Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 781  —  403. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um ábyrgðarmenn og greiðsluaðlögun.


     1.      Með hvaða hætti er gætt hagsmuna ábyrgðarmanna í skilningi laga um ábyrgðarmenn, sem kröfuhafa við meðferð umsókna aðalskuldara um greiðsluaðlögun, með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 274/2010 og nr. 462/2010?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti umboðsmanns skuldara eru ábyrgðarmenn upplýstir um að meðan á greiðsluskjóli stendur sé kröfuhöfum óheimilt að krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu kröfu. Slíkar upplýsingar eru veittar skriflega með bréfi þar sem jafnframt er vakin athygli á því að greiðsluaðlögun aðalskuldara geti leitt til þess að ábyrgð viðkomandi verði virk. Eigi ábyrgðarmenn virka endurkröfu á hendur einstaklingi í greiðsluaðlögun er þeim heimilt að lýsa kröfu fyrir umsjónarmanni skv. 10. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, með síðari breytingum. Sé kröfu lýst hefur hlutaðeigandi kröfuhafi andmælarétt gagnvart frumvarpi til greiðsluaðlögunar.
    Ábyrgðarskuldbindingar eru ekki felldar niður í samningi um greiðsluaðlögun þar sem slíkur samningur tekur eingöngu til skuldbindinga þess einstaklings sem leitar greiðsluaðlögunar. Hafi ábyrgðarskuldbinding stofnast eftir gildistöku laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, getur 3. mgr. 9. gr. laganna komið til skoðunar ef aðalskuldari fær eftirgjöf á kröfu samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun. Það felur í sér að eftirgjöf, þ.m.t. til greiðsluaðlögunar, og samningur um greiðsluaðlögun, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka eða aðalskuldara, skuli hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.

     2.      Telur ráðherra að búsetuskilyrði 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, sé samrýmanlegt 28. gr. EES-samningsins um frelsi launþega til flutninga milli landa innan EES?
    Við setningu laga nr. 135/2010, um breytingu á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, og fleiri lögum, tók löggjafinn ákvörðun um að almennt geti þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Ekki kemur skýrlega fram í greinargerð hvað vakti fyrir löggjafanum við setningu laganna, en ráða má af greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum að löggjafinn hafi tekið tillit til ákvæða EES-samningsins og laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum.
    Ráðuneytið er ekki bært til að meta hvort ákvæði 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga samrýmist ákvæði 28. gr. EES-samningsins líkt og óskað er eftir en slíkt fellur í hlut almennra dómstóla. Þess ber þó að geta að endurskoðun ráðuneytisins á efni laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nær einnig til þessarar greinar laganna.

     3.      Hvers vegna hefur ráðherra ekki enn sett reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga eins og mælt er fyrir um í 34. gr. laga um greiðsluaðlögun, nr. 101/2010?
    Í ljósi tíðra stjórnarskipta undanfarið hefur hvorki náðst að ljúka vinnu við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga né reglugerðar eins og lagt var upp með. Ráðherra hefur ákveðið að taka aftur upp þráðinn við endurskoðun laganna og vinnu við reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. 34. gr. laga um greiðsluaðlögun, en ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu lýkur.

     4.      Hver er staða endurskoðunar laga um greiðsluaðlögun einstaklinga sem hefur staðið yfir í ráðuneytinu a.m.k. frá árinu 2014?
    Vísað er til svars við 3. tölul. fyrirspurnar þessarar.