Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1395  —  633. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um áhættumat og viðbragðsáætlanir vegna eiturefnaflutninga í grennd við vatnsverndarsvæði.


     1.      Liggur fyrir áhættumat og viðbragðsáætlun á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess vegna flutnings eldsneytis, tilbúins áburðar, annarra eiturefna til atvinnurekstrar og annars hættulegs farms um þjóðvegi í grennd við vatnsverndarsvæði? Ef svo er, hver er niðurstaða nýjasta slíks mats eftir svæðum og hverjir eru helstu þættir viðbragðsáætlana, þar á meðal verkaskipting og skipting ábyrgðar milli aðila sem koma að slíkum áætlunum?
    Markmið reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns er að koma í veg fyrir og draga úr mengun vatns og umhverfis þess af mannavöldum og er þar að finna almenn ákvæði um varnir gegn vatnsmengun, m.a. viðmiðunarmörk fyrir mengandi efni og/eða gæðamarkmið fyrir grunnvatn og yfirborðsvatn. Heilbrigðisnefndir skulu flokka og skilgreina langtímamarkmið fyrir vatn til þess að viðhalda náttúrulegu ástandi þess og til þess að vernda það gegn mengun. Samkvæmt reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun skal Umhverfisstofnun, í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, álagsgreina vatnshlot út frá íbúðabyggð, dreifðri mengun og starfsleyfisskyldri starfsemi sem getur haft í för með sér mengun. Álagsgreining skal m.a. byggjast á flokkun vatns sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gera í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Þessi vinna Umhverfisstofnunar stendur nú yfir sem hluti af undirbúningi fyrstu vatnaáætlunarinnar, sbr. lög nr. 36/2011, um stjórn vatnamála.
    Fimmti kafli reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns fjallar um verndun neysluvatns. Þannig skal umhverfis hvert vatnsból ákvarða verndarsvæði sem skiptist í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Við skilgreiningu vatnsverndarflokkanna skal taka mið af vatnafræðilegum, jarðfræðilegum og landfræðilegum aðstæðum á vatnasviði vatnsbólsins, mikilvægi þess og mengunarhættu. Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir, samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þannig er í gildi samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Markmið samþykktarinnar er að tryggja verndun grunnvatns vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins þannig að gæði neysluvatns á vatnstökustað uppfylli ávallt kröfur sem gerðar eru í gildandi löggjöf. Sérstakar reglur gilda því umhverfis vatnsverndarsvæði sem byggjast á mati á hættu á að vatnsból mengist.
    Ekki hefur verið gert almennt áhættumat á landinu vegna flutnings á hættulegum farmi á þjóðvegum í grennd við vatnsverndarsvæði. Um slíka flutninga gilda hins vegar reglur um ábyrgð, varnarráðstafanir, eftirlit, viðbragðsáætlanir og öryggisbúnað.
    Samkvæmt lögum nr. 55/2012, um umhverfisábyrgð, skal rekstraraðili tiltekins atvinnurekstrar og rekstraraðili sem flytur hættulegan eða mengandi farm á vegum þegar í stað grípa til nauðsynlegra varnarráðstafana vegna yfirvofandi hættu á umhverfistjóni og tilkynna Umhverfisstofnun um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem rekja má til starfsemi hans og upplýsa um alla þætti sem máli skipta.
    Heilbrigðisnefndum er heimilt að takmarka eða banna flutning olíu, efna og úrgangs innan verndarsvæða vatnsbóla þar sem hætta er á að slíkt geti spillt vatninu, sbr. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.
    Reglugerð nr. 884/2017 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi hefur það m.a. að markmiði að skýra ábyrgð dreifingaraðila og eigenda efna sem falla undir reglugerðina þegar mengunaróhöpp verða vegna slíkra efna og tryggja að gripið sé til viðunandi aðgerða. Um flutning á olíu sem og öðrum hættulegum efnum á vegum gildir reglugerð nr. 1077/2010 um flutning á hættulegum farmi á landi, sem innleiðir ADR-reglur Sameinuðu þjóðanna. Í þeim reglum og framangreindri reglugerð nr. 884/2017 eru m.a. ákvæði um reglubundið eftirlit og úttektir á olíuflutningatækjum. Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar hvað varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófanir og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglunum. Lögreglan hefur eftirlit með að framfylgt sé reglugerð um flutning á hættulegum farmi á vegum við sjálfan flutninginn eins og hann er skilgreindur í reglugerðinni. Samgöngustofa hefur eftirlit með að ökutæki sem flytja hættulegan farm séu viðurkennd til slíkra flutninga samkvæmt ADR-reglunum. Slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi í mengunaróhöppum og ber ábyrgð á að heilbrigðiseftirliti sé tilkynnt án tafar um mengunaróhöpp.
    Mikilvægt er að innra eftirlit dreifingaraðila sé virkt og í V. kafla framangreindrar reglugerðar um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi er sérstaklega fjallað um flutningsaðila. Kveðið er á um að í innra eftirliti dreifingaraðila olíu skuli m.a. koma fram skilgreining á umfangi þjónustusvæðis, upplýsingar um mengunarvarnabúnað í olíuflutningabifreiðum og hvaða aðgang dreifingaraðili hafi að búnaði verði mengunaróhapp. Dreifingaraðili skal hafa neyðarstjórn eða neyðarteymi innan fyrirtækisins, sem sé ávallt unnt að virkja, til að hafa yfirumsjón með viðbrögðum fyrirtækisins verði mengunarslys við dreifingu. Þá er kveðið á um í reglugerðinni að dreifingaraðili skuli hafa viðbragðsáætlun um aðgerðir komi til mengunaróhapps. Áætlunin skal a.m.k. innihalda ákvæði um tilkynningarskyldu um óhöpp, bjargir, viðbrögð og köllunarskrá og einnig uppfylla ákvæði laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, um viðbrögð við bráðamengun. Áætlunin skal kynnt eftirlitsaðila, hlutaðeigandi slökkviliði og þar sem við á hafnaryfirvöldum og vatnsveitu. Áætlunin skal vera aðgengileg og kynnt bílstjórum og öðrum starfsmönnum sem starfa við dreifingu eldsneytis. Kveðið skal á um að bifreiðastjórum skuli settar starfsreglur um akstur, akstursleiðir og annað er varðar framkvæmd olíuáfyllinga. Þeir skulu þekkja viðbragðsáætlanir og fá reglulega fræðslu um viðbrögð við óhöppum eða olíuslysum við flutning á olíu og við áfyllingar geyma svo og reglulega þjálfun í notkun tækja og öryggisbúnaðar. Í 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 884/2017 er sérstaklega kveðið á um að dreifingaraðili skuli setja fram skipulag á akstri olíuflutningabifreiða um vatnsverndarsvæði, svo sem um fjölda ferða og magn olíu í hverri ferð, sem hljóta skuli samþykki heilbrigðisnefndar, og fá fylgd eftir því sem við á frá viðkomandi vatnsveitu. Á vatnsverndarsvæðum skulu dreifingaraðilar gæta þess að hafa ekki meira magn af olíu meðferðis en afhenda má innan svæðisins.
    Í gildi er Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016–2031, gefin út af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samræmi við efnalög, nr. 61/2013. Áætluninni er ætlað að ýta undir þróun nýrra varna í plöntuvernd og innleiða aðferðir sem ekki byggjast á notkun efna, í því skyni að draga úr notkun þeirra við matvælaframleiðslu. Í henni koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um notkun varnarefna og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun. Markmiðið er að draga markvisst úr notkun varnarefna og stuðla að sjálfbærri notkun þeirra í því skyni að draga úr áhættu fyrir heilsu og umhverfið. Meðal markmiða í aðgerðaáætluninn er að dregið verði út notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum og í öðru manngerðu umhverfi, að dregið verði úr losun á plöntuvarnavörum út í vatnavistkerfið og að áfram verði haldið að vakta vatnavistkerfi í því augnamiði að ganga úr skugga um að þar séu ekki til staðar varnaefnaleifar. Umhverfisstofnun mun í samráði við Vegagerðina, Landgræðslu ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna áætlun fyrir lok árs 2019 um hvernig megi ná því markmiði að draga úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum og í öðru manngerðu umhverfi.

     2.      Liggur fyrir áhættumat og viðbragðsáætlun á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess vegna áhrifa saltburðar á Suðurlandsveg í grennd við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem og á Bláfjallaafleggjarann?
    Fylgst er með saltinnihaldi neysluvatns frá vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðinu sem hluta af reglubundnum heildarefnagreiningum á neysluvatninu. Í árlegri umhverfisskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur eru birtar niðurstöður efnagreininga á köldu vatni í Reykjavík. Í niðurstöðum áranna 2014–2017 var meðalstyrkur klóríðs 9,7 mg/l (8,6–10,9), sem er styrkur sem búast má við miðað við fjarlægð vatnsverndarsvæðisins frá sjó. Þessi styrkur nemur 3,9% af leyfilegu hámarksgildi klóríðs í neysluvatni (250 mg/l).
    Í mælingum sem gerðar voru á tímabilinu mars 2014 til mars 2015, með það að markmiði að rannsaka árstíðabundnar sveiflur, kom í ljós að klóríðinnihald vatns var stöðugt í sýnum teknum á vatnsverndarsvæðinu að Jaðri, Myllulæk, Vatnsendakrikum og Kaldárbotnum (Vaiva Cypaite, 2015).
    Niðurstöður mælinganna benda ekki til áhrifa vegna hálkuvarna í nágrenni svæðisins á saltinnihald neysluvatnsins. Ekki hefur verið talin ástæða til þess að gera sérstakt áhættumat eða viðbragðsáætlanir vegna hálkuvarna á þessu svæði.

     3.      Liggur fyrir áhættumat og viðbragðsáætlun á vegum ráðuneytisins eða undirstofnana þess vegna áhrifa gúmmíkurls undan hjólbörðum bifreiða og annarra mengandi efna frá bifreiðaumferð um Suðurland í grennd við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins?
    Fylgst er með efnainnhaldi neysluvatns frá vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðinu með reglubundnum heildarefnagreiningum á neysluvatninu sem tekur til fjölmargra efnaþátta. Meðal þeirra efna sem fylgst er með eru efni sem eru líkleg til að stafa frá ökutækjum. Niðurstöður heildarefnagreininga hafa sýnt að styrkur efna er langt undir þeim mörkum sem miðað er við og sett eru í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn.
    Slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi í mengunaróhöppum og ber ábyrgð á að heilbrigðiseftirliti sé tilkynnt án tafar um mengunaróhöpp. Ef um er að ræða óhapp vegna flutnings hættulegs eða mengandi farms á vegum skal rekstraraðili þegar í stað tilkynna Umhverfisstofnun um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni sem rekja má til starfsemi hans og upplýsa um alla þætti sem máli skipta, sbr. lög nr. 55/2012, um umhverfisábyrgð.
    Í matsskýrslu Vegagerðarinnar vegna breikkunar Suðurlandsvegar frá Hólmsá að Hveragerði er lagt mat á þætti sem valda umhverfisáhrifum. Varðandi vatnsvernd kemur fram að mest mengunarhætta stafi frá sjálfri umferðinni og slysum sem fylgja henni. Olíulekar í tengslum við umferðarslys eru helst talin geta ógnað vatnsbólunum. Fjallað er um leiðir við frágang umhverfis vegreinarnar þannig að við óhapp sé hægt að hreinsa upp staðbundið jarðveg sem mengast hefur með því að moka honum upp og skipta honum út. Þá sé ljóst að saltnotkun muni aukast á tvöföldum Suðurlandsvegi en ekki sé gert ráð fyrir að afrennsli af veginum verði safnað sérstaklega saman nema næst Hólmsá, þar sem því verði veitt í settjörn til að tryggja að ekki verði beint afrennsli frá vegi og út í ána.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki látið gera sérstakt áhættumat eða viðbragðsáætlanir vegna slits á hjólbörðum eða bifreiðaumferðar á þessu svæði.