Ferill 656. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1399  —  656. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um uppbyggingu almenningssamgangna.


     1.      Í hverju mun sú uppbygging almenningssamgangna felast sem vísað er til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem segir að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og að stutt verði við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu?
    Á undanförnum árum hefur Vegagerðin, fyrir hönd ríkisins, samið við samtök sveitarfélaga um styrk til reksturs almenningssamgangna á landi. Jafnframt hefur Vegagerðin styrkt ákveðnar flugleiðir og ferjuleiðir innan lands.
    Nú er unnið að því að semja opinbera stefnu um almenningssamgöngur. Stefnan mun ná til allra samgöngumáta og alls landsins þar sem áhersla er lögð á samþættingu almenningssamgangna á landi, lofti og á sjó. Miðað er við að stefnan birtist í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 sem gert er ráð fyrir að ráðherra leggi fram á haustþingi 2018.
    Gert er ráð fyrir að áfram verði samið við samtök sveitarfélaga um styrki til almenningssamgangna þótt einhverjar breytingar verði gerðar frá núverandi fyrirkomulagi að fenginni reynslu. M.a. er í gildi samningur á milli Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, SSH, og ríkisins um tilraunaverkefni til 10 ára um framlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er gert ráð fyrir að ákveðnar flugleiðir og ferjuleiðir innan lands verði styrktar.

     2.      Hvað er átt við með „borgarlínu“?
    Borgarlína er vinnuheiti yfir nýtt hraðvagnakerfi, annað hvort á teinum eða hjólum, sem rekið verður samhliða núverandi strætisvagnakerfi SSH. SSH hefur á undanförnum misserum unnið að undirbúningi hraðvagnakerfis, en endanleg útfærsla liggur ekki fyrir. Nánari upplýsingar um útfærslu og markmið með borgarlínu má finna hér:
ssh.is/images/stories/svaedisskipulag/Borgarlina/2018_05_Stadfesting/180525_ssk_tillaga_stadfest.pdf
     3.      Í hverju mun stuðningur ríkisstjórnarinnar við borgarlínu felast?
    SSH hefur átt samstarf við Vegagerðina um hugsanlega legu borgarlínu, t.d. þar sem líklegt er að borgarlína liggi innan vegsvæðis þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu. Nánari útfærsla liggur ekki fyrir, t.d. með hvaða hætti eða hvaða áhrif borgarlínan hafi á þjóðvegi og veghelgunarsvæði í umsjón Vegagerðarinnar. Stuðningur ríkisins miðast við áætluð framlög á samgönguáætlun og fjárlög eins og Alþingi ákveður hverju sinni, og verður háður nýju samkomulagi við SSH og endanlegri útfærslu borgarlínunnar.
    Viðræður eru skammt á veg komnar á milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun þá stendur vilji til að eiga samstarf við SSH um uppbyggingu borgarlínu.