Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 139  —  139. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (texti ársreiknings).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 2. og 3. mgr.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félagi skv. 1. mgr. 1. gr. heimilt að semja ársreikning og, ef við á, samstæðureikning á ensku, enda hafi félagið af því mikilsverða hagsmuni, svo sem vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda. Semji félag ársreikning og, ef við á, samstæðureikning á ensku skal hann þýddur á íslensku og skal í skýringum með íslensku útgáfunni koma fram að um sé að ræða íslenska þýðingu á þeim reikningi sem samþykktur var á hluthafafundi félagsins.
     c.      3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Hafi félag fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skulu allar fjárhæðir í þeim reikningi sem sendur er ársreikningaskrá til varðveislu og birtingar vera í sömu mynt.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 109. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Gögn sem send eru ársreikningaskrá til birtingar skulu vera á íslensku. Sé ársreikningur saminn á ensku skv. 2. mgr. 7. gr. skal hann sendur ársreikningaskrá á ensku og íslensku.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda fyrir reikningsár sem hófst 1. janúar 2017 eða síðar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og felur í sér orðalagsbreytingar á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.
    Mikilvægt er að ársreikningar séu skýrir og gefi glögga mynd af stöðu þeirra félaga sem um ræðir. Hinn 2. júní 2016 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, sem m.a. fólu í sér breytingar á 7. gr. laganna í þá veru að texti ársreiknings og samstæðureiknings skuli ávallt vera á íslensku en að auki á ensku ef þörf krefur. Orðalag ákvæðisins hefur ekki þótt nægilega skýrt og í minnisblaði um áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2017 kemur fram að núgildandi lög feli í sér að semja þurfi ársreikning á íslensku sem lagður er fram á aðalfundi. Eru það íþyngjandi kröfur á félög sem eiga í alþjóðlegum samskiptum sem og félög með annan starfrækslugjaldmiðil en íslenskar krónur.
    Meginreglan verður samt sem áður sú að texti ársreiknings skuli vera á íslensku. Undantekning frá meginreglunni er að ef mikilsverðir hagsmunir, svo sem erlend fjármögnun eða viðskiptasambönd, kalli á að ársreikningur þurfi að vera saminn á ensku skuli hann einnig þýddur á íslensku og birtur á báðum tungumálum hjá ársreikningaskrá.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. og 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að skýra kröfur um texta ársreiknings, bæði þeim sem saminn er hjá félaginu og einnig þeim sem birtur er hjá ársreikningaskrá. Sé ársreikningur saminn á ensku skal jafnframt birta hann á íslensku hjá ársreikningaskrá.
    Ábendingar varðandi skyldu fyrirtækja til að semja og birta ársreikninga á íslensku hafa borist frá félögum með mikil umsvif erlendis eða starfrækslugjaldmiðil í erlendri mynt en þau höfðu áður heimild til að semja ársreikning á ensku. Einnig hafa borist ábendingar frá Viðskiptaráði Íslands, reikningsskilaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda þar sem hvatt er til breytinga á ákvæði 7. gr. núgildandi laga þar sem það er talið íþyngjandi fyrir íslensk félög sem gera upp í erlendum gjaldmiðlum, starfa í alþjóðlegu umhverfi eða hafa erlenda stjórnarmenn. Standa þarf vörð um íslenska tungu. Eins og fram kemur í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, er þjóðtungan sameiginlegt mál landsmanna og stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Mikilvægt er að ársreikningar séu birtir hjá ársreikningaskrá þannig að viðskiptalífið og þeir sem reiða sig á fjárhagsupplýsingar félaga hafi greiðan aðgang að þeim og að upplýsingarnar séu á tungumáli sem meginþorri þjóðarinnar skilur. Því er mikilvægt að hægt sé að nálgast ársreikninga félaga á íslensku. Það má þó ekki hindra það að félög geti starfað í alþjóðlegu umhverfi og notað ensku við gerð ársreikninga. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að frjáls og opin alþjóðaviðskipti séu til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auki velsæld þeirra. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er í samræmi við það að gera viðskiptaumhverfi félaga í alþjóðaviðskiptum betra.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginbreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru breyting á 7. og 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Þar er opnað fyrir þann möguleika að öll félög sem mikilsverðra hagsmuna hafi að gæta vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda geti samið ársreikning á ensku en þá skuli hann þýddur á íslensku og birtur hjá ársreikningaskrá á ensku og íslensku. Mikilvægt er að ársreikningar séu birtir hjá ársreikningaskrá þannig að viðskiptalífið og þeir sem reiða sig á fjárhagsupplýsingar félaga hafi greiðan aðgang að þeim og að upplýsingarnar séu á tungumáli sem meginþorri þjóðarinnar skilur. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2017 eða síðar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Ábendingar varðandi skyldu fyrirtækja til að semja og birta ársreikning á íslensku hafa borist frá félögum með mikil umsvif erlendis og starfrækslugjaldmiðil í erlendri mynt sem áður höfðu þar af leiðandi heimild til að semja ársreikning á ensku. Einnig hafa borist ábendingar frá Viðskiptaráði Íslands, reikningsskilaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda þar sem hvatt er til breytinga á ákvæði 7. gr. núgildandi laga en ákvæðið er talið íþyngjandi fyrir íslensk félög sem gera upp í erlendum gjaldmiðlum, starfa í alþjóðlegu umhverfi eða hafa erlenda stjórnarmenn.
    Frumvarpið var sett í samráðsgáttina 30. ágúst sl. Ein umsögn barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF). Þau eru fylgjandi þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að fyrirtæki sé heimilt að semja ársreikning/samstæðureikning á ensku hafi það af því mikilsverða hagsmuni, svo sem vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda. Þau telja mikilvægt að frekari leiðbeiningar verði gefnar um það hvernig eigi að meta hvort skilyrði um mikilsverða hagsmuni sé uppfyllt.
    Ráðuneytið hafði samráð við ársreikningaskrá við gerð frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðum um á hvaða tungumáli ársreikningi er skilað til ársreikningaskrár verði breytt. Fyrir áhrifum af frumvarpinu verða þeir sem það gera en með þessu er dregið úr kröfum til félaga sem hafa mikilsverða hagsmuni af því að semja ársreikning á ensku. Þó ber áfram að skila ársreikningi á íslensku til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Talið er að fyrir ýmis félög sé hagræði af þessari breytingu og hún muni hafa jákvæð áhrif á viðskiptalífið. Frumvarpið hefur ekki áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem það tekur einvörðungu til lögaðila.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er talið að breytingin hafi ekki fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með breytingu á 7. gr. laganna er félögum veitt heimild til að semja ársreikninga og samstæðureikninga á ensku þegar hagsmunir félagsins krefjast þess. Lagt er til að ekki verði talin upp með tæmandi hætti í ákvæðinu þau tilvik sem til álita komi við mat á því hvort hagsmunir félags krefjist þess að það semji ársreikning sinn á ensku. Þess í stað eru í ákvæðinu í dæmaskyni nefndir hagsmunir vegna fjármögnunar og erlendra viðskiptasambanda en önnur atriði geta einnig komið til. Ekki er því verið að opna alfarið fyrir gerð ársreikninga á ensku, heldur skulu hagsmunir félagsins ráða för. Skv. 117. gr. laganna ber ársreikningaskrá að gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum, samstæðureikningum og skýrslu stjórnar í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laganna. Er henni heimilt að krefjast allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru hjá hverju félagi í þessu sambandi. Eftirlit með því hvort félag hafi þá hagsmuni sem krafist er skv. 7. gr. fellur undir eftirlit ársreikningaskrár og getur hún gert athugasemdir við nýtingu heimildarinnar.
    Ekki er því talin þörf á að ársreikningaskrá veiti sérstaka heimild til að ársreikningur sé saminn á ensku.

Um 2. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum er gerð krafa um að ársreikningur sem skilað er til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar sé á íslensku. Með breytingunni sem hér er lögð til er ekki fallið frá því skilyrði. Félög sem semja ársreikning á ensku skulu jafnframt þýða hann á íslensku og standa skil á báðum útgáfum til ársreikningaskrár í sama skjali. Koma skal fram í skýringum með íslensku útgáfunni að um sé að ræða íslenska þýðingu á reikningi sem samþykktur var á hluthafafundi félagsins.

Um 3. gr.

    Lögin öðlast gildi strax og gilda fyrir reikningsár sem hófst 1. janúar 2017 eða síðar. Talið er mikilvægt að lögin gildi fyrir reikningsárið 2017 eða síðar þar sem um mikla hagsmuni er að ræða fyrir þau félög sem nýtt geta heimildina.