Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 295  —  85. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um lyfið Naloxon.

     1.      Hversu miklu hefur verið ávísað af lyfinu Naloxon, sem er mótefni gegn morfíni og morfínskyldum lyfjum, og hversu margir hafa fengið lyfinu ávísað? Svar óskast sundurliðað eftir árum undanfarin tíu ár.
    Eftirfarandi upplýsingar fengust frá Lyfjastofnun um sölutölur lyfsins Naloxons:
    Fjöldi pakkninga af Naloxon-stungulyfi 0,4 mg/ml 1 ml:

2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
32 201 135 74 197 135 179 135 86

    Við þetta bætast eftirfarandi lyfjapakkningar sem afgreiddar hafa verið á undanþágu:

Ár 2010 2011 2012 2013 2014
Naloxon 0,4 mg/ml stungulyf 1 ml 112
Naloxon-mixtúra 1 mg/ml 500 ml 2 2 4
Naloxon ratiopharm 0,4 mg/ml 10x 1ml 6 10
Heildarfjöldi 112 2 8 4 10
                        
    Naloxoni hefur ekki verið ávísað eins og öðrum lyfjum heldur fyrst og fremst verið notað á heilbrigðisstofunum og í sjúkrabílum. Naloxon er notað í tvenns konar tilgangi, þ.e. annars vegar sem mótefni gegn morfíni og morfínskyldum lyfjum þegar um misnotkun eða ofskömmtun á þeim lyfjum er að ræða og hins vegar sem meðferð við aukaverkunum eða óæskilegum áhrifum morfíns og morfínskyldra lyfja sem kunna að koma upp við meðferð sjúklinga, t.d. á gjörgæslu- og legudeildum.
    Hjá Landspítala er ekki mögulegt að fá upplýsingar um lyfjaávísanir en hægt er að fá upplýsingar frá birgðastýringarkerfi apóteks sjúkrahússins um selt magn á deildir spítalans annars vegar og gefið magn úr lyfjagjafa- og ávísanakerfinu Therapy hins vegar. Þar sem Therapy-kerfið er ekki notað á öllum deildum spítalans, t.d. á bráðadeild, er ekki hægt að svara spurningunni um hversu margir hafi fengið lyfið gefið nákvæmlega eða nánar en hér er gert.
    Til að nálgast svar við spurningunni um hversu mikið lyfinu hefur verið ávísað var fjöldi seldra pakka á allar deildir Landspítala (þ.m.t. fyrir sjúkrabíla) umreiknaður yfir í fjölda seldra lykja fyrir stungulyf og fjölda flaska fyrir mixtúru en lyfið er til í tveimur mismunandi lyfjaformum, sem stungulyf eða mixtúra. Mixtúran er 500 ml flaska sem nýtist í fleiri en eina lyfjagjöf.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Naloxon-mixtúra er ekki notuð í sama tilgangi og stungulyf lyfsins en mixtúran er notuð gegn aukaverkunum ópíóíða í meltingarvegi hjá sjúklingum sem þurfa mikla verkjameðferð með ópíóíðum. Mest er þessi notkun á gjörgæsludeildum og barnadeildum.
    Hafa ber í huga að fyrningar á deildum eru ekki frádregnar sölutölum og þegar lyfjaskammtur er minni en heildarrúmmál lykju stungulyfs þá fyrnist sá hluti sem ekki er notaður en er ekki frádreginn sölutölum. Því eru sölutölur nálgun á notað magn lyfsins.
    Úr lyfjagagnagrunni landlæknis fengust eftirfarandi upplýsingar vegna ávísana á Naloxon fyrir sjúklinga utan sjúkrahúsa (en væntanlega hefur einhver hluti þessarar notkunar verið innan sjúkrahúsa).
    Fjöldi einstaklinga með ávísun á Naloxon B. Braun:

Ár Karlar Konur Stofnanir Heild
2003 2 2
2004 1 3 4
2005 2 2
2009 1 1
2010 1 1
2011 1 1
2012 1 1
2013 1 1
2014 1 1 1 3
2015 2 1 3
2016 1 5 6
2017 2 3 5
2018 1 1 1 3

    Fyrir utan það Naloxon sem ávísað hefur verið innan og utan Landspítala hefur örlítið verið notað af Naloxoni hjá SÁÁ og óverulegt magn hjá Frú Ragnheiði.

     2.      Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að tryggja aðgengi vímuefnaneytenda að Naloxon? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Engin fyrirstaða er í lögum eða reglugerð sem gilda um ávísun lyfja eða afgreiðslu og afhendingu lyfja í lyfjabúð sem kemur í veg fyrir að læknir ávísi Naloxoni til fíkla eða aðstandenda þeirra til að grípa til í neyð. Þá er lyfjafræðingum í lyfjabúðum jafnframt heimilt að afgreiða og afhenda lyfseðilsskyld lyf án þess að lyfseðli sé framvísað í neyðartilvikum.
    Þá er í undirbúningi opnun neyslurýmis í Reykjavík í samstarfi við Rauða krossinn og Reykjavíkurborg. Í neyslurými verður boðið upp á aðstöðu þar sem einstaklingar geta sprautað vímuefnum í æð, undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanns. Gert er ráð fyrir að endurlífgunarbúnaður verði í rýminu, þar með talið lyfið Naloxon, svo að hægt sé að grípa inn í tilfelli ofskammtana.
    Áfram verður aðgengi að Naloxoni tryggt í sjúkrabifreiðum og á heilbrigðisstofnunum. Þá hefur Frú Ragnheiður verið með aðgang að lyfinu.

     3.      Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir auknu aðgengi að Naloxon, t.d. með því að tryggja aðgengi að Naloxon-nefúða?
    Eins og áður sagði er tvö form Naloxons notuð hér á landi, stungulyf og mixtúra. Bæði formin eru notuð á heilbrigðisstofnunum og stungulyfið einnig af bráðaliðum í sjúkrabílum. Nauðsynlegt er að þeir sem gefa lyfið á þessu formi hafi þekkingu og þjálfun við notkun þess. Þá hefur Frú Ragnheiður aðgang að lyfinu, eins og áður segir.
    Naloxon í nefúðaformi er tiltölulega nýlegt lyfjaform lyfsins og hefur ekki verið markaðssett hér á landi. Til að veita aðgengi að Naloxon-nefúða þarf annað tveggja að koma til, markaðsleyfi sem lyfjafyrirtæki sækir um til Lyfjastofnunar eða undanþága frá markaðsleyfi sem einstakir læknar sækja um til Lyfjastofnunar vegna einstakra sjúklinga. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun hafa engir undanþágulyfseðlar borist Lyfjastofnun vegna lyfsins. Athygli er vakin á því að það er ekki hlutverk ráðherra að beita sér fyrir markaðsleyfum eða undanþágum vegna einstakra lyfja heldur hafa framangreindir aðilar það hlutverk samkvæmt lyfjalögum.
    Fíkn er heilbrigðis- og félagsvandi sem er viðfangsefni stjórnvalda líkt og önnur verkefni á sama sviði. Mikilvægt er að fíkniefnaneytendum standi til boða öflug aðstoð við að komast inn í líf án vímuefna, en það dugir ekki eitt og sér og hafa því stjórnvöld jafnframt beitt sér fyrir skaðaminnkandi úrræðum, t.d. því að tryggja aðgengi að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptaþjónustu og skimun fyrir HIV og lifrarbólgu C. Þá er í undirbúningi opnun neyslurýmis.