Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
3. uppprentun.

Þingskjal 21  —  21. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson,
Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland,
Jón Steindór Valdimarsson, Logi Einarsson, Njörður Sigurðsson,
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2019.

Greinargerð.

    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn án fyrirvara 30. mars 2007 ásamt valfrjálsri bókun. Í október 2016 var samningurinn síðan fullgiltur fyrir Íslands hönd.
    Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 13. desember 2006 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks.
    Segja má að fatlað fólk sé fjölmennasti minnihlutahópur heims og er áætlað að um 650– 800 milljónir manna séu með einhvers konar fötlun. Fatlað fólk er hins vegar mjög margbreytilegur hópur fólks. Mikilvægt er að hafa það í huga þegar unnið er að réttindamálum fatlaðs fólks.
    Þá er mjög mikilvægt og skylt samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna að tryggja víðtækt og virkt samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess.
    Markmið samningsins eru að „efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess“.
    Mikilvægustu skilaboð samningsins eru að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að þeir eigi að fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis til jafns við aðra. Til að svo megi verða er í samningnum lögð sérstök áhersla á tækifæri fatlaðs fólks til fullrar þátttöku á öllum sviðum mannlífs og samfélags og spjótum beint að venjum og siðum, staðlaðri ímynd, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangrun og útilokun sem tengist fötluðu fólki.
    Samningurinn er mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks. Mikilvægasta verkefnið er þó enn og verður áfram að tryggja öllu fötluðu fólki í verki öll þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum.
    Þá er ítrekað að samstarf og samráð við fatlað fólk, réttinda- og hagsmunasamtök þess, persónulega talsmenn og sérfræðinga í málaflokknum er nauðsynlegt til þess að hægt sé að gera markvissar og viðeigandi breytingar og ráðstafanir í allri stefnumótun og áætlanagerð, reglusetningu og framkvæmd.

Fullgilding samningsins dugir ekki.
    Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn án fyrirvara 30. mars 2007 ásamt valkvæðum viðauka við hann. Samkvæmt íslenskri réttarskipan felur undirritun alþjóðasamninga í sér að stjórnvöld telji samningsgerðinni lokið og að íslensk stjórnvöld, sem aðili samningaviðræðna, geri ekki athugasemdir við samningsniðurstöðuna að öðru leyti en fram kemur í fyrirvörum við undirritun. Undirritun samnings hefur hins vegar ekki í för með sér að íslensk stjórnvöld séu skuldbundin til þess að efna samninginn en í undirritun felst hins vegar yfirlýsing um vilja til þess.
    Hinn 20. september 2016 var samningurinn fullgiltur fyrir Íslands hönd í samræmi við ályktun Alþingis nr. 61/145 en fullgilding á mannréttindasamningi í framkvæmd hefur stuðst við 21. gr. stjórnarskrárinnar og er leitað eftir samþykki Alþingis fyrir slíku. Samþykkis er aflað með þingsályktun um að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til þess að fullgilda viðkomandi samning. Að því búnu er fullgildingarskjal undirritað og sent til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn tekur síðan formlega gildi að því er Ísland varðar að liðnum ákveðnum tíma frá móttöku skjalsins.
    Fullgilding samningsins er mikilvægur áfangi í að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri sem flestu ófötluðu fólki þykja sjálfsögð. Með fullgildingu samningsins skuldbinda íslensk stjórnvöld sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um auk þess að gera þær breytingar á íslenskri löggjöf, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu sem nauðsynlegar eru til að tryggja að ákvæði samningsins verði uppfyllt.
    Þótt íslensk stjórnvöld séu með fullgildingu skuldbundin til að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarétti. Vegna tvíeðliskenningarinnar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Því er samkvæmt íslenskri réttarskipan ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema hann hafi verið lögfestur.
    Samkvæmt íslenskri stjórnskipun fær þjóðréttarsamningur ekki lagagildi nema löggjafarvaldið grípi til sérstakra aðgerða til viðbótar við fullgildinguna, þ.e. veiti samningnum lagagildi. Hafi samningur þannig einungis verið fullgiltur en íslensk lög stangast á við einhver ákvæði hans víkja ákvæði samningsins. Rétt er þó að taka fram að samkvæmt íslenskum rétti ber dómstólum og öðrum úrskurðaraðilum að líta til þjóðréttarlegra skuldbindinga íslenska ríkisins við túlkun laga. Afleiðing vegna beins áreksturs laga og skuldbindinga samkvæmt fjölþjóðlegum samningi kann hins vegar að vera sú að íslenska ríkið hafi brotið gegn þeirri þjóðréttarlegu skyldu sem stofnaðist við fullgildingu samningsins. Getur íslenska ríkið þá hlotið aðfinnslur og ábendingar frá fjölþjóðlegum eftirlitsaðilum sem mælt er fyrir um í slíkum samningum að skuli hafa eftirlit með því hvernig aðildarríki uppfylla þá.
    Íslenskur doktorsnemi í lögfræði við Harvard-háskóla, Kári Hólmar Ragnarsson, sagði nýlega í Úlfljóti, tímariti laganema við Háskóla Íslands, að nýjustu dómar Hæstaréttar bentu til þess að dómstóllinn væri „gríðarlega tregur“ til þess að fjalla um félagsleg réttindi og að staða þeirra fyrir íslenskum dómstólum væri veik og vernd þeirra hefði hrakað á allra síðustu árum. Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
    Í grein sinni rekur Kári Hólmar að Hæstiréttur hafi aðeins einu sinni fallist á málsástæðu á grundvelli ákvæðisins, en það var í hinum svonefnda Öryrkjabandalagsdómi árið 2000. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að lög frá Alþingi, sem fólu í sér skerðingu örorkubóta vegna tekna maka, brytu í bága við umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar. Kári segir að í kjölfar dómsins hafi verið höfð uppi stór orð um að túlkun dómstóla á ákvæðum sem varða félagsleg réttindi gæti leitt af sér stórvægilegar breytingar á stjórnskipuninni. Sá spádómur hafi hins vegar ekki ræst. „Þótt fjöldi mála þar sem ákvæðinu er borið við hafi aukist á síðustu árum, þá hefur Hæstiréttur hafnað öllum kröfunum. Í ýmsum tilvikum hefur Hæstiréttur ekki einu sinni tekið afstöðu til ákvæðisins, þótt því sé borið við,“ segir hann. Héraðsdómur hefur einu sinni fallist á málsástæðu á grundvelli 76. greinarinnar, árið 2015, en í þeim dómi var talið að óheimilt hefði verið að synja sjón- og heyrnarskertri konu um endurgjaldslausa táknmálstúlkun á grundvelli fjárskorts. Slík synjun var talin brjóta í bága við rétt konunnar til aðstoðar samkvæmt 76. greininni. Dóminum var ekki áfrýjað.
    Kári sagði í samtali við Vísi í júní árið 2017 að ekki væri samræmi milli dóma að því er varðaði aðferðir og mælikvarða við mat á því hvort brotið hefði verið gegn 76. greininni: „Nýjustu dómar Hæstaréttar benda til þess að rétturinn sé gríðarlega tregur til þess að fjalla efnislega um félagsleg réttindi og gefa í skyn að grundvallarálitaefni á þessu sviði, til dæmis um fjárhæð örorkulífeyris, falli nær alfarið utan valdsviðs dómstóla. Þannig hefur Hæstiréttur í raun skipað fjárstjórnarvaldi löggjafans ofar stjórnskipulegum réttindum.“
    Þrátt fyrir þau jákvæðu áhrif sem fullgilding samningsins hefur haft í för með sér telja flutningsmenn þessarar tillögu nauðsynlegt að ganga skrefinu lengra. Þess vegna er hér ályktað um lögfestingu samningsins eigi síðar en 13. desember 2019 en þá verða 13 ár liðin frá því að hann var samþykktur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samhliða lögfestingu samningsins skal aðlögun íslenskra laga að ákvæðum samningsins einnig lokið þá.
    Íslensk stjórnvöld hafa einungis lögfest örfáa alþjóðasamninga og má þar nefna barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (2013), mannréttindasáttmála Evrópu (1994) og EES-samninginn (1993).

Þverpólitísk samstaða.
    Þónokkrir þingmenn hafa beitt sér fyrir auknu vægi samningsins sem og aðlögun íslenskra laga að samningnum. Nú síðast lagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingismaður fram þingsályktunartillögu um að fela forseta Alþingis að skipa sérnefnd þingmanna sem hefði það hlutverk að hefja heildarendurskoðun lögræðislaga, nr. 71/1997, en auk heildarendurskoðunar á lögunum yrði sérstaklega litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mikilvægt er að umrætt þingmál nái fram að ganga.
    Einnig ber að geta þess að þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins var lögð fram árið 2016 undir forystu Kristjáns L. Möllers, en meðflutningsmenn voru úr mörgum stjórnmálaflokkum. Velferðarnefnd undir forystu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur formanns og Páls Vals Björnssonar framsögumanns afgreiddi málið um fullgildinguna með skýrslu skv. 31. gr. laga um þingsköp Alþingis.
    Loks ber að geta þess að félags- og jafnréttismálaráðherra lagði fram stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 á 146. löggjafarþingi 2016– 2017. Þar kom m.a. fram að kynna bæri mun betur samninginn um réttindi fatlaðs fólks ásamt fjölmörgum aðgerðum í þágu fatlaðs fólks. Samkvæmt þessari áætlun ber að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í alla lagaumgjörð og framkvæmd en eftir stendur þó lögfestingin sjálf sem hefur, eins og fyrr var lýst, mikla efnislega þýðingu varðandi beitingu samningsákvæðanna og þar með fyrir réttarstöðu og réttaröryggi fatlaðs fólks með tilliti til mannréttinda sem samningnum er ætlað að tryggja að það njóti.
    Flutningsmenn eru vongóðir um að þverpólitísk samstaða myndist um að stíga skrefið til fulls og að samningurinn verði lögfestur.

Lögfesting barnasáttmálans sem fyrirmynd.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálinn) var lögfestur árið 2013 en fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu lagði fram þingsályktunartillögu um að lögfesta bæri barnasáttmálann og var hún samþykkt á Alþingi árið 2009. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um.
    Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 19/2013 segir m.a.: „Með því að lögfesta samninginn um réttindi barnsins er mannréttindum barna veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Barn eða forsjáraðili þess getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni barna fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi barna og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um réttindi barnsins mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum barna.“ Flutningsmenn telja að sömu rök um lögfestingu þessa alþjóðasamnings eigi við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggi þess eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.

Efni samningsins.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var gerður árið 2006 og er oft sagður fyrsti stóri alþjóðlegi mannréttindasamningurinn á þessari öld. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948 er grundvöllur samningsins eins og annarra fjölþjóðlegra mannréttindasamninga. Samningurinn tók gildi 3. maí 2008 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann. Langflest ríki í heiminum, eða um 177, hafa nú fullgilt samninginn og þar með skuldbundið sig til að framfylgja honum.
    Eins og kom fram í fyrrnefndri þingsályktun um fullgildingu samningsins er uppbygging hans með sama hætti og annarra nýlegra mannréttindasamninga, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í formálsorðum samningsins er áréttað að mannréttindi séu samtvinnuð, óumdeilanleg og gagnvirk. Þess vegna eru ákvæði sem fjalla um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi í sama samningi og ákvæði sem fjalla um réttindi af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum toga. Samningurinn er þar með, líkt og barnasáttmálinn, heildrænn þegar skyldum ríkja er lýst. Í samningnum eru m.a. áréttuð þau mannréttindi sem fatlað fólk á að njóta samkvæmt alþjóðlegum samningum og stjórnarskrám margra ríkja.
    Samningurinn skiptist í fimm hluta og fylgir hann þingsályktunartillögu þessari í fylgiskjali. Í fyrsta hluta koma fram, auk formálsorða, markmið samningsins og skilgreiningar. Í öðrum hluta (3.–9. gr.) er að finna grundvallarreglur samningsins. Í þriðja hluta (10.–30. gr.) er kveðið á um þau réttindi sem eiga að njóta verndar samkvæmt samningnum. Í fjórða hluta (31.–40. gr.) eru ákvæði um framkvæmd samningsins og eftirlit með honum og í fimmta hluta (41.–50. gr.) eru hefðbundnar lokagreinar.
    Markmið samningsins eru að stuðla að því og tryggja að allt fatlað fólk njóti að fullu og til jafns við aðra mannréttinda og frelsis, og sömuleiðis að stuðla að virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Efni samningsins er víðtækt og nær m.a. til virðingar fyrir mannlegri reisn, fjölbreytileika og sjálfræðis einstaklinga. Þá bannar samningurinn hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggir fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum. Tryggja þarf fulla og virka þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar og einnig jafnt aðgengi, jöfn tækifæri og jafnrétti.
    Þá segir í fyrrnefndri þingsályktun um fullgildingu samningsins:
    „Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur sem á að tryggja fötluðu fólki jafna stöðu á við aðra. Mörg ákvæðin fela í sér skyldu ríkisins til þess að vinna að stöðugum framförum í málaflokknum, með öðrum orðum fela í sér viðvarandi verkefni við að virða, vernda og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Með hliðsjón af þeirri staðreynd að mannréttindavernd er viðvarandi verkefni ber að líta til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við skýringar á samningnum og greinum hans.
    Markmiðið með samningnum er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess (1. mgr. 1. gr.). Samningurinn nær til alls fatlaðs fólks. Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem mæta ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra (2. mgr. 1. gr.).
    Eins og fyrr segir eru meginreglur samningsins: a) virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði, þ.m.t. frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga, b) bann við mismunun, c) full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar, d) virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni, e) jöfn tækifæri, f) aðgengi, g) jafnrétti á milli karla og kvenna, h) virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytist og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína (3. gr.).
    Aðildarríkjum ber að tryggja fötluðu fólki þau réttindi sem samningurinn kveður á um með því að samþykkja viðeigandi lagaákvæði og stjórnsýsluráðstafanir, með stefnumótun og með því að útrýma mismunun, framkvæma og efla rannsóknir á algildri hönnun, vörum, þjónustu og tækjum, láta fólki í té upplýsingar á aðgengilegu formi, virða, vernda og gera ráðstafanir til að gera efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum hærra undir höfði og sinna samráðsskyldu við stefnumótun og lagasetningu (4. gr.). Aðildarríkin viðurkenna að allir séu jafnir fyrir lögum og að hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar skuli bönnuð. Í því skyni skuli aðildarríkin gera ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðlögun. Nauðsynlegar sérstakar ráðstafanir til að flýta fyrir eða til þess að ná fram jafnrétti teljast ekki til mismununar samkvæmt samningnum (5. gr.).
    Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismununar og skulu þau gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær njóti til fulls allra mannréttinda og frelsis til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja þroska, framgang og valdeflingu kvenna (6. gr.). Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við önnur börn (7. gr.).
    Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að standa að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins, vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki. Umræddar ráðstafanir skulu einnig vera til þess að auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks (8. gr.). Flutningsmenn vilja vekja sérstaklega athygli á þessari grein.
    Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Ráðstafanirnar skulu miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að efnislegu umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptum (9. gr.). Aðildarríkin árétta að sérhver manneskja eigi rétt til lífs (10. gr.). Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir (11. gr.).
    Í samningnum er kveðið á um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fatlað fólk á alls staðar rétt á viðurkenningu sem aðilar að lögum og skal njóta gerhæfis til jafns við aðra og skulu aðildarríkin tryggja aðgengi að þeim stuðningi sem þörf er á. Skulu ráðstafanirnar vera viðeigandi og árangursríkar. Ráðstafanirnar skulu vera í samræmi við og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings. Ríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að erfa og eiga eignir. Jafnframt skal tryggt að fatlað fólk verði ekki svipt eignum sínum (12. gr.).
    Virkur aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu (og í raun að réttlæti) skal vera tryggður (13. gr.). Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk njóti réttar til frelsis og mannhelgi til jafns við aðra og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu (14. gr.). Frelsi frá pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu skal tryggt (15. gr.). Einnig skal tryggja frelsi frá misnotkun, ofbeldi og misþyrmingum (16. gr.). Allt fatlað fólk á rétt á því að líkamleg og andleg friðhelgi þess sé virt (17. gr.).
    Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks til ferðafrelsis til jafns við aðra, m.a. að ábyrgjast að fatlað fólk hafi rétt til að öðlast ríkisfang og hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er. Fötluð börn skulu eiga sama rétt og önnur til skráningar, nafngiftar og þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra (18. gr.).
    Samningurinn kveður á um rétt fatlaðs fólks til þess að lifa sjálfstæðu lífi og lífi án aðgreiningar í samfélaginu, m.a. með því að tryggja að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform gildir. Einnig skal tryggt að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar félagsþjónustu, svo sem aðstoð inni á heimili og öðrum stuðningi, m.a. persónulegri aðstoð sem er nauðsynleg til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu. Jafnframt skal tryggt að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða (19. gr.).
    Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi og að hvetja framleiðendur hjálpartækja til þess að horfa til allra möguleika fatlaðs fólks til að fara sinna ferða (20. gr.).
    Kveðið er á um tjáningar- og skoðanafrelsi í samningnum. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, m.a. með því að láta fötluðu fólki í té upplýsingar sem almenningi eru ætlaðar í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni. Aðildarríkin skulu viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, blindraleturs og óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Fjölmiðlar skulu hvattir til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki (21. gr.). Ákvæði eru í samningnum um virðingu fyrir einkalífi (22. gr.) og virðingu fyrir heimili og fjölskyldu (23. gr.).
    Í samningnum eru almenn ákvæði um menntun fatlaðs fólks (24. gr.), heilsu (25. gr.), hæfingu og endurhæfingu (26. gr.) og vinnu og starf (27. gr.). Einnig viðurkenna aðildarríkin rétt fatlaðs fólks til viðunandi lífskjara og sífellt batnandi lífsskilyrða (28. gr.), einnig skulu aðildarríkin tryggja fötluðu fólki stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra (29. gr.). Þá er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi (30. gr.). Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum sem gera þeim kleift að ná markmiðum samningsins (31. gr.). Aðildarríkin viðurkenna einnig mikilvægi alþjóðlegs samstarfs (32. gr.).“
    Þegar þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins var til umfjöllunar á Alþingi fékk velferðarnefnd fjölmargar athugasemdir og minna flutningsmenn á að fara ber vel yfir þær þegar kemur að lögfestingu samningsins.
    Flutningsmenn vekja athygli á því að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er það gert að kröfu að til sé sjálfstæð innlend eftirlitsstofnun, sbr. 33. gr. samningsins. Drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun hafa verið birt á vef dómsmálaráðuneytisins. Slík mannréttindastofnun þarf að uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkra stofnana í svokölluðum Parísarviðmiðum sem samþykkt voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að sett verði á fót slík sjálfstæð mannréttindastofnun sem tekur til fleiri hópa en fatlaðs fólks en hafi það hlutverk að efla og vernda mannréttindi hér á landi samkvæmt stjórnarskrá, lögum, alþjóðasamningum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum.
    Þá leggja flutningsmenn áherslu á að valkvæður viðauki við samninginn verði einnig fullgiltur hér á landi en í honum er m.a. fjallað um kæruleið til eftirlitsnefndar fyrir einstaklinga og hópa sem hafa fullreynt leiðir innan lands. Nú hafa 92 ríki fullgilt valkvæða viðaukann en í september árið 2016 ályktaði Alþingi að valkvæði viðaukinn við samninginn yrði einnig fullgiltur fyrir árslok 2017.
    Í nefndaráliti velferðarnefndar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 kom eftirfarandi fram: „Í umsögnum sem bárust nefndinni var bent á að þýðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á íslenska tungu sé afar illa unnin og þar með óásættanleg. Í þýðingunni sé að finna alvarlegar villur sem geti jafnvel valdið misskilningi og ruglingi. Nefndin brýnir fyrir ráðuneytinu að fara þurfi vandlega yfir þýðingu sáttmálans með hliðsjón af þeim athugasemdum sem bárust nefndinni og geri lagfæringar þar sem við á.“ Flutningsmenn leggja áherslu á að bætt verði úr framangreindum annmörkum.

Tryggja þarf mjög víðtækt samráð.
    Að lokum leggja flutningsmenn mjög ríka áherslu á að unnið verði að lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að samningnum í mjög góðu og virku samráði við fatlað fólk, hagsmunahópa þess, sveitarfélög og fræðasamfélagið.


Fylgiskjal I.


Samningur um réttindi fatlaðs fólks.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0021-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Auðlesin útgáfa af samningi um réttindi fatlaðs fólks.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0021-f_II.pdf




Fylgiskjal III.


Valfrjáls bókun við samninginn um réttindi fatlaðs fólks.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0021-f_III.pdf