Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 185  —  182. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bann við plastpokanotkun í verslunum og merkingar á vörum með plastagnir.


Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram frumvarp sem banni notkun burðarpoka úr plasti í verslunum hér á landi og geri innflytjendum og framleiðendum skylt að merkja vörur sem hafa í sér plastagnir.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 148. löggjafarþingi (476. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt lítillega breytt.
    Ísland er umlukið hafi og þjóðin á afkomu sína undir því. Íslendingum ber því að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem láta sig verndun hafsins varða og leita allra leiða til að berjast gegn þeim ógnum sem steðja að lífríki þess.
    Bann við notkun burðarpoka úr plasti í verslunum er vel til þess fallið að draga úr notkun plasts og vekja fólk til umhugsunar um þennan brýna vanda og það hvað hver og einn getur gert til að draga úr plastnotkun sinni. Merkingar á vörum sem hafa í sér plastagnir hjálpa neytendum að sniðganga slíkan varning en velja frekar umhverfisvænar vörur og skapa þannig þrýsting á framleiðendur og innflytjendur að hugsa sinn gang í þessum efnum.
    Plastmengun er ein helsta vá sem vofir yfir vistkerfum jarðar, einkum í hafi. Í ritgerð Guðfinns Sigurvinssonar til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu við HÍ frá því í febrúar 2018, Plastmengun í hafi: Hvað er til ráða?, 1 er dregin upp greinargóð mynd af þeim vanda sem um er að ræða. Þar kemur fram að plast á sér ekki langa sögu, kom fram í kringum aldamótin 1900, en er nú til dags nær alls staðar að finna í nærumhverfi okkar og hversdagslífi.
    Við framleiðslu plasts eru notuð efni eins og kol, sellulósi, gas og salt en meginuppistaðan er olía. Áætlað er að um tvö kíló af olíu þurfi til að framleiða eitt kíló af plasti. Endingartími plasts er mikill, það er slitsterkt og brotnar í sífellt minni einingar, í plastagnir eða örplast, fremur en að eyðast alveg. Plast er létt og flýtur og berst þannig um langan veg. Það tekur 100 til 500 ár fyrir plast að eyðast í náttúrunni. Það táknar að plastpoki sem við hendum í hugsunarleysi gæti horfið árið 2518 en fram til þess hafa agnir úr honum dreifst um höf og lönd. Plastagnirnar enda oftar en ekki í maga fiska í hafinu kringum landið og finna sér þar með leið inn í okkur sem þá snæðum.
    Plastagnir eru óuppleysanlegar, innan við 5 mm að stærð og brotna ekki niður í lífverum. Þær er að finna í ýmsum vörum, til að mynda snyrtivörum og tannkremi, og enda því iðulega í niðurföllum, vöskum og sturtubotnum. Þaðan eiga þær greiða leið út í sjó. Þær eru í drykkjarvatni okkar og finnast í sífellt ríkara mæli í fiskum og öðrum sjávardýrum.
    Í svari þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um plastagnir á 144. löggjafarþingi (332. mál), kemur fram að engar takmarkanir eru við notkun plastagna, enginn listi er til um vörur sem þær eru í og ekki er skylt að merkja slíkar vörur sérstaklega.
    Íslendingar nota samkvæmt ritgerð Guðfinns 70 milljónir einnota plastpoka á ári. Að meðaltali er hver plastpoki notaður í 25 mínútur og síðan hent. Talið er að árlega lendi um átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu með tilheyrandi afleiðingum fyrir lífríkið. Í Kyrrahafinu hafa myndast ógnarstórir plastflákar 2 og staðhæfa sumir vísindamenn að þeir séu um 15 milljónir ferkílómetra að stærð, aðeins minni en Rússland. Plastflákarnir koma í veg fyrir að sólarljósið nái til lífríkisins og átan, sem þar er undirstaða alls, hverfur með tilheyrandi allsherjardauða lífríkisins.
    Hér gilda engin landamæri og allar þjóðir þurfa að leggja sitt af mörkum. Þar hljóta Íslendingar að finna til sérstakrar ábyrgðar vegna hagsmuna sinna af verndun hafsins. Nokkuð hefur áunnist en augljóst að verk er að vinna og Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í baráttunni gegn þessari miklu vá.
    Óskandi væri að Ísland yrði í fararbroddi þjóða heims í baráttunni gegn plastmengun. Að undanförnu hefur átt sér stað vitundarvakning meðal almennings um hreinsun strandlengjunnar og hefur til að mynda Blái herinn gengið þar myndarlega fram fyrir skjöldu undir forystu Tómasar Knútssonar. Sjálfboðaliðar hafa unnið að því að hreinsa strendur landsins og í verslunum ber æ meira á því að boðið sé upp á margnota tauburðarpoka í stað plastpoka. Þetta er mjög jákvæð þróun en betur má ef duga skal í þessum efnum. Það er vissulega verðugt verkefni að hreinsa strendur landsins, en það er þó enn mikilvægara að koma í veg fyrir að plastið lendi yfirleitt í sjónum. Áhrifaríkasta leiðin til þess er að draga úr notkun einnota plasts á borð við plastpoka í verslunum.
    Þegar er notkun einnota plastpoka í verslunum bönnuð í nokkrum löndum. Stjórnvöld í Bangladess riðu á vaðið árið 2002. Í Kína var bann við framleiðslu og notkun þynnstu plastpokanna leitt í lög árið 2008 ásamt því að ókeypis plastpokar af öllu tagi í verslunum voru bannaðir. Stjórnvöld í Kína hafa frá og með árinu 2018 ákveðið að banna innflutning á plasti til endurvinnslu en árum saman hafa lönd heimsins flutt milljónir tonna af slíku plasti til Kína og Hong Kong. Þetta er talið hafa mikil áhrif á endurvinnslu í heiminum, t.d. þannig að draga muni úr söfnun og endurvinnslu á ákveðnum tegundum plasts og plastmengun aukist á þann veg.
    Ítalir settu bann við notkun plastpoka í verslunum árið 2012, Frakkar gerðu slíkt hið sama árið 2016 og hafa um hríð verið í fararbroddi við að banna einnota plast og verða bollar, diskar og hnífapör úr einnota plasti bönnuð frá janúar 2020. Frá þeim tíma verður einnota borðbúnaður að vera gerður úr minnst 50% lífrænna efna, sem hægt er að endurvinna á heimilum, og 60% árið 2025.
    Spænsku eyjarnar Mallorca, Menorca, Ibiza og Formentera hafa ákveðið að skoða bann sem taki gildi árið 2020 við sölu á ýmsum neysluvörum úr einnota plasti (svo sem borðbúnaði, rörum, einnota rakvélum, kveikjurum og kaffihylkjum). Einnig er til umræðu að krefja veitingastaði og bari um að bjóða viðskiptavinum ókeypis vatn í glösum til þess að minnka plastflöskunotkun.
    Ýmis Afríkuríki hafa samþykkt eða innleitt bann við notkun plastpoka. Kenía innleiddi til að mynda bann við notkun plastpoka árið 2017 og Rúanda bannaði innflutning og notkun þunnra plastpoka árið 2004 og bann við öllum plastpokum tók gildi árið 2008. Loks má nefna Kaliforníuríki í Bandaríkjunum þar sem innleitt var bann við einnota plastpokum í verslunum árið 2014 en bannið tók þó ekki gildi fyrr en í nóvember 2016. 3
    Árið 2015 samþykkti Alþingi, að tillögu Oddnýjar G. Harðardóttur og fleiri þingmanna úr öllum flokkum sem þá voru á þingi, þingsályktun nr. 18/144 um að draga úr plastpokanotkun. Þar var ráðherra falið að leita leiða til þess að draga úr plastpokanotkun hér á landi. Í kjölfarið var tollalögum breytt og upplýsingum safnað um umfang plastpokanotkunar á Íslandi. Árið 2016 var undirritaður samningur milli Samtaka verslunar og þjónustu og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um að draga úr notkun plastpoka. Þessi samningur var af einhverjum ástæðum ekki endurnýjaður árið 2017. Í ár tók til starfa samráðsvettvangur um plast á vegum umhverfis- og auðlindaráðherra en tillögur þess hóps hafa enn ekki komið fram. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið gerði nýlega samning við Umhverfisstofnun um verkefni sem ætlað er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum plastnotkunar. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar snýr það að fræðslu til ferðamanna um að óþarfi sé að kaupa vatn í einnota umbúðum hér á landi og hins vegar að því að draga úr notkun á einnota plasti. Verkefnið tengist úrgangsforvarnastefnu umhverfis- og auðlindaráðherra, Saman gegn sóun, sem gildir til ársins 2027. 4
    Flutningsmenn fagna verkefninu en telja að ganga megi lengra og leggja því til að ráðherra leggi fram frumvarp þar sem lagt verði bann við notkun burðarpoka úr plasti í verslunum. Í frumvarpinu verði einnig kveðið á um skyldu innflytjenda og framleiðenda til að merkja vörur sem hafa í sér plastagnir.
1     hdl.handle.net/1946/29321
2     www3.weforum.org/docs/WEF_The_New_Plastics_Economy.pdf
3     www.ncsl.org/research/environment-and-natural-resources/plastic-bag-legislation.aspx
4     www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2018/09/21/Verkefni-med-Umhverfisstofnun -til-ad-draga-ur-plastnotkun/