forgangsraðað eins og kostur er. Ljóst er að úrvinnsla úr þeim gögnum sem hér um ræðir hefur haft forgang hjá embættinu á undanförnum árum. Sá mannafli sem við bættist í kjölfar hrunsins hefur því komið að góðu gagni og nýst vel hjá embættinu.
    Hlutur RSK í úrvinnslu umræddra gagna hefur verið með öðrum hætti enda eru embættunum ætluð ólík hlutverk. Embættið var styrkt sérstaklega í kjölfar hrunsins og einnig hefur verið forgangsraðað innan embættisins til að sinna þeim skyldum sem embættinu eru ætlaðar af fagmennsku og þekkingu.

     4.      Hvernig gengur úrvinnslan hér á landi í samanburði við úrvinnslu danskra stjórnvalda á sambærilegum gögnum þar í landi?
    Í þessum málum sem og öðrum eru samskipti SRS og RSK við dönsk skattyfirvöld góð, bæði formleg og óformleg. Þannig komu fulltrúar danskra skattyfirvalda er vinna að úrvinnslu sambærilegra gagna í Danmörku í heimsókn til SRS í marsmánuði 2017 í því skyni að skiptast á upplýsingum.
    Að öðru leyti liggja ekki fyrir upplýsingar um vinnu danskra skattyfirvalda, en með sama hætti og hér á landi hefur fréttaumfjöllun verið um málið í dönskum miðlum, sbr. t.d. eftirfarandi nýlega frétt DR: www.dr.dk/nyheder/penge/panama-papers-har-udlost-skatteregninger-pa-293-millioner-kroner

1    Svokölluð CFC-ákvæði, þ.e. 57. gr. a í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, tóku gildi 1. janúar 2010 og komu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á lögaðila á árinu 2011.